12.05.2002 til 02.06.2002

Mary Ellen Mark – American Odyssey

Mary Ellen Mark er einn áhrifamesti og markverðasti heimildaljósmyndari sem nú starfar. Um það vitna meira en tugur athyglisverðra bóka, sýningar sem víða hafa verið settar upp, auk myndafrásagna og stakra ljósmynda sem birst hafa í helstu tímaritum heims á nærfellt fjórum áratugum. Ljósmyndarinn hefur hlotið flest þau verðlaun og viðurkenningar sem veitt eru í faginu og fyrir nokkrum misserum kusu lesendur tímaritsins American Photo hana áhrifamesta kvenljósmyndara sögunnar, og var þar úr fríðum flokki kvenna að velja.

Mary Ellen Mark - American Odyssey

Mary Ellen beinir linsu sinni að fólki; mennirnir og aðstæður þeirra eiga hug hennar allan. Hún vill sýna hvernig hinum vegnar í lífinu og er ekki sama um þá sem hún myndar. Við störf sín hefur Mary Ellen komið víða við, bæði hvað myndefni og staði varðar. Þessi fjölbreytileiki er greinilegur í myndafrásögnum hennar og bókum en nefna má að myndirnar í þremur bókanna eru teknar á Indlandi: ein er um vændiskonur í Bombay, önnur um sirkusa og sú þriðja um líknarstörf móður Theresu. Mary Ellen hefur ferðast linnulítið um fjarlæg lönd síðustu áratugi, en hún er búsett í Bandaríkjunum og hefur skráð í því margbrotna samfélagi manna fjölbreytilegar frásagnir í myndum, þar á meðal margar helstu sögur sínar.

 

Í ljósmyndum Mary Ellen Mark frá Bandaríkjunum birtist fólk af ólíku sauðahúsi og af mismunandi stigum samfélagsins. Aðstæðurnar sem birtast í myndunum eru oft undarlegar, án þess að um ádeilu sé að ræða; afstaðan í ljósmyndunum er iðulega flókin og erfitt að útskýra hvað það er sem gerir þær jafn athyglisverðar og raun ber vitni. Þær geta verið írónískar, sökum látbragðs eða athafna fyrirmyndanna, en á sama tíma alvarlegar og vekja fólk til umhugsunar. Mary Ellen starfar ósjaldan meðal fólks við átakanlegar kringumstæður og skapar ljósmyndir sem eru fullar hlýju, en án væmni eða nokkurra fordóma gagnvart fyrirmyndunum. Fólks sem getur í senn verið grimmt og ólánlegt, skoplegt og aðdáunarvert, undarlegt en þó kunnuglegt. Myndirnar vekja spurningar en þannig blasir bandaríski raunveruleikinn við ljósmyndaranum og þannig vill hún að við upplifum hann í myndum hennar.

 

Börn, klæðskiptingar, mótorhjólalið, feitir, grannir, eldri borgarar, fegurðardrottningar, trúaðir, geðveikir, vændiskonur, öfgamenn, mótmælendur, ríkir og fátækir, þekktir sem óþekktir; allir virðast þeir lenda á myndum Mary Ellen Mark. Samúð hennar með fólkinu er einkanlega áberandi í stærri myndafrásögnunum, um fólk á jaðri tilverunnar, eins og Damm-fjölskylduna, sem Mary Ellen myndaði með nokkurra ára millibili, og Tiny sem var aðalpersónan í frásögninni um heimilislausa unglinga í Seattle. Mary Ellen hefur myndað Tiny reglulega, allt frá því að hún var fimmtán ára götubarn sem átti í erfiðu sambandi við móður sína, og þar til í dag, þegar hún er sjálf orðin vansæl móðir á fertugsaldri sem á fimm börn með fimm mönnum. Í þessum sögum kemst ljósmyndarinn svo nærri fyrirmyndunum – fólki sem er að upplagi afskaplega ósennilegar hetjur í sögum – að, eins og gagnrýnandi tímaritsins Time komst að orði, þá „er eins og mörkin sem skilji ljósmyndina frá lífinu hafi allt að því horfið“. Og um Damm-fjölskylduna, fólkið sem berst við eiturlyfjafíkn og býr börnum sínum skelfilegan heim að takast á við, sagði gagnrýnandinn þau ekki þess verð að linsu væri beint að þeim, nema vegna þess að Mary Ellen Mark stæði þar að baki með samúð sína vegna aðstæðna þeirra og hefði máttinn til að gera frásögn þeirra mikilvæga.

 

Árið 1971 var Mary Ellen að vinna við kvikmyndina Gaukshreiðrið og kom þá á deild 81 á geðsjúkrahúsi í Oregonfylki þar sem vistaðar voru mjög sjúkar konur. Sú heimsókn hafði töluverð áhrif á Mary Ellen sem hafði lengi velt fyrir sér lífi geðsjúkra. Nokkrum árum síðar fékk hún leyfi til að mynda á deildinni og dvaldi í rúman mánuð með konunum. Myndafrásögnin kom út árið 1979 í bókinni Ward 81 og sýndi í fyrsta sinn á afgerandi hátt hversu auðveldlega Mary Ellen ávann sér traust fólks. Sýnin í myndunum er mjög persónuleg, en ljósmyndarinn einsetti sér að sýna að sjúklingarnir væru raunverulegt fólk sem lent hefði í þessum erfiðu aðstæðum. Þeir eru líka ófáir sem hafa fullyrt að bestu verk Mary Ellen Mark séu einmitt slíkar myndafrásagnir, þar sem hún sýnir sannan heim fólks sem annars er falinn; opinberar á samúðarfullan hátt líf fólks á jaðri mannlegs samfélags.

 

Sumir ljósmyndarar, sem náð hafa jafn langt og Mary Ellen, fara að endurtaka sig og viðhalda einungis þeim myndrænu stíleinkennum sem vöktu athygli á þeim. Því er ekki þannig farið með Mary Ellen Mark. Hún setur markið ætíð jafn hátt, hvort sem hún sækist eftir myndrænum gæðum eða er í leit að þeim myndefnum sem hún hefur áhuga á að takast á við. Hún er réttilega sannfærð um að hún hafi sitthvað markvert að segja með myndum sínum. Mary Ellen er fræg í ljósmyndaheiminum fyrir vinnuaðferðir sínar, fyrir það hversu einbeitt hún tekst á við sérhvert verkefni. Hún leggur sig alla fram við að ná góðu sambandi við fólkið sem hún myndar og að finna áhugaverð sjónarhorn. Að myndatökunni lokinni má síðan sjá að hún er einstakur myndstjóri og leggur mikið á sig við að koma frásögninni til skila með réttu vali mynda; þar gerir hún miklar kröfur til tæknilegra gæða ljósmyndanna; að þær segi söguna á eins skýran hátt og unnt er og að myndrænt séð geti þær staðið einar og óstuddar.

 

Á síðustu árum hefur Mary Ellen í auknum mæli einbeitt sér að portrettmyndum og einnig hefur hún fundið nýjar leiðir til að sýna einstakt skopskyn sitt í myndum. Gagnrýnendur hafa bent á að hún beini enn sjónum að fólki sem telja má utan hefðbundins samfélagsramma, fólki sem deili sams konar upplifunum og siðum, en að áherslan á líf á jaðrinum hafi vikið fyrir myndum af fólki sem er í hefðbundnara lífsmynstri, þótt myndirnar setji það í sérstakt ljós. Sem dæmi um slíkar myndraðir má nefna myndir af gömlum samkvæmisdönsurum í Flórída og menningunni í kringum ródeóin í Texas. Í þessum myndum birtast afkimar menningar sem eru ákaflega bandarískir en sammannlegir um leið.

 

Fyrir nokkrum árum sagði Mary Ellen í viðtali: „Ég held að þú opinberir sjálfa þig með því sem þú kýst að ljósmynda, og ég kýs myndir sem segja eitthvað um myndefnið. Það er ekkert mjög áhugavert við sjálfa mig, það er fólkið sem ég mynda sem er áhugavert og því reyni ég ætíð að koma til skila.“

 

Einar Falur Ingólfsson

Upplýsingar

Upplýsingar

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Grófarhús, Tryggvagata 15, 6. hæð

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6390

Hafðu samband

Tekið á móti hópum (10+) eftir samkomulagi

Skólaheimsóknir

Hafðu samband

Opið

Opið

mán-fim 10:00-18:00

fös 11:00-18:00

helgar 13:00-17:00

Jólahátíðin

Lokað 24.-26. des og 31. des- 1. jan.

Páskahátíðin

Lokað páskahelgina frá fim-mán

Sumardagurinn fyrsti.

Lokað

Verkalýðsdagurinn

Lokað 1. maí

Uppstigningardagur

Lokað

Hvítasunna

Lokað

Þjóðhátíðardagurinn

Lokað 17. júní

Aðgangseyrir

Aðgangur

Fullorðnir

1.240 kr.

Börn og öryrkjar

Frítt

Nemendur með gilt skólaskírteini

850 kr.

Menningarkort, árskort á borgarsöfnin

7.700 kr.

Menningarkort 67+, árskort

2.220 kr.

ICOM og FÍSOS korthafar

Frítt

Skráðu þig á póstlista Borgarsögusafns

Þú færð fréttabréf um opnanir og viðburði ofl.