Mats - 1956–1978
Ljósmyndarinn Mats Wibe Lund er landsmönnum að góðu kunnur fyrir loftljósmyndir sínar af landslagi og átthögum. Myndirnar eiga sinn fasta stað á fjölmörgum íslenskum heimilum og er óhætt að segja að Mats hafi markað sér sérstöðu með þeim á íslenskum ljósmyndamarkaði og átt þar sviðið um áralangt skeið. Á sýningunni Mats 1956–1978 er sjónum beint að fyrri hluta ferils hans. Mats myndar það sem fyrir augu ber og vekur forvitni hans á ferðalögum um landið. Um er að ræða skrásetningu á landi og þjóð á tíma sem einkennist af uppbyggingu og metnaði í innlendum iðnaði og miklum þjóðfélagsbreytingum. Minningar lifna við og fara á flug. Við svífum um malarvegi landsins og fáum innsýn inn í stemningu þessa tíma og upplifum margbreytileika tilverunnar í allri sinni dýrð. Mats fangar síldarstemninguna vel enda öllum hnútum kunnugur þar sem hann tók sjálfur þátt í ævintýrinu. Við stöldrum við í heyskap, fylgjumst með flugvæðingu landans, virðum fyrir okkur atorkusemi í sjávarútvegi, útivist milli fjalls og fjöru og er þá aðeins brot upp talið af myndefninu.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Myndirnar eru mikilvægt framlag til íslenskrar ljósmyndasögu. Þær eru teknar á 6×6 Hasselblad-myndavél og einkennast af formnæmi og óskeikulli myndbyggingu þar sem tæknikunnátta og listræn gæði haldast í hendur. Mats er afkastamikill ljósmyndari. Hann byrjaði fljótt að taka litljósmyndir og hefur þá sérstöðu að hann hefur haldið áfram að vinna í myndasafni sínu, skráir það skipulega og heldur utan um myndasölu í gegnum vefsíðu sína www.mats.is. Ásamt umfangsmiklum rekstri á myndasafninu rak hann einnig ljósmyndastofu um árabil auk þess að starfa sem blaðamaður í upphafi ferilsins. Mats er nú 75 ára gamall og er enn að og fer í flugferðir til að ljósmynda hvenær sem veður leyfir.
Um Mats Wibe Lund
Mats Wibe Lund fæddist í Noregi 28. febrúar 1937. Hann er sérhæfður í loftljósmyndun sem hann lærði í Konunglega norska flughernum, í Frakklandi og Þýskalandi. Faðir hans rak fyrirtæki sem var í sama húsi og ræðismannsskrifstofa Íslands í Ósló og tendraði það áhuga hans á Íslandi. Mats heimsótti landið fyrst sumarið 1954 er hann vann við uppgröft í Skálholti. Hann heillaðist af landi og þjóð og hefur verið búsettur hér síðan 1966. Mats hefur tekið þátt í mörgum sýningum bæði hér og erlendis og hefur haldið margar einkasýningar á Íslandi.