Reykjavík samtímans – samsýning 17 ljósmyndara
Reykjavíkurborg hefur löngum verið ljóðskáldum, rithöfundum og listmálurum hugleikin. Á sýningu Ljósmyndasafns Reykjavíkur er borgin viðfangsefni margra af fremstu ljósmyndurum samtímans. Hvaða augum líta ljósmyndarar samtímans borgina á nýju árþúsundi ? Hvaða einkenni borgarinnar má greina í myndum þeirra ? Hvað segja myndirnar um hug þeirra til Reykjavíkur ?
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Verkin á sýningunni Reykjavík samtímans, sem eru á 7. tug alls, endurspegla þá margbreytilegu mynd sem borgin tekur á sig þegar hún verður myndefni 17 ólíkra ljósmyndara. Með því fæst einstök sýn á Reykjavíkurborg, af yngri og eldri kennileitum hennar, hversdagslegum hlutum sem allir þekkja en fæstir sjá lengur, litadýrð sem borgarbúar gefa ekki gaum að en er alltum kring.
Greina má á myndum þessara glöggu listamanna fjölda frumlegra sjónarhorna sem mörgum reynist erfitt að finna. Flestum borgarbúum, á hlaupum í dagsins amstri, verður eingöngu starsýnt á skóbúnað sinn, gráar gangstéttir og götur. Þeir falla sjálfir einhvern veginn inn í umhverfið.
Sýningin Reykjavík samtímans mun opna augu sýningargesta og minna almenning á að ganga teinréttir með augun opin næst þegar þeir etja kappi við íslenskt veðurfar og hversdagsleikann. Að uppgötva borgina upp á nýtt, þá sömu borg og þeir héldu sig þekkja til hlítar.
Ekki síst opnar sýningin augu almennings fyrir þeirri grósku sem er í ljósmyndun á Íslandi um þessar mundir og þeim fjölda góðra ljósmyndara sem landið á. Hægt er að fullyrða að það er langt síðan jafn breiður hópur ljósmyndara hefur komið saman til að sýna verk sín og hugðarefni, myndefni sem þeir fá sjaldan tækifæri til að kynna fyrir almenningi.
Eftirfarandi 17 ljósmyndarar tóku þátt í sýningunni Reykjavík samtímans.
Atli Már Hafsteinsson
Bára Kristinsdóttir
Berglind Björnsdóttir
Brian Sweeney
Einar Falur Ingólfsson
Friðþjófur Helgason
Guðmundur Örn Ingólfsson
Gunnar Svanberg Skúlason
Ilmur Stefánsdóttir
Katrín Elvarsdóttir
Kjartan Þorbjörnsson (golli)
Kristín Hauksdóttir
Kristján Pétur Guðnason
Páll Stefánsson
Ragnar Axelsson (RAX)
Sigríður Kristín Birnudóttir
Sigurþór Hallbjörnsson (Spessi)