Grófarsalur í Ljósmyndasafni Reykjavíkur 20.01.2018 til 06.05.2018

Samsýning: ÞESSI EYJA JÖRÐIN

Stuart Richardson, Kristín Sigurðardóttir, Claudia Hausfeld, Pétur Thomsen og Hallgerður Hallgrímsdóttir. Sýningastjóri er Katrín Elvarsdóttir.

 © Kristín Sigurðardóttir
©Kristín Sigurðardóttir

Þessi eyja jörðin er titill samsýningar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur en hún er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands. Á sýningunni beina fimm ljósmyndarar búsettir á Íslandi sjónum að náttúrunni. Frá upphafi hefur landslagsljósmyndun verið ráðandi í íslenskri ljósmyndalist og gegnt því meginhlutverki að kynna Ísland á alþjóðavettvangi og styðja þjóðernisvitund Íslendinga. Þessi grein gegnir enn afar mikilvægu hlutverki innan ljósmyndalistarinnar. Á Þessi eyja jörðin beitir hver listamaður afar persónulegri aðferð sem skapar fjölbreytni í myndbyggingu og áferð verkanna á sýningunni. Verkin, sem bæði eru ljósmyndir og myndbönd, eiga það sameiginlegt að öll eru þau prófsteinar á veruleikaskynjun okkar þegar kemur að myndheimi náttúru og landslags. 

„Þessi eyja jörðin fjallar um íslenska náttúru í ljósmyndalist samtímans. Eitt af undrunarefnum íslenskrar listasögu er að ljósmyndunin er eldri en málaralistin. Frá upphafi hefur landslagsljósmyndun verið ráðandi í íslenskri ljósmyndalist og gegnt því lykilhlutverki að kynna Ísland á alþjóðavettvangi og viðhalda þjóðernisvitund Íslendinga. Undanfarinn áratug hefur kvikmyndaiðnaðurinn sýnt ókunnuglegu landslaginu á Íslandi vaxandi áhuga, með augljósri tilhneigingu til að nota það sem baksvið fyrir sögur af ætt vísindaskáldskapar um geimferðir og framandi reikistjörnur. Það er kannski ekki að undra þar sem geimfarar frá Geimrannsóknastofnun Bandaríkjanna, NASA, æfðu sig í íslensku hrauni fyrir akstur á fjórhjólavagni á tunglinu. Það er því kannski engin tilviljun heldur að heiti sýningarinnar – Þessi eyja jörðin – er fengið frá gamalli Hollywoodkvikmynd úr flokki vísindaskáldskapar. Enda þótt atriðin frá reikistjörnunni Metalúnu hafi verið tekin upp í kvikmyndaveri, hefði allteins verið hægt að mynda þau á vettvangi úti í hrauni í útjaðri Reykjavíkur.

Verkin á sýningunni eiga sameiginlegt það ókunnuglega andrúmsloft sem ríkir í framtíðar- og furðusagnakvikmyndum. Í myndbandaröðinni Undirstraumi skráir Stuart Richardson landslagið í þröngum firði á Austurlandi þar sem eini ljósgjafinn er mjór geisli frá vita sem sópast yfir yfirgefið landið og birtir okkur leiftursýnir sem halda okkur í spennu gagnvart hinu óþekkta. Kristín Sigurðardóttir hefur skapað marglaga myndir í hinni nýju myndröð sinni G-3/ Guadrant Alpha 1, 30205. Hinar ókortlögðu lendur Mars eru hafðar að leiðarljósi fyrir mótaðar stemmningar byggðar á marglaga ljósmyndasamsetningum þar sem hinu kunnuglega er breytt í hið ókunnuglega. Claudia Hausfeld kannar holur og andstæður þeirra í verki sínu Fores út frá hugmyndinni um framandleika. Sú einangrun sem hún finnur til og stafar af hrjóstrugu landslagi umluktu úthafi – þessari eyju sem nefnd er Ísland – veldur innilokunarkennd sem jafnframt verður lykill að því að kanna skynjunina. Landslagsljósmyndun Péturs Thomsen sýnir okkur hvernig tíminn setur skáldlegt mark sitt á heiminn. Í myndröð Péturs Landnám blasir við áhorfandanum drungaleg sjón þar sem tilbúið ljós skapar ógnvænlegt andrúmsloft á svæðum sem mannshöndin hefur breytt. Hallgerður Hallgrímsdóttir fer með áhorfandann í dramatískt ferðalag á óþekktan stað í röð svarthvítra mynda sem ber nafnið Sprungur þar sem hún blandar saman dulrænni náttúru og sjálfsmyndum sem hún man varla eftir að hafa tekið. Hver listamaður beitir afar persónulegri aðferð sem skapar fjölbreytni í myndbyggingu og áferð. Samt má finna hliðstæður – og allir fimm listamennirnir kynna fyrir okkur listaverk sem eru prófsteinar á veruleikaskynjun okkar.“  Katrín Elvarsdóttir, sýningarstjóri.

Sýningunni lýkur 6. maí 2018.

Æviágrip listafólksins

Hallgerður Hallgrímsdóttir (f. 1984)

Hallgerður lagði stund á listræna ljósmyndun í Glasgow School of Art og lauk þaðan prófi árið 2011 en sneri þá aftur til Reykjavíkur þar sem hún býr nú, vinnur að list sinni, kennir og skrifar. Verk hennar hafa verið sýnd í fjölmörgum söfnum og galleríum á Íslandi og erlendis, svo sem The Photographer’s Gallery í London, Hasselblad Center í Gautaborg, Fondazione Fotografia Modena á Ítalíu, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Listasafni Akureyrar. Nýlega sendi Hallgerður frá sér fyrstu ljósmyndabók sína, Hvassast, þar sem sjónum er beint að fegurð íslensks hversdagsleika.

http://hallgerdur.com

Claudia Hausfeld (f. 1980)

Claudia Haufeld nam ljósmyndun við Listaháskólann í Zürich og lauk BA-prófi í myndlist við Listaháskóla Íslands árið 2012. Hún hefur víða haldið sýningar, m.a. í Fotoforum Pasquart í Biel í Sviss, Hafnarborg og Þjóðminjasafni Íslands. Verk hennar eru í fjölmörgum einkasöfnum bæði á Íslandi og erlendis og í Hoffmann-Roche-safninu í Sviss. Hún hefur verið virkur þátttakandi í fjölmörgum framtaksverkefnum listamanna á Íslandi, í Danmörku og Sviss og situr sem stendur í stjórn Nýlistasafnsins í Reykjavík. Auk þess að fást við listsköpun er Claudia annar af tveimur umsjónarmönnum ljósmynda- og myndvinnsluversins í Listaháskóla Íslands.

www.claudiahausfeld.com

Kristín Sigurðardóttir (f. 1981)

Kristín Sigurðardóttir er myndlistarmaður og ljósmyndari. Hún lauk meistaraprófi í ljósmyndun frá Parsons The New School of Design árið 2014 og fékk úthlutað Deanʼs námsstyrkjum árin 2012–2014. Hún er einnig með BA-próf í myndlist frá Íslandi. Hún starfaði áður sem lærlingur í Adam Fuss Studio, aðstoðarkennari við Parsons og vettvangsljósmyndari við gerð hinnar verðlaunuðu vefþáttaraðar „That Reminds Me“. Verk hennar hafa verið gefin út hjá Crymogeu, Conveyor og sýnd á Íslandi, í Bretlandi, Færeyjum og Bandaríkjunum.

http://kristinsig.squarespace.com

Stuart Richardson (f. 1978)

Stuart Richardson er ljósmyndari og sýningarprentari og búsettur í Reykjavík. Hann nam áður rússneska og japanska sögu en fékk áhuga á ljósmyndun á meðan hann dvaldi í Vladívostok í Rússlandi á Fulbright-styrk. Sá áhugi jókst og hann lagði háskólanámið á hilluna til að geta helgað sig ljósmyndun. Eftir að hann flutti til Íslands árið 2007 opnaði hann Custom Photo Lab þar sem hann hefur sérhæft sig í að vinna sýningar fyrir aðra ljósmyndara og myndlistarmenn. Árið 2014 var myndröð hans Natríum Sól sýnd í Þjóðminjasafni Íslands. Myndröðin var gefin út sem bók með sama nafni. Hann stundar nú meistaranám við Hartford Art School. Hann hefur haldið sýningar á Íslandi, í Þýskalandi og Bandaríkjunum og í undirbúningi eru sýningar í Danmörku og Finnlandi.

http://stuartrichardson.com

Pétur Thomsen (f. 1973)

Pétur Thomsen nam listasögu og fornleifafræði við Université Paul Valéry Montpellier III, ljósmyndun við École Supérieure des Métiers Artistiques í Montpellier og við École Nationale Supérieur de la Photographie (ENSP) í Arles. Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum einka- og samsýningum víða um heim, svo sem í Listasafni Íslands, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Þjóðminjasafni Íslands, Photoforum PasqArt í Sviss, Les Rencontre dʼArles í Frakklandi, Musée National dʼHistoire et Art í Lúxemborg, Fotografie Forum Frankfurt í Þýskalandi og Photo Gallery International í Tókýó í Japan. Pétur Thomsen hefur oft verið tilnefndur og fengið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar. Árið 2004 hlaut hann LVMH-verðlaunin til ungra listamanna þegar þau voru veitt í tíunda sinn. Árið 2005 valdi Musée de LʼÉlysée í Lausanne hann sem þátttakanda í reGeneration 50 Photographers of Tomorrow. Thomsen er stofnfélagi og fyrrverandi formaður Félags íslenskra samtímaljósmyndara og einn af stofnendum og meðstjórnandi Ljósmyndahátíðar Íslands.

www.peturthomsen.is

Upplýsingar

Upplýsingar

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Grófarhús, Tryggvagata 15, 6. hæð

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6390

Hafðu samband

Tekið á móti hópum (10+) eftir samkomulagi

Skólaheimsóknir

Hafðu samband

Opið

Opið

mán-fim 10:00-18:00

fös 11:00-18:00

helgar 13:00-17:00

Jólahátíðin

Lokað 24.-26. des og 31. des- 1. jan.

Páskahátíðin

Lokað páskahelgina frá fim-mán

Sumardagurinn fyrsti.

Lokað

Verkalýðsdagurinn

Lokað 1. maí

Uppstigningardagur

Lokað

Hvítasunna

Lokað

Þjóðhátíðardagurinn

Lokað 17. júní

Aðgangseyrir

Aðgangur

Fullorðnir

1.240 kr.

Börn og öryrkjar

Frítt

Nemendur með gilt skólaskírteini

850 kr.

Menningarkort, árskort á borgarsöfnin

7.700 kr.

Menningarkort 67+, árskort

2.220 kr.

ICOM og FÍSOS korthafar

Frítt

Skráðu þig á póstlista Borgarsögusafns

Þú færð fréttabréf um opnanir og viðburði ofl.