Sonja Margrét Ólafsdóttir - Rætur
Sjálfsmynd okkar er byggð á þeim rótum sem við skjótum í upphafi lífsferils okkar. Rætur veita plöntum festu í jarðveginum, sjá þeim fyrir næringu og tryggja að jurtin fjúki ekki burt. Við eldumst og þroskumst í takt við tímann og árstíðir sem koma og fara. Landslag og staðir hafa mótandi áhrif á sjálfsmynd okkar og eru þannig partur af sjálfinu.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
„Mínar rætur liggja í Hrunamannahreppi og fjallar verkið Rætur um æskuslóðir mínar, umhverfið þar, landslagið og fjölskyldu mína. Ég er af fjórðu kynslóð kvenna sem ólust upp í hreppnum og eiga það sameiginlegt að hafa stigið sín fyrstu skref í sama landslaginu.“ -Sonja Margrét Ólafsdóttir
„Ljósmyndir Sonju Margrétar Ólafsdóttur eru blátt áfram og jafnvel örlítið hversdagslegar en hafa þó yfir sér einhverja óvænta dulúð: Hvar eru þessir staðir, hvaða fólk er þetta og hvað tengir myndirnar saman? Kveikjan að myndum Sonju er persónulegt ferðalag á æskuslóðirnar þar sem hún á enn fjölskyldu þótt hún hafi flutt burt. Myndirnar eru þannig tilraun til að rifja upp liðna tíma og um leið til að kynnast staðnum upp á nýtt.“ -Jón Proppé
Sonja Margrét Ólafsdóttir er fædd árið 1988. Hún er uppalin á Flúðum í Hrunamannahrepp en býr í Reykjavík í dag. Hún útskrifaðist í janúar 2019 frá Ljósmyndaskólanum en áður stundaði hún nám við Háskóla Íslands og útskrifaðist með B.A. gráðu í listfræði árið 2014.