Yfirgefin list│Guðmundur Óli Pálmason
Eyðibýli á landsbyggðinni hafa lengi átt athygli Guðmundar Óla Pálmasonar og veitt honum innblástur fyrir listræna sköpun. Verk Guðmundar Óla virka eins og óræðar glefsur úr fortíðinni fyrir tilstilli gamallar ljósmyndatækni sem hann hefur sérhæft sig í.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Mikilvægur þáttur verksins „Yfirgefin list“, sem sjá má á þessari sýningu, er gjörningur sem Guðmundur Óli hófst handa við fyrir rúmu ári. Þar skilur hann eftir nokkur af verkunum á víðavangi, fyrir hvern sem er að finna og eiga, oftast á þeim stöðum þar sem myndirnar voru teknar eða tengdum stöðum. Þó Guðmundur Óli sé fæddur og uppalinn í Reykjavík hefur hann aldrei fundið sig í borgarumhverfi og veltir fyrir sér þeirri stóru spurningu hvort tenging sé á milli þess að fólk hafi að mestu yfirgefið sveitir landsins til að búa í borg og bæjum og þess rofs sem hefur orðið við náttúru og andleg málefni. Með því að skilja verkin eftir – yfirgefa þau – leitast hann við að svara þessari spurningu og til þess vísar titill sýningarinnar.
"Ég er hrifinn af hugmyndinni um að listin fari heilan hring, komi aftur heim. Sérstaklega vegna þess að viðfangsefnið er eyðibýli, og mér finnst sem ég sé að gefa þeim einhverskonar líf aftur, að ég sé að gefa þeim nýjan tilgang."
Þannig eru eyðibýli í verkum hans ekki myndir af húsum, heldur fólki, á mörkum fortíðar og nútíðar; fólki sem er horfið á braut og eftir standa spurningar sem er ósvarað um líf þess, dauða og hvers vegna enginn tók við búinu. Er nútímafólk, rétt eins og yfirgefnu húsin, tóm ílát sem andinn hefur yfirgefið?
Guðmundur notast eingöngu við útrunnar Polaroid-flysju-filmur (peel-apart), sem hann handvinnur með ýmis konar spilliefnum. Filmurnar eru svo skannaðar og enda sem stafrænt prent á álplötum. Því má segja að aðferðafræðin sjálf sé á sama hátt og myndefnið ekki sönn skráning á fortíðinni, hún sé fremur einskonar virðingarvottur við hið liðna. Hann dregur þá ályktun að allt sé á endanum yfirgefið; myndefnið, aðferðafræðin og listin sjálf.
Guðmundur Óli Pálmason er fæddur í Reykjavík árið 1978. Hann lauk BA-gráðu í listljósmyndun frá University of the Arts í London árið 2011 og sérnámi í ljósmyndun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 2007. Þar áður lagði hann stund á upplýsinga og fjölmiðlafræði frá sama skóla á árunum 2005-2007.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>

