Um Ljósmyndasafnið
Ljósmyndasafn Reykjavíkur er miðstöð ljósmynda þar sem fortíðin og nútíminn mætast. Markmið safnsins er að varðveita, safna og sýna bæði sögulega og samtímaljósmyndun í listrænu, félags- og menningarlegu samhengi.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Saga safnsins
Ljósmyndasafn Reykjavíkur var upphaflega stofnað sem einkafyrirtæki árið 1981 en 1987 eignaðist Reykjavíkurborg safnið. Árið 2000 flutti Ljósmyndasafnið í Grófarhús, Tryggvagötu 15, 6. hæð þar sem það er í dag. Safnið er í sambýli við Borgarbókasafn og Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Árið 2014 varð Ljósmyndasafn Reykjavíkur hluti af Borgarsögusafni Reykjavíkur.
Safneign
Í Ljósmyndasafni Reykjavíkur eru nú varðveittar um 6,5 milljónir ljósmynda af ýmsum stærðum og gerðum. Elstu myndirnar eru frá því um 1860 og þær yngstu frá 2020. Myndefnið er fjölbreytt og má þar m.a. nefna mannamyndir teknar á ljósmyndastofum, blaða-, iðnaðar- og auglýsingaljósmyndir atvinnumanna og landslags- og fjölskyldumyndir áhugaljósmyndara. Ljósmyndasafn Reykjavíkur setur upp á annan tug sýninga ár hvert. Markmiðið er að kynna íslenska ljósmyndara og koma á framfæri, sýna verk úr safneign sem og að sýna verk erlendra ljósmyndara. Sýningarrýmin eru þrjú, Skotið í anddyri safnsins, aðalsalurinn og Kubburinn, sem hýsir sýningar á stafrænu formi.
Safneignina má flokka gróflega niður í blaðaljósmynda- landslagsljósmynda- og portrettmyndasöfn, iðnaðar- og auglýsingaljósmyndir ásamt því að safnað er verkum samtíma- ljósmyndara og listamanna.
AÐFANGASKRÁ
Í eftirfarandi samantekt, sem enn er í vinnslu, er safnkostinum skipt niður í fimm flokka eftir eðli og uppruna viðkomandi myndasafns. Að svo stöddu birtast hér aðeins fyrstu tveir flokkarnir. Fyrri flokkurinn er skrá yfir myndasöfn frá ljósmyndastofum og sjálfstætt starfandi atvinnuljósmyndurum en sá seinni nær yfir ljósmyndasöfn sem tengjast blaða- og tímaritaljósmyndun á Íslandi.
Í náinni framtíð er áætlað að birta hér skrár yfir söfn áhugaljósmyndara, söfn stofnana og fyrirtækja og að síðustu skrá yfir ýmis aðföng sem falla ekki í fyrrgreinda flokka.
Hér er hægt að komast á myndavef safnsins.
Ljósmyndin í öllu sínu veldi
Ljósmyndasafn Reykjavíkur leggur stund á og stuðlar að rannsóknum á ljósmyndun á öllum sviðum, svo sem ljósmyndasögu, listfræði og forvörslu svo nokkuð sé nefnt. Boðið er upp á fræðslu fyrir öll skólastig sem og sérhópa um sögu ljósmyndarinnar s.s tækniþróun, sem listgrein og heimild. Á safninu er starfrækt myndvinnsla sem annast vinnslu á myndum fyrir safnið og viðskiptavini. Safnið veitir almenningi, fyrirtækjum og stofnunum Reykjavíkurborgar ráðgjöf og þjónustu á sviði ljósmyndavarðveislu.