Minjavörslustefna

Borgarsögusafn sinnir margvíslegum verkefnum á sviði minjavörslu. Eitt meginhlutverk safnsins er að safna, skrá, varðveita og rannsaka menningarminjar í borgarlandinu, þ.e. fornleifar, hús og mannvirki, sem eru einkennandi fyrir borgina og varpa ljósi á sögu hennar og menningu. Safnið sinnir fornleifa- og húsaskráningu í Reykjavík í samræmi við lög og gerir byggða- og húsakannanir sem eru forsenda við gerð hverfis- og deiliskipulags. Borgarsögusafn leggur í starfi sínu áherslu á vandaða skráningu og leitast við að vera leiðandi í rannsóknum á menningarminjum og byggðasögu Reykjavíkur. Rannsóknir safnsins á sviði minjavörslu eru ein af undirstöðum sýningagerðar og annarrar miðlunar á vegum safnsins.

Markmið

  • að verklag og stjórnsýslulegt hlutverk safnsins á sviði minjavörslu sé skýrt
  • að rannsóknir á sviði minjavörslu verði gefnar út í skýrsluröð safnins, og gerðar aðgengilegar á vef þess og á prenti
  • að unnið verði að gerð byggðakannana vegna hverfisskipulags fyrir Reykjavík
  • að lögð verði áhersla á heildstæða skráningu fornleifa, húsa og annarra mannvirkja í Kvosinni, Miðbæ og svæðinu innan Hringbrautar
  • að unnið verði að því að samþætta og samræma skráningu fornleifa, húsa og annarra mannvirkja
  • að unnið verði að því að húsaskrá Borgarsögusafns verði færð yfir í Sarp.is.
  • að skrá samkvæmt viðurkenndum stöðlum