Sumarnámskeið
Fyrir börn og unglinga 2022

Borgarsögusafn býður ár hvert upp á ýmis námskeið fyrir börn og unglinga.
Líkt og fyrri ár verður í boði að skrá sig á tálgunarnámskeið á Árbæjarsafni þar sem krakkar á aldrinum 6-12 ára læra undirstöðugrip í tálgun sem og að nota gamaldags handbor. Í lok námskeiðisins er kveiktur lítill varðeldur og krakkarnir fá að grilla brauð á teini. Ætlast er til að krakkar yngri en 9 ára séu í fylgd með fullorðnum. Gjald er 2500 fyrir hvert barn og allt hráefni er innifalið í verðinu. Kjósi fullorðnir að tálga með greiða þeir sama verð. Kennari er Bjarni Þór Kristjánsson.
Námskeiðin verða haldin eftirfarandi daga:
Mánudaginn 4. júlí - kl. 13.00-16.00
Þriðjudaginn 5. júlí - kl. 13.00-16.00
Miðvikudaginn 6. júlí - kl. 13.00-16.00
Fimmtudaginn 7. júlí - kl. 13.00-16.00
Námskeið er haldið á Árbæjarsafni og skráning er í síma 411 6320.
Athugið að aðeins komast sjö börn að á hverju námskeiði.

SÍGILDAR LJÓSMYNDUNARAÐFERÐIR
Langar þig að læra að búa til myndavél úr pappakassa og taka ljósmyndir? Kynnast því að vinna í myrkraherbergi og framkalla myndirnar?
Vikuna 8 – 12 ágúst n.k. verður námskeiðið „Sígildar ljósmyndunaraðferðir – Camera Obscura og cyanótýpa“ haldið í fræðsluhúsinu Líkn á Árbæjarsafni (Borgarsögusafni Reykjavíkur).
Í dag þar sem stafrænar myndavélar og myndavélasímar eru ráðandi er mikilvægt að beina sjónum að handverkinu. Krakkarnir á námskeiðinu fá að kynnast cyanótýpu eða bláprentsaðferðinni, búa til sína eigin myndavél „Camera Obscura“ eða „pinhole“myndavél úr pappakassa og kynnast því að vinna í myrkraherbergi sem fylgir því að framkalla myndirnar. Í lok námskeiðsins verður sýning á afrakstrinum þar sem fjölskyldu og vinum er boðið í sumardrykk.
Kennari námskeiðsins er Hjördís Halla Eyþórsdóttir ljósmyndari.
Skráning fer fram á sumar.vala.is. Þar er hægt að leita að námskeiðinu með því að skrifa “Sígildar ljósmyndunaraðferðir” í reit fyrir heiti námskeiðs.