Um er að ræða skráningu fornleifa, mannvirkja og yngri minja á deiliskipulagssvæði sem tekur til lóðarinnar Frakkastígs 1 og svæðis sem nær yfir Sæbraut og Skúlagötu, frá Skúlagötu 9 að Skúlagötu 13.
Á framkvæmdasvæðinu eru skráðir 10 minjastaðir undir jörðina Arnarhól. Átta þeirra teljast til fornleifa og eru elstu minjastaðirnir varirnar þrjár, Miðhúsavör, Móakotsvör og Byggðarendavör, en líklega hafa þær allar verið ruddar á svipuðum tíma, eða á seinnihluta 19. aldar. Um og upp úr aldamótum var byggt hús á lóðinni Frakkastíg 1, sem líklega tilheyrði Sláturfélagi Suðurlands. Leifar hússins er líklega enn að finna í jörðu á þeirri lóð. Í framhaldi voru Kveldúlfsbryggjan og bryggja Þorsteins Þorsteinssonar byggðar, en grjótið úr þeim hefur verð fjarlægt. Yngri minjar eru svo sjóvarnargarður sem var hlaðinn með Skúlagötunni fyrir árið 1930 og er hann líklega enn óhreyfður undir landfyllingunni. Minjar yngri en frá 1931 eru grunnur Færeyingaheimilisins, sem byggt var 1957 á lóðinni Frakkastíg 1, en húsið var flutt burt árið 1994, líklega í Kópavog.