Skýrsla 196 inniheldur könnun byggðar, fornleifaskrá og húsakönnun, fyrir deiliskipulagssvæði í Vesturbæ Reykjavíkur sem afmarkast af götunum Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga (sjá mynd). Könnunin er unnin að beiðni Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur vegna vinnu við gerð deiliskipulags fyrir svæðið.
Í skýrslunni er fjallað um sögu og þróun svæðisins og byggðarinnar á deiliskipulagssvæðinu, sem liggur á Grímsstaðaholti svokölluðu í Vesturbæ Reykjavíkur og tilheyrir þeim hverfishluta sem kallast Hagar. Fjallað er um staðhætti og örnefni svæðinu og upphaf og þróun byggðar á Grímsstaðaholti. Sagt er frá tómthúsum, grasbýlum og erfðafestublettum sem byggðust upp á svæðinu á tímabilinu 1842-1919, m.a. Björnshúsi, Jónshúsi, Guðjónshúsi, Grímsstaðakoti og Bjarnastöðum, sem stóðu á þeim slóðum þar sem gatan Dunhagi og húsin Tómasarhagi 32-36 eru nú. Greint er frá upphafi skipulagðrar byggðar á Grímsstaðaholti á tímabilinu 1919-1945 og skipulagi íbúðarbyggðar á Melum, Högum og Grímsstaðaholti á tímabilinu eftir 1945, sem núverandi byggð á deiliskipulagseitnum tilheyrir, en hún reis að mestu á tímabilinu 1953-1959. Í fornleifaskrá eru skráðar fornleifar og yngri minjar á svæðinu. Húsakönnun inniheldur greiningu á núverandi byggð á svæðinu og skrá yfir þau hús sem þar standa, ásamt mati á varðveislugildi einstakra húsa og heilda.