Fornleifaskrá

Skýrsla 191 Útgáfuár 2018

Fornleifaskráning á efnisvinnslusvæði við Álfsnesvík Þerneyjarsundi

Um er að ræða rannsókn og skrá yfir fornleifar og yngri minjar á svæði sem tilheyrir jörðunum Glóru, Sundakoti og Álfsnesi á Kjalarnesi. Horft er til þess að á svæðið verði framkvæmdarsvæði og aðkoma að því fyrir efnisvinnslu Björgunar ehf. Svæðið er við Þerneyjarsund, sunnan við Álfsnesvík, í dalverpi er nefnist Fornugrafir en þar lágu áður landamerki á milli þessara jarða. Fornleifaskráningin er unnin að beiðni Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur. Skráningin er gerð vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar auk breytingar á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags.

Á úttektarsvæðinu er að finna merkar sjávarútvegsminjar, leifar af átta fiskbyrgjum líklega frá þeim tíma þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn fyrir skreið á tímabilinu 1300-1500. Minjasvæði Sundakots og búðasvæði verslunarstaðarins við Þerneyjarsund eru einstakar minjar og engar líkar í Reykjavík, bæði hvað varðar aldur minjanna og menningarlegt gildi þeirra og eru fiskibyrgin hluti af því. Aðrar minjar á úttektarsvæðinu eru túngarður Glóru, fjárhús og rétt . Þessar minjar eru hluti af minjaheild á minjasvæði í Glóru sem er einstakt, einkum vegna þess að það myndar óraskaða heild og er góður fulltrúi fyrir hjáleigu frá 20. öld í nágrenni Reykjavíkur. Fáir staðir státa af svo heillegum minjum sem sýna heilt bæjarstæði. Röskun á þessum minjum á úttektasvæðinu hefur áhrif á minjaheildir í Sundakoti og Glóru.