Aðgengi á Árbæjarsafni

Árbær Open Air Museum in the summer

Árbæjarsafn

Kistuhyl, 110 Reykjavík, sími 411 6304

Árbæjarsafn er útisafn á stóru safnsvæði. Þar eru yfir 20 hús opin gestum á opnunartíma safnsins. Upphaflega var aðeins eitt hús á safnsvæðinu (Árbær), en öll hin húsin hafa verið flutt þangað, flest frá miðbæ Reykjavíkur. Húsin eru jafn margbreytileg og þau eru mörg, í sumum þeirra eru lítil rými og þröngir stigar en í öðrum eru stærri salir.

Starfsfólk safnsins þekkist á því að það klæðist búningum frá fyrri tímum. Í miðasölu er alltaf starfsmaður sem getur aðstoðað og gefið upplýsingar.

Opnunartímar safnsins eru mismunandi eftir árstíðum, nánari upplýsingar hér

Tímalengd heimsóknar: 1-2 klst.

Heimsókn í safnið

Mynd af miðasöluhúsi á Árbæjarsafni

Bílastæði eru við inngang safnsins. Hægt er að stöðva bíl við miðasöluhúsið til að hleypa farþegum út og inn.

Almenningssamgöngur

Strætisvagnar nr. 12 og 24 stoppa á Höfðabakka, rétt við safnið. Vagn nr. 16 stoppar við Streng (5 mín. gangur) og nr. 5 við Rofabæ (6 mín. gangur).

Inngangur

Gengið er inn í safnið gegnum miðasöluna. Þar er safnbúð og starfsfólk sem getur gefið upplýsingar um safnið. Gengið er út úr miðasölu á opið grassvæði eða torg. Við torgið standa nokkur hús og þaðan liggja gangstígar innar á safnsvæðið.

Gangstígar á safnsvæðinu eru flestir sléttir malarstígar en sums staðar eru hellulagðar stéttir. Í votviðri myndast pollar á gangstígum og í frosti geta þeir verið hálir þó að þeir séu sandaðir reglulega. Hægt er að fá lánaða mannbrodda í afgreiðslu. Safnsvæðið liggur að hluta á jafnsléttu en lækkar í átt að Elliðaám svo göngustígar liggja víða í aflíðandi brekkum.

Salerni eru í þremur húsum: Landakoti, Lækjargötu 4 og Kornhúsi, auk Dillonshúss þegar það er opið.

Landnámshænur á Árbæjarsafni /The Icelandic hens at Árbær Open Air Museum

Dýr: Á safninu búa hænur sem ganga lausar um safnsvæðið allan ársins hring. Yfir sumarmánuðina eru einnig önnur húsdýr innan girðinga á svæðinu, til dæmis kindur og hestar. Hundar (aðrir en leiðsöguhundar) eru ekki leyfðir á safnsvæðinu.

Barnakerrur eru ekki í boði á Árbæjarsafni en gestum er velkomið að koma með sínar eigin kerrur og vagna á safnið. Skiptiborð er á salernum í Landakoti.  

Nestisaðstaða með borðum og áföstum bekkjum er á tveimur stöðum á útisvæði safnsins: ein er við torgið og önnur vestan megin á safnsvæðinu (þar er einnig kolagrill). Einnig er nestisaðstaða með borðum og stólum innandyra í Landakoti.

Kaffihús er í Dillonshúsi á sumrin. Sunnan megin við húsið er pallur með garðhúsgögnum. Húsið skiptist í þrjár misstórar stofur og þar er einnig salerni.

Fundaraðstaða og útleiga er í fjórum húsum safnsins. Árbæjarkirkja er leigð til athafna. Fundarsalir og útleiga eru í Dillonshúsi, Kornhúsi (efri hæð) og Lækjargötu 4 (1. hæð).

Leiðsögn er í boði fyrir safngesti á hverjum degi kl. 13. Leiðsögnin er á ensku og íslensku sé þess óskað.

Upplýsingar um sögu hvers húss og myndir eru hér

Gengið er út úr miðasölu á opið grassvæði eða torg. Við torgið standa nokkur hús og þaðan liggja gangstígar innar á safnsvæðið.

Hreyfihamlaðir

Bílastæði fyrir hreyfihamlaða

Fimm bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru 50 metra frá inngangi safnsins og er gönguleið frá þeim að miðasölu hituð með snjóbræðslukerfi.

Inngangur

Gengið er inn í safnið gegnum miðasölu en einnig er hægt að biðja starfsfólk að opna hlið við miðasöluhúsið og fara þar inn á safnsvæðið. Hurðir á miðasölu opnast sjálfkrafa og stigið er yfir þröskuld.

Gangstígar á safnsvæðinu eru flestir sléttir malarstígar en sums staðar eru hellulagðar stéttir. Í votviðri myndast pollar á gangstígum og í frosti geta þeir verið hálir þrátt fyrir að vera sandaðir reglulega.

Bekkir og aðstaða til að setjast niður

Bekkir eru á ýmsum stöðum á útisvæði safnsins og inni í mörgum húsum er hægt að setjast niður, t.d. í Landakoti, Lækjargötu 4, miðasölu, kirkju og Líkn.

Salerni með aðgengi fyrir fatlaða er í Landakoti.

Hús safnsins

Inn í flest húsin er gengið upp eitt þrep eða yfir þröskuld. Hér á eftir fylgir lýsing á þremur húsum.

Landakot

Aðgengi að Landakoti er gott. Hiti er í stéttum og rampur liggur að lyftu fyrir hjólastóla. Lyftan er læst og þarf aðstoð starfsfólks til að nota hana. Á fyrstu hæð hússins er salerni fyrir fólk í hjólastólum, nestisaðstaða og sýning. Dyraop í húsinu eru víð og passa fyrir hjólastóla.

Stigi er í húsinu upp á sýningu á efri hæð og einnig niður í kjallara þar sem stundum er opið fyrir gesti að skoða sýningu. Kjallarinn er aðgengilegur fyrir hjólastóla að utan með aðstoð starfsfólks sem getur opnað þann inngang sérstaklega.

Lækjargata 4

Gengið er inn í húsið upp eitt þrep og yfir þröskuld. Færanlegur trérampur er inni í húsinu sem er hægt að leggja á stéttina fyrir framan húsið. Á 1. hæð eru tvö rými með setuaðstöðu auk salernis fyrir gesti þegar rýmin eru ekki í útleigu. Breiður stigi með handriði er upp á sýningu á 2. hæð. Inni á sýningunni eru stólar fyrir gesti.

Kornhús

Gengið er inn í Kornhús yfir háan þröskuld. Færanlegur rampur er við húsið fyrir létta hjólastóla. Rampurinn er þungur og þarf aðstoð starfsfólks við að koma honum fyrir.

Salerni er í húsinu, en ekki fyrir hreyfihamlaða. Á 1. hæð eru tímabundnar sýningar með breytilegum sýningartímum sem getur verið allt frá fáeinum mánuðum upp í nokkur ár. Stigi liggur upp á efri hæð í húsinu. Efri hæðin er notuð fyrir útleigu og fundahald og er því oft lokuð gestum nema þegar um viðburði er að ræða.

 

Vinsamlegast hafið samband í síma 411-6300 eða sendið póst á borgarsogusafn@reykjavik.is fyrir frekari upplýsingar. 

Mynd af inngangi í Landakot Árbæjarsafni

Einhverfir og fólk með skynúrvinnsluvanda

Áreiti

Áreiti í Landakoti getur verið nokkuð vegna bergmáls þegar margir gestir eru inni. Í sumum húsum eru sýningar með hljóði og myndböndum. Í Lækjargötu 4 (efri hæð) er t.d. sýning með tónlist og litlum skjáum með myndböndum.

Kyrrlátir staðir eru margir bæði inni og úti á Árbæjarsafni og áreiti á safninu á almennum opnunartíma er lítið.

Borgarsögusafn auglýsir reglulega sérstaka opnunartíma fyrir einhverfa og fólk með skynúrvinnsluvanda. Þá er áreiti á sýningum stillt með þarfir hópsins í huga (t.d. ljós og hljóð).

Vinsamlegast hafið samband í síma 411-6300 eða sendið póst á borgarsogusafn@reykjavik.is fyrir frekari upplýsingar. 

Blindir og sjónskertir

Leiðsöguhundar

Leiðsöguhundar eru velkomnir í safnið.

Lýsing

Ljósastaurar eru nokkrir á safnsvæðinu en lýsing getur verið takmörkuð á safninu yfir myrkasta tíma ársins.

Leiðsögn

Borgarsögusafn auglýsir reglulega fyrir blinda og sjónskerta á sýningarstöðum safnsins. Tímasetning hverrar leiðsagnar er auglýst með góðum fyrirvara.

Vinsamlegast hafið samband í síma 411-6300 eða sendið póst á borgarsogusafn@reykjavik.is fyrir frekari upplýsingar.

Ljósastaur árbæjarsafn

Heyrnarskertir og heyrnarlausir

Borgarsögusafn auglýsir reglulega döff leiðsögn á táknmáli á sýningarstöðum safnsins. Tímasetning hverrar leiðsagnar er auglýst með góðum fyrirvara.

Vinsamlegast hafið samband í síma 411-6300 eða sendið póst á borgarsogusafn@reykjavik.is fyrir frekari upplýsingar. 

Ýmsir hópar

Borgarsögusafn er eitt safn á fimm stöðum (Árbæjarsafn, Landnámssýning, Ljósmyndasafn, Sjóminjasafn og Viðey) og tekur á móti fjölbreyttum hópum. Leitast við að hlusta eftir þörfum þeirra eftir fremsta megni. Hefur þinn hópur heimsótt safnið?

Meðal þeirra sem koma reglulega á safnið eru:

Klúbburinn Geysir

Hlutverkasetrið

Dagþjálfun fólks með heilabilun

Vinsamlegast hafið samband í síma 411-6300 eða sendið póst á safnfraedsla@reykjavik.is fyrir frekari upplýsingar.