Aðgengi í Viðey

Viðey, 104 Reykjavík, sími 411 6360

Til að komast í Viðey er tekin ferja sem siglir frá Skarfabakka í Sundahöfn. Gengið er í ferjuna um landgang sem er misbrattur eftir sjávarföllum og fyrir vikið er aðgengi fyrir hreyfihamlaða með miklum takmörkunum.

Viðey er friðlýst svæði og þar eru sögufrægar byggingar, útivistarsvæði, fjörur og útilistaverk. Heimsókn í eyna felur í sér töluverða útiveru og gott er að hafa í huga að hvassara getur verið í eynni en á landi.

Upplýsingar um ferjusiglingar er hér.

Heimsókn í Viðey

Mynd af landgangi við Skarfabakka

Bílastæði

Bílastæði eru við afgreiðslu ferjunnar á Skarfabakka. Mjög góð aðkoma er að bryggjunni og eru bílastæði og gangstéttir í sömu hæð.

Almenningssamgöngur

Á virkum dögum stoppar strætisvagn nr. 16 við Klettagarð/Skarfagarð. Um helgar er hægt að taka strætisvagna nr. 12 eða 14 og ganga í um 15-20 mín að Skarfabakka.

Ferjan

Miðasala er á þremur stöðum: við Skarfabakka, Gömlu höfnina og í Hörpu, auk þess sem kaupa má miða á heimsíðu Eldingar. Starfsfólk þar veitir upplýsingar varðandi siglinguna.

Sjá nánari lýsingu á aðgengi í ferjuna í kafla fyrir hreyfihamlaða.

Nestis- og salernisaðstaða er á þremur stöðum í Viðey

Hesthúsið er nestisaðstaða sem er staðsett fyrir aftan Viðeyjarstofu. Þar er kolagrill sem gestum er frjálst að nota, auk salernis fyrir hreyfihamlaða og leiksvæðis skammt frá.

Viðeyjarnaust er aðstaða fyrir gesti ásamt kolagrilli og salernisaðstöðu með aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Rampur er inn í Naustið og við það er pallur með útsýni yfir nærliggjandi fjöru og sjóinn.

Skólahúsið er á austurhluta Viðeyjar. Þar er hægt að setjast inn, borða nesti og nota salerni.

Til að nýta grillaðstöðu í Viðey þarf að hafa með allt sem þarf til grillsins, þ.e. allan mat og meðlæti, kol, olíu, eldfæri, grilltangir, ruslapoka, diska, glös og þess háttar.

Mynd af Viðeyjarstofu og kirkju

Kaffihús og veitingastaður

Kaffihús og veitingastaður er í Viðeyjarstofu á sumrin. Inngangur er á suðurhlið hússins, þar er gengið upp þrjú þrep og yfir þröskuld.

Húsið er á tveimur hæðum auk kjallara. Efri hæðin rúmar yfir 100 manns í sæti og á neðri hæðinni eru minni rými fyrir 10 til 25 manns. Salerni er í kjallara. Breiðir stigar með handriðum liggja á milli hæða. Engin lyfta er í húsinu.

Staðhættir í Viðey

Kort af Viðey fæst gefins um borð í ferjunni og í afgreiðslu ferjunnar.

Fyrir aftan Viðeyjarstofu liggur göngustígur í tvær áttir. Til vesturs er þéttur og sléttur malarstígur að Viðeyjarnausti og Friðarsúlunni og til austurs er grófari malarstígur í átt að gamla skólahúsinu.

Viðey skiptist í tvo hluta (Heimaey og Vesturey) sem tengjast saman um Eiðið. Strandlengja Viðeyjar er að mestu girt hömrum en það er hægt að finna aðgengilegar fjörur, t.d. á Eiðinu og við Viðeyjarnaust. Á austurhluta Heimaeyjar eru rústir þorps sem eitt sinn var í eynni og tvær eftirstandandi byggingar, skólahús og vatnstankur. Í Vesturey er útilistaverkið Áfangar. Gönguslóðar liggja víða um eyjuna í gegnum graslendi, engi og móa.

Öryggi

Í Viðey eru brattir klettar og þangi vaxnar fjörur með hálum steinum þar sem gæta þarf fyllsta öryggis.

Útilistaverk í Viðey

Friðarsúlan eftir Yoko Ono er ljóssúla sem stígur upp úr eins konar „óskabrunni“. Velþjappaður malarstígur liggur að verkinu og umhverfis það er hellulögð stétt.

Listaverkið Áfangar eftir Richard Serra stendur dreift á nokkrum stöðum á Vesturey, sem er vestari hluti Viðeyjar.

Hreyfihamlaðir 

Miðasala og ferja

Við Skarfabakka er stigið yfir þröskuld inn í miðasöluhús.

Farið er um landgang niður á flotbryggju sem ferjan liggur við. Flotbryggjan hækkar og lækkar eftir sjávarstöðu og því er landgangurinn misbrattur eftir flóði og fjöru (hallinn er mestur 21 gráða). Listar mynda „þrep“ á landganginum svo betra sé að fóta sig og á honum eru handrið til að styðjast við.

Af flotbryggju er farið upp fjögur þrep á timburpall og stigið niður í ferjuna. Enginn rampur er frá pallinum og yfir í ferjuna og því þarf að stíga stórt skref yfir í ferjuna. Það fer svo eftir því hvaða ferja er í notkun hvort stigið er niður á tröppur í ferjunni eða niður á sætisbekk og þaðan niður á gólf bátsins. Hægt er að fá aðstoð hjá ferjumönnum við að komast um borð.

Þegar komið er í Viðey er gengið úr ferju á pall með nokkrum þrepum niður á flotbryggju. Enginn rampur er á milli báts og bryggju. Svo er farið upp landgang sem er bæði mjórri og brattari en sá sem er við Skarfabakka. Listar sem mynda „þrep“ á landganginum liggja handriða á milli og ekkert skarð er í listum fyrir hjólastóla. Af landgangi er komið á breiða timburbryggju. Þaðan liggur leiðin upp nokkuð bratta brekku, annað hvort eftir hellulögðum vegi eða göngupalli með stigum, að Viðeyjarstofu og kirkju.

Mynd af palli við Viðeyjarferju
Mynd af landgangi í Viðey

Hjólastólar

Engir hjólastólar eru í boði í Viðey.

Bekkir og aðstaða til þess að setjast niður

Víða um eyjuna má finna bekki sem hægt er að tylla sér á. Í Viðeyjarnausti, Hesthúsinu og Skólahúsinu er nestisaðstaða og salernisaðstaða. 

Lyftur og rampar

Rampar eru inn í Viðeyjarstofu (norðurhlið) og Viðeyjarnaust en engar lyftur eru í húsum Viðeyjar.

Salerni

Í Viðeyjarnausti og Hesthúsinu eru salerni fyrir hreyfihamlaða. 

Mynd af trépöllum með þrepum upp brekku í Viðey
Mynd af salerni í Viðey

Einhverfir og fólk með skynúrvinnsluvanda

Áreiti

Áreiti getur verið nokkuð í ferjunni þegar siglt er yfir í Viðey. Allt fer það þó eftir því hversu margir eru í ferjunni hverju sinni. Þegar komið er yfir í eyjuna tekur náttúran við og þar er auðvelt að finna sér rólega staði.

Í Viðeyjarstofu getur verið margt fólk og áreiti því nokkuð. Það sama gildir um helstu áningarstaði á eyjunni (t.d. Skólahúsið, Friðarsúlan, Viðeyjarnaust) en allt fer þetta eftir því hversu margir eru staddir í Viðey hverju sinni. 

Blindir og sjónskertir

Leiðsögn

Borgarsögusafn býður reglulega upp á leiðsögn fyrir blinda og sjónskerta á einhverjum af stöðum safnsins. Tímasetning hverrar leiðsagnar er auglýst með góðum fyrirvara.

Vinsamlegast hafið samband í síma 411-6300 eða sendið póst á borgarsogusafn@reykjavik.is fyrir frekari upplýsingar.

Leiðsöguhundar

Leiðsöguhundar eru velkomnir í ferjuna og Viðey. 

Heyrnarskertir og heyrnarlausir

Leiðsagnir

Borgarsögusafn býður reglulega upp á döff leiðsögn á táknmáli á einhverjum af stöðum safnsins. Tímasetning hverrar leiðsagnar er auglýst með góðum fyrirvara.

Vinsamlegast hafið samband í síma 411-6300 eða sendið póst á borgarsogusafn@reykjavik.is fyrir frekari upplýsingar. 

Ýmsir hópar

Borgarsögusafn er eitt safn á fimm stöðum (Árbæjarsafn, Landnámssýning, Ljósmyndasafn, Sjóminjasafn og Viðey) og tekur á móti fjölbreyttum hópum. Leitast við að hlusta eftir þörfum þeirra eftir fremsta megni. Hefur þinn hópur heimsótt safnið?

Meðal þeirra sem koma reglulega á safnið eru:

Klúbburinn Geysir

Hlutverkasetrið

Dagþjálfun fólks með heilabilun

Vinsamlegast hafið samband í síma 411-6300 eða sendið póst á safnfraedsla@reykjavik.is fyrir frekari upplýsingar.