26.01.2013 til 12.05.2013

Guðmundur Ingólfsson - Kvosin – 1986 & 2011

Ekkert er eins leyndarsdómsfullt og skýrlega framsett staðreynd. Fyrir mér er ljósmyndun virðingarvottur að tvennu leyti. Virðing fyrir miðlinum, með því að láta hann gera það sem hann gerir best, að lýsa. Og virðing fyrir viðfangsefninu, með því að lýsa því eins og það er. Ljósmynd verður að bera ábyrgð gagnvart hvoru tveggja. - Garry Winogrand Guðmundur Ingólfsson er einn af máttarstólpunum í íslenskri ljósmyndun. Sýningin KVOSIN 1986 & 2011, samstarfsverkefni Ljósmyndasafns og Minjasafns Reykjavíkur, er byggð á myndum sem hann tók með 25 ára millibili. Myndirnar tók Guðmundur fyrst árið 1986 í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkur sem ýtti undir áhuga hans að skrásetja miðbæinn með markvissum hætti – á slóðum forvera hans og starfsbræðra, Sigfúsar Eymundssonar og Magnúsar Ólafssonar, sem skrásettu svæðið um hundrað árum fyrr.

Guðmundur Ingólfsson - Kvosin

Um Guðmund Ingólfsson

Guðmundur lærði ljósmyndun hjá Otto Steinert við Folkwangschule für Gestaltung í Essen í Þýskalandi. Hann dvaldi þar á árunum 1968–1971 og var aðstoðarmaður Steinerts um tíma,  forvígismanns svokallaðrar „súbjektífrar“ ljósmyndunar sem byggðist á „nýrri hlutlægni“ Bauhaus- hreyfingarinnar frá millistríðsárunum og hafði verið bönnuð í valdatíð nasista.  Á þessum árum mótaðist myndræn sýn hans sem kristallast í því að ná ljósmynd sem „skýrlega framsettri staðreynd“, með hreinum og klárum formum. Eftir að Guðmundur fluttist heim frá Þýskalandi setti hann á fót ljósmyndastofuna Ímynd. Á þeim fjórum áratugum sem síðan eru liðnir hefur hann fengist við hin fjölbreyttustu ljósmyndaverkefni – allt frá því að vinna fyrir auglýsingastofur og ýmsar stofnanir til verkefna í hönnun, myndlist, arkitektúr og leikhúsi.  Skráning á ummerkjum manna hefur verið Guðmundi hugleikin um alllangt skeið, eins og sýningin KVOSIN 1986 & 2011 ber vitni um.