Einar Falur Ingólfsson - STAÐIR – úr dagbók 1988 – 2008
Staðir – Úr dagbók 1988 – 2008 er yfirskrift sýningar Einars Fals Ingólfssonar sem nú er sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Viðfangsefni sýningarinnar er að finna í dagbók ljósmyndarans sem hann hefur haldið frá árinu 1988 en sem skrásetningartæki notar hann þar myndavél í stað penna. Dagbókin er flæði lífsins og hann flokkar myndirnar ekki ekki sem ákveðin verkefni heldur eru þetta myndir af hans daglega lífi teknar á tuttugu ára tímabili. Myndirnar eru færslur í dagbókinni og sjálft myndavalið á sýningunni, rúmlega 100 myndir úr tugþúsundum mynda, er ekki síður jafn mikilvægt og myndatakan sjálf.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Einar Falur hefur yfirgripsmikla þekkingu á ljósmyndun og hefur einnig vegna starfs síns sem blaðaljósmyndari í gegnum árin ferðast víðar en margur.Hann á því orðið safn ljósmynda af margbreytilegum stöðum víðs vegar um heiminn. Einar Falur er alinn upp með grunnhugmynd Cartier-Bressons um hið afgerandi augnablik, þegar hugur, hjarta og hönd vinna saman við að grípa augnablikið. Það er ljósmyndaranum mikilvægt að sýna heiminn eins og hann er, grípa augnablik úr lífi fólks í sínu eðlilega umhverfi, náttúrunni eins og hún kemur fyrir, markaðri af mönnum, lífinu í allri sinni dýrð, framandi eða kunnuglegu. Þrátt fyrir að myndirnar séu teknar á ólíkum stöðum þá gengur rauður þráður gegnum sýninguna, þar sem listræn sýn, metnaður og ekki síst ævintýraþráin renna saman og mynda eina heild.
Einar Falur er fæddur er í Keflavík en býr og starfar í Reykjavík. Hann lauk MFA gráðu í ljósmyndun frá School of Visual Arts, New York árið 1994 og hefur unnið á Morgunblaðinu frá árinu 1981 sem ljósmyndari, fréttaritari, menningarblaðamaður og bókmenntarýnir auk þess sem hann gegndi starfi myndstjóra þess um tólf ára skeið. Einar Falur hefur verið stundakennari við Listaháskóla Íslands frá árinu 1997 og hefur kennt á ýmsum ljósmyndanámskeiðum, haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Einnig hafa birst eftir hann ljósmyndir í ýmsum tímaritum víða um heim. Auk þessa hefur Einar Falur fengist við sýningarstjórn og komið að útgáfu bóka nú síðast var hann einn af höfundum bókarinnar Undrabörn sem gefin var út í tilefni af samnefndri ljósmyndasýningu Mary Ellen Mark í Þjóðminjasafni Íslands og hlaut tilnefningu til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna árið 2007.