12.02.2005 til 22.05.2005

Bára ljósmyndari - Heitir reitir

Bára K. Kristinsdóttir er að góðu kunn sem auglýsinga- og iðnaðarljósmyndari hér á landi. Meðfram þeirri vinnu hefur hún einnig sinnt eigin listsköpun á sviði ljósmyndunar, haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga frá byrjun ferils síns.

Heitir Reitir

Á sýningu sinni, Heitir reitir, sem sett er upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, hefur Bára valið gróðurhús sem myndefni. Myndirnar gefa innsýn inn í þennan heillandi heim og leitast hún við að fanga það sjónarspil sem skapast út frá andstæðum; innandyra og utandyra. Aðeins gler og járngrind skilur á milli og hafa umhverfisþættir eins og birta, hiti og kuldi afgerandi áhrif á útkomu myndanna sem í senn endurspegla fegurð og framandleika. Í myndunum má einnig greina skírskotanir til listasögunnar og minna margar þeirra á hollenskar kyrralífsmyndir þar sem draumurinn um Edensgarðinn var hafður í hávegum.

Fyrir tilstilli svonefnds jarðfræðilegs „heits reits” sem liggur undir Íslandi eru gróðurhús hér fjölmörg og er tilvist þeirra talin til sjálfsagðra hluta í tilverunni. En fyrir hvað standa gróðurhús? Við njótum góðs af því sem þar er ræktað, en sjaldnar er augum okkar beint að fyrirbærinu sjálfu og það sett fram á sjónrænan hátt.