28.09.2002 til 15.10.2002

Aenna Biermann Preis – Þýsk samtímaljósmyndun

Um er að ræða sýningu á ljósmyndum eftir 36 þýska samtímaljósmyndara sem tekið hafa þátt í ljósmyndasamkeppni sem kennd er við hinn kunna þýska ljósmyndara Aenne Biermann (1898-1933). Samkeppnin hóf göngu sína árið 1992 í í borginni Gera í Þýskalandi og er sýningin í Ljósmyndasafni Reykjavíkur sett saman úr úrvali verka frá keppninni undanfarin fimm ár. Sýningin er annars vegar í samvinnu við Goethe Zentrum á Íslandi en hins vegar við Nytjalistasafnsins í Gera sem á öll verkin á sýningunni.

Þýsk samtímaljósmyndun

Aenne Biermann ljósmyndasamkeppnin er haldin til minningar um hinn þekkta þýska ljósmyndara Aenne Biermann (1898-1933) sem bjó og starfaði í Gera. Hún telst einn af merkustu listamönnum hinnar Nýju ljósmyndunar (Neue Fotografie) sem þróaðist samhliða Nýju hlutlægninni á þriðja áratugi 20. aldar í Þýskalandi. Nytjalistasafnið í Gera var frumkvöðull að Aenne Biermann verðlaununum en með veitingu verðlaunanna er ætlunin að styrkja ljósmyndun sem listmiðil, þar sem nákvæmni og fagurfærðilegar kröfur í anda Biermann eru hafðar að leiðarljósi. Þær 52 ljósmyndir sem eru í sýningu Ljósmyndasafns Reykjavíkur, hvort sem um er að ræða verðlaunamyndirnar eða aðrar, bera einmitt vitni um mikla grósku í samtímaljósmyndun í Þýskalandi.