Miðasalan

áður Laugavegur 62

Arbaejarsafn__Laugavegur62_0041_aarion_c.bullion.jpg
Laugavegur 62, miðasala Árbæjarsafns

Húsið var reist árið 1901 við Laugaveg sunnanverðan, gegnt Vitastíg sem þá náði aðeins milli Hverfisgötu og Laugavegar. Laugavegshúsið er einfalt að gerð og sviphreint. Að utan var það í fyrstu klætt pappa, en síðar bárujárni. Húsbyggjandi var Gísli Þorkelsson steinsmiður og bjó hann þar ásamt fjölskyldu sinni fyrstu átta árin. Húsið sýnir vel hvernig híbýli iðnaðarmannsfjölskyldu voru á þessum slóðum. Framan af öldinni var Laugavegurinn íbúðagata og í samræmi við það voru í húsinu tvær íbúðir, á hæð og í risi. Kjallari var undir öllu húsinu, að mestu niðurgrafinn.

Þegar leið á 20. öldina varð Laugavegurinn helsta verslunargata bæjarins og voru verslanir og verkstæði opnuð í nærri hverju húsi. Hús númer 62 var þar engin undantekning. Nýlenduvöruverslun var sett í kjallara þess árið 1923. Áður en til þess kom var kjallarinn hækkaður um einn metra. Á þessum tíma hafði Vitastígur verið framlengdur frá Laugavegi upp á Grettisgötu. Þar með var húsið orðið hornhús. Samkvæmt gildandi reglum var hornið, sem vissi að gatnamótunum, sneitt af húsinu og inngöngudyr settar þar.

Nýlenduvöruverslunin var í um aldarfjórðung í kjallaranum. Seinna voru þar seldar málningarvörur og þarnæst húsgögn. Á hæðinni hafði verið íbúð frá því húsið var reist, en í tíð húsgagnaverslunarinnar voru innveggir þar fjarlægðir og útbúinn sýningarsalur. Frá 1966 var tóbaksverslun í kjallaranum og frá 1967 bólsturverkstæði á hæðinni. Síðustu fimm árin var barnafataverslun í kjallaranum. Þannig endurspeglar saga hússins allvel sögu Laugavegar bæði sem íbúðagötu og verslunargötu.

Húsið var flutt á Árbæjarsafn 1978 og afráðið að hafa í því miðasölu og minjagripaverslun á jarðhæð. Af því tilefni var kjallarinn hækkaður aftur frá því sem verið hafði síðan 1923 og er hann nú ekki niðurgrafinn. Innrétting verslunarinnar var smíðuð eftir fyrirmyndum frá aldamótum..

 

laugavegur_-_midasala.jpg