Prófessorshúsið
Kleppur
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Húsið var reist árið 1907 til íbúðar fyrir yfirlækni og annað starfsfólk fyrsta geðsjúkrahússins á Íslandi að Kleppi. Var húsið tengt spítalanum með tengibyggingu. Rögnvaldur Ólafsson, fyrsti íslenski arkitektinn, teiknaði bæði húsin, sem voru reist samtímis. Í mörgum húsum Rögnvaldar má sjá sterk klassísk áhrif og á það við um Prófessorshúsið.
Fyrsti yfirlæknir Kleppsspítala og jafnframt fyrsti geðlæknir á Íslandi, Þórður Sveinsson, bjó á fyrstu hæð hússins ásamt fjölskyldu sinni á árunum 1907-1940. Skiptar skoðanir voru um geðlækningar í tíð Þórðar, bæði innan læknastéttarinnar og meðal almennings. Hann fór ekki varhluta af því en almennt þótti hann farsæll í starfi.
Kona Þórðar var dönsk, Ellen Johanne Kaaber að nafni. Faðir hennar var húsgagnaframleiðandi og komu öll húsgögn heimilisins þaðan. Læknishjónin eignuðust sjö börn sem öll ólust upp í Prófessorshúsinu. Þeirra á meðal má nefna Úlfar augnlækni, Agnar rithöfund og Gunnlaug lögfræðing.
Á 2. hæð Prófessorshússins bjó starfsfólk spítalans, m.a. yfirhjúkrunarkona, ráðskona og ráðsmaður. Á háaloftinu var m.a. herbergi sem vökukona spítalans hafði.
Kleppur hafði verið bújörð um aldir og var svo enn í tíð Þórðar Sveinssonar. Þótti allnokkur spölur þaðan til Reykjavíkur.
Prófessorshúsið var flutt á Árbæjarsafn 1978. Þótti viðstöddum tilkomumikil sjón að sjá hann koma siglandi“ upp Ártúnshæðina á flutningapalli. Húsið var opnað til sýningar á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986.
Prófessorshúsið er meðal stærstu og veglegustu húsa safnsins. Það hýsir nú skrifstofur safnins.