Landakot

ÍR húsið

Landakot

Húsið var upphaflega byggt sem kirkja kaþólska safnaðarins á Íslandi. Það var smíðað í Mandal í Noregi og flutt tilsniðið til Íslands, þar sem það var reist á Landakotstúni austanverðu. Kirkjan var vígð á jóladag 1897 og var helguð hinu heilaga hjarta Jesú, tákni miskunnsemi og kærleika.

Árið 1929 þegar lokið var byggingu nýrrar steinsteyptrar kirkju í Landakoti var ákveðið að Íþróttafélag Reykjavíkur fengi gömlu kirkjuna gefins. Þá var húsið flutt á nýjan grunn á horni Túngötu og Hofsvallagötu og þar stóð það í yfir 70 ár. Húsið hélt sínu ytra lagi þrátt fyrir breytta notkun, en kirkjuturninn var fjarlægður.  Eftir að húsið komst í eigu ÍR varð það aðalstarfsvettvangur félagsins og var um árabil helsta íþróttahús bæjarins. og þar hefur mörg rimman verið háð og mörg met slegin í íþróttum.

Árið 2004 hafði húsið lokið hlutverki sínu sem íþróttahús og var þá flutt á Árbæjarsafn þar sem það hefur verið endurgert og hefur nú öðlast hlutverk safn- og sýningahúss.

Húsið hýsir tvær sýningar: Í húsi Krists og kappleikja og Komdu að leika

Á sýningunni Í húsi Krists og kappleikja, sem opnaði árið 2008 í Landakoti, er gerð grein fyrir hinum tveimur ólíku köflum í sögu hússins. Fyrstu 30 árin var það kaþólskt guðshús en árið 1929 þegar reist hafði verið ný kirkja var ákveðið að Íþróttafélag Reykjavíkur fengi húsið að gjöf og starfaði það þar næstu 70 árin.

Á sýningunni Í húsi Krists og kappleikja er gerð grein fyrir hinum tveimur ólíku köflum í sögu hússins. Fyrstu 30 árin var það kaþólskt guðshús en árið 1929 þegar reist hafði verið ný kirkja var ákveðið að Íþróttafélag Reykjavíkur fengi húsið að gjöf og starfaði það þar næstu 70 árin. Á sýningunni má annars vegar sjá meðal annars steindan glugga frá árinu 1896 sem var einskonar altarismynd kirkjunnar og sýnir Jesú Krist og hið heilaga hjarta og hins vegar ýmsa gripi sem tengjast frjálsíþróttaiðkun ÍR-inga í húsinu.

Komdu að leika

Sýningin Komdu að leika fjallar um leiki og leikföng barna í Reykjavík á 20. öld. Varpað er ljósi á fjölbreytileika og þróun leikfanga og hvernig leikir endurspegla samfélagið á hverjum tíma. Sýningin var opnuð árið 2008 og er í Landakoti.

Sýningin Komdu að leika fjallar um leiki og leikföng barna í Reykjavík á 20. öld. Varpað er ljósi á fjölbreytileika og þróun leikfanga og hvernig leikir endurspegla samfélagið á hverjum tíma.
Á sýningunni má sjá fjölda leikfanga frá ýmsum tímum úr fórum Minjasafns Reykjavíkur. Þetta er upplifunarsýning með áherslu á sköpun, ímyndunarafl og skemmtun. Leikföngin á sýningunni eru ekki bara til að horfa á heldur má leika sér að dóti frá ýmsum tímum í tímastöðvum þar sem endurskapað hefur verið andrúmsloft tómthúss í Reykjavík snemma á 20. öld, betri borgara heimilis frá um 1930, hippaheimilis frá áttunda áratugnum og barnaherbergja um 1990. Hægt er að fara í búðarleik í Lúllabúð sem er frá um 1950 og einnig er hægt að bregða á leik í leikhúsi og brúðuleikhúsi. Sýningarhönnuður er Ilmur Stefánsdóttir.

 

Komdu að leika