Suðurgata 7

Hjaltestedhús

arbaejarsafn_sudurgata_7.jpg

Árið 1833 var Teiti járnsmið Finnbogasyni mæld út lóð á Hólakotstúni fyrir sunnan Suðurbæ og austan veginn sem lá frá Reykjavík til Skildinganess. Á lóðinni reisti Teitur þetta ár, 1833, lítið timburhús, bindingshús, einnar hæðar með háu risi. Það var klætt borðum og með borðaþaki, tjargað. Var það eitt fyrsta íbúðarhúsið úr timbri sem reist var af Íslendingi í Reykjavík og sömuleiðis fyrsta húsið við Suðurgötu. Þrátt fyrir smæð hússins bjuggu þar löngum níu manns, hjónin, börn þeirra tvö, vinnufólk og járnsmíðanemar.

Lóð Suðurgötu 7 var allstór og náði m.a. niður að Tjörn. Þar byggði Teitur smiðju úr torfi og grjóti. Fleiri smáhýsi voru þar einnig.

Björn Hjaltested var meðal lærlinga Teits. Hann keypti smiðjuna af honum árið 1859 og íbúðarhúsið nokkru síðar. Fjölskylda Björns stækkaði hratt og einnig voru járnsmíðanemar á heimili hans. Skömmu fyrir 1870 byggði hann því stærra hús, tvílyft, norðan við eldra íbúðarhúsið og áfast því. Var það úr sama efni og það eldra, en mænir þess sneri frá suðri til norðurs, gagnstætt gamla húsinu (sjá teikningu). Þaki gamla hússins var nú breytt og það tengt nýja húsinu. Þannig virtust húsin að nokkru leyti vera samvaxin. Árið 1883 var eldri hlutinn hækkaður til samræmis við þann yngri (sjá teikningu). Fékk húsið við það stílhreint og klassískt yfirbragð, sem það hélt að mestu leyti upp frá því. Byggingarsaga hússins er lýsandi fyrir það hvernig timburhúsum var breytt áður fyrr eftir efnum og aðstæðum.

Eftir daga Björns Hjaltested bjuggu afkomendur hans í Suðurgötu 7 allt þar til húsið var flutt á Árbæjarsafn. Lengst bjuggu þar tveir synir hans, Bjarni Hjaltested og Pétur Hjaltested, hvor í sínum húshluta. Síðustu árin var rekið gallerí í stærstum hluta hússins, Gallerí Suðurgata 7, og fór þar fram ýmiss konar listastarfsemi.

Suðurgata 7 Árbæjarsafni
Suðurgata 7, Árbæjarsafni

Suðurgata 7 var flutt í heilu lagi á Árbæjarsafn árið 1983 og gerð upp í þeirri mynd sem hún hafði tekið á sig réttum 100 árum áður. Viðgerð var umfangsmikil og mjög til hennar vandað. Tréverk var víða byrjað að láta á sjá, eins og búast mátti við. Húsið hafði sigið verulega og hafði það aukið enn á fúa í því. Hins vegar höfðu litlar breytingar verið gerðar á húsinu á 20. öldinni og var því hægt að endursmíða það í réttri mynd. Allir litir í húsinu eru upprunalegir, jafnt innanhúss sem utan.

Viðgerð Suðurgötu 7 lauk 1992. 

Í Suðurgötu 7 fáum við nú innsýn í heimilishald á tveimur ólíkum heimilum árið 1925. Í vesturhelmingi hússins býr vel stæð borgaraleg fjölskylda sem nýtur allra nútímaþæginda á borð við rafmagn, salerni og rennandi vatn. Í austurhelmingi hússins býr ekkja sem leigir út herbergi til kostgangara, annars vegar skólapilts utan að landi og hins vegar einstæðrar móður og sonar hennar. Auk þess dregur hún björg í bú með saumaskap. Tekið skal fram að ekki er um raunverulega íbúa hússins að ræða og er markmið sýningarinnar eingöngu að gefa almenna mynd af híbýlaháttum fólks í Reykjavík á þessum tíma. 

Suðurgata 7, Árbæjarsafni
Suðurgata 7, Árbæjarsafni