Lækjargata 4

Neyzlan

laekjargata.jpg

Árið 1852 fékk Georg Ahrenz timburmaður útmælda lóð við Lækinn sem rann úr Tjörninni til sjávar. Þar byggði hann fyrsta tvílyfta íbúðarhúsið í Reykjavík. Var það timburhús, 12,5 x 7,5 m að grunnfleti, með múrsteini í grindinni. Georg var þýskur að þjóðerni. Hafði hann komið hingað til lands til að starfa að viðgerð og stækkun  Dómkirkjunnar 1847 og kvænst íslenskri konu.

Helgi G. Thordersen biskup keypti húsið árið 1856 og flutti biskupssetrið þangað frá Laugarnesi. Bjó hann þar til dauðadags árið 1867. Jón Árnason þjóðsagnasafnari var ritari biskups og bjó hann þar einnig um skeið.

Árið 1874 var húsið virt og því lýst. Höfðu þá verið byggðir einlyftir skúrar við báða gaflana. Voru það grindarhús en án múrsteina. Húsið var þá klætt lóðréttum borðum og listar notaðir til að loka bili milli þeirra. Á þaki voru skífur.

Árið 1876 hófu búskap í húsinu hjónin Þorlákur Ó. Johnson og Ingibjörg Bjarnadóttir Johnson. Þorlákur var brautryðjandi á sviði nútímaverslunarhátta hérlendis og hafði mikil umsvif. Hann missti heilsuna 1892-93 og hóf Ingibjörg kona hans þá verslunarrekstur. Hún var önnur konan í Reykjavík sem gerði slíkt. Verslun hennar starfaði allt til 1960.

Kaffihúsið Hermes var opnað í Lækjargötu 4 árið 1886 og var fjölsótt af bindindismönnum í bænum. Þar var 17. júní í fyrsta skipti haldinn hátíðlegur, 1886. Einnig var Verslunarmannafélag Reykjavíkur stofnað þar árið 1891 og sjómannafélagið Báran árið 1894. Áður hafði stúkan Einingin verið stofnuð í húsinu, árið 1885. Meðal annarra sögulegra viðburða í húsinu má nefna stofnun fyrstu heildverslunar á Íslandi árið 1906, en það var O. Johnson og Kaaber. Ólafur Johnson var sonur Þorláks og Ingibjargar.

Meðal nafnkunnra manna sem bjuggu í Lækjargötu 4 á 19. öld má nefna Benedikt Gröndal skáld sem fjallaði um veru sína þar í minningabók sinni, Dægradvöl.

Árið 1884 var suðurskúr Lækjargötu 4 rifinn og tvílyft viðbygging reist í hans stað. Árið 1890 var hið sama gert norðanmegin. Voru þeir þá orðnir jafnháir húsinu og fékk húsið við það að nýju sama einfalda yfirbragðið og verið hafði í upphafi. Framhlið þess var samhverf með aðalinngangi á miðri hlið. Á 20. öldinni voru gerðar allmiklar breytingar á neðri hæð hússins, gluggar stækkaðir og innveggir fjarlægðir. Efri hæðin hélst hins vegar að mestu óbreytt.

Lækjargata 4 var flutt á Árbæjarsafn haustið 1988. Svo slysalega fór að húsið hrundi á vagni flutningabíls. Á endanum komst húsið á safnið, þó að ekki yrði það í heilu lagi, og lauk endurbyggingu þess árið 1997. Þar er m.a. krambúð safnsins, sýningin Neyzlan og samkomusalir.

Neyzlan – Reykjavík á 20. öld.

Um sýninguna: Tuttugasta öldin var tími mikilla breytinga. Þá urðu heimssögulegir atburðir sem höfðu áhrif á samfélög um allan heim og réðu miklu um daglegt líf fólks. Á Íslandi þróaðist samfélagið frá sjálfsþurftarbúskap til tæknivædds markaðsbúskapar á nokkrum áratugum. Tæknileg og efnahagsleg þróun gjörbreytti híbýla- og lifnaðarháttum alls þorra fólks.

En hvernig geta söfn gert flókinni sögu skil á þann hátt að hún verði áhugaverð fyrir  nútímafólk ? Það hefur lengi verið viðfangsefni safna. Eitt af megineinkennum 20. aldar, umfram önnur tímabil, er sífellt aukin framleiðsla og neysla. Sýningin NEYZLAN er tilraun til þess að horfa til baka  á sögu okkar út frá sjónarhorni neyslumenningar og öðlast þannig skilning á því hvernig daglegt líf breyttist á liðinni öld og hvaða öfl það eru sem þar hafa verið að verki – og eru enn 

Á sýningunni er litið inn á heimilið og þaðan út í heiminn. Þótt fólk fái sumu ráðið um eigið líf er þó víst að ramminn um það markast af pólitískum og efnahagslegum aðstæðum, bæði heima fyrir og úti í heimi.

Með sýningunni er ætlunin að vekja fólk til umhugsunar um eigin neyslu og það hvernig við umgöngumst þær auðlindir sem við nýtum til að fæða okkur og klæða.

Opnun: 5. júní 2015

 

Neyzlan