Kirkja

kirkjan.jpg

Kirkjan á Árbæjarsafni er af þeirri gerð sem víða var í sveitum á 19. öld. Hún á uppruna að sækja til Silfrastaða í Skagafirði. Þar var reist torfkirkja árið 1842. Smiður var Jón Samsonarson, sem einnig smíðaði Víðimýrarkirkju í Skagafirði. Silfrastaðakirkja þjónaði sókninni í rúma hálfa öld, en 1896 var hún tekin niður og flutt heim að bænum og ný reist í hennar stað. Úr timbri gömlu kirkjunnar var smíðuð baðstofa og búið í henni til 1950. Baðstofan var tekin niður 1959 og viðir úr henni fluttir á Árbæjarsafn.

Safnkirkjan í Árbæ var reist á árunum 1960-61. Útveggir hennar eru hlaðnir úr torfi og grjóti og sömuleiðis er á henni torfþak. Torfveggirnir eru sex fet á hæð og sex fet á þykkt niðri við grundvöllinn, en eru með fláa að utanverðu svo að þykktin nálgast fjögur fet að ofan. Í kirkjunni er samt sem áður timburgrind og er hún alþiljuð innan. Grindin er að hluta úr upphaflegum viðum Silfrastaðakirkju, en annað þurfti að fá nýtt. Einnig er margt inni í kirkjunni gert eftir fyrirmynd. Svo er til að mynda um bekkina. Til voru leifar af einum bekk sem dugðu til að smíða þá alla eftir. Altaristaflan er fengin að láni úr Þjóðminjasafninu og ber ártalið 1720. Prédikunarstóllinn er úr gömlu kirkjunni að Silfrastöðum. Hafði hann um skeið, eftir rif gömlu kirkjunnar, verið notaður sem einskonar búrskápur.

Af öðrum hlutum í safnkirkjunni má nefna að fremst í henni er líkan af briggskipi, sem er gjöf frá Slysavarnarfélagi Íslands. Ljósakrónan, sem upphaflega var gerð fyrir sex kerti, er talin erlend smíð frá 16. eða 17. öld. Efst á henni er stytta af manni klæddum í 16. aldar stíl. Á framgafli safnkirkjunnar eru útskornar vindskeiðar og er fyrirmynd þeirra fengin frá Flugumýri, nú í Þjóðminjasafni, ársettar 1702. Vindskeiðar vörðu torfið og voru einnig til skrauts.

Safnkirkjan var vígð árið 1961. Þar eru oft skírnir og brúðkaup, sömuleiðis almennar messur á sumrin og á aðventunni. 

kirkjan-inni.jpg