Árbær

arbaejarsafn_arbaer_uti.jpg

Bæjarhúsin að Árbæ auk tveggja útihúsa eru einu hús safnsins sem eru á sínum upprunalega stað. Þau gegna því veigamikla hlutverki að sýna íslenska sveitamenningu á safninu til mótvægis við bæjarmenninguna.

Fyrstu heimildir um Árbæ

Líklegt er að búskapur hafi byrjað í Elliðaárdalnum fljótlega eftir landnám. Árbærinn er þó fyrst nefndur í heimildum á 15. öld, en þess var heldur ekki að vænta um laklega meðaljörð að henni væri gefinn mikill gaumur. Í Árbæ bjó alla tíð óbreytt alþýðufólk sem stritaði myrkranna á milli fyrir brýnustu nauðþurftum, en átti strjálar ánægjustundir. Á 15. öld var jörðin í eigu Viðeyjarklausturs, hafði hugsanlega verið gefin þangað í sáluhjálparskyni.

Við siðaskiptin 1550 runnu allar eigur klaustra til Danakonungs og var Árbær þar á meðal. Viðeyjarklaustur mun hafa verið nokkuð harður landsdrottinn, en nú versnaði ástandið því að Bessastaðavaldið íþyngdi leiguliðum sínum stórum meira en almennt gerðist.

Árbær 1911 / Arbaer farm 1911
Árbær 1911

Um ábúendur, jörðina og bústofninn

Fyrstu glöggu myndina af Árbæ og búendum hans er að finna í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703-1707. Lýsing á jörðinni er gagnorð: Tún meinlega grýtt og þýfð. Engi mjög lítið... Torfskurður til húsagjörðar nægur, en til eldiviðar tekur hann mjög að þverra.“ Tvíbýli var á bænum. Annar ábúandinn var með þrjár kýr, kvígu og tvo hesta. Hinn ábúandinn hafði einnig þrjár kýr, naut, kálf og einn hest. Hvorugur þeirra hafði sauðfé.

Þrátt fyrir lítinn bústofn voru álögur á búendur miklar. Landskuld, þ.e. leiga af jörðinni, var reiknuð út frá jarðardýrleika eins og almennt gerðist og greidd með fé á fæti eða fiski. Bústofninn var einnig í konungseigu og greiddist leiga af honum í smjöri. Ofan á þetta bættust umtalsverðar vinnukvaðir: við sjóróðra frá Örfirisey, veiðar í Elliðaánum, heyskap í Viðey, mótekju, hrístekju og fleira. Einnig bar landsetum að lána hross til ýmissa verka. Konungur hafði slegið eign sinni á laxveiði í Elliðaánum og lágu þung viðurlög við veiðiþjófnaði.

Árið 1704 gerðist sá atburður sem eftirminnilegastur hefur þótt í sögu Árbæjar, morðið við Skötufoss. Er greint frá því í sérkafla hér á eftir.

Upp úr aldamótunum 1800 fór konungur að selja jarðirnar við Elliðaár. Árið 1838 seldi hann Árbæ fyrir 270 ríkisdali. Til samanburðar má nefna að bærinn Ártún var seldur fyrir 210 rd., Kleppur fyrir 400 rd., Bústaðir fyrir 464 rd. og Elliðavatn fyrir 639 rd.

Árbær 1950 / Árbær farm 1950
Árbær um 1950

Margrét og Eyleifur 

Árið 1881 fluttust að Árbæ hjónin Margrét Pétursdóttir og Eyleifur Einarsson. Fram að því höfðu verið tíð búsetuskipti á jörðinni, en nú varð breyting á því. Eyleifur bjó þar til dánardags árið 1907, en Margrét bjó áfram á bænum til 1935, er hún lést. Kristjana Eyleifsdóttir tók við búinu af móður sinni og bjó í Árbæ til 1948, en þá lagðist hann í eyði.

Þau Margrét og Eyleifur byggðu upp bæinn og endurnýjuðu. Árið 1891 reif Eyleifur torfbaðstofuna og reisti á grunni hennar hús sem var að mestu leyti úr timbri, hæð og ris, bárujárnsklætt. Þar var góð gestastofa með eldhúsi aftan til og baðstofu yfir. Árið 1911 lét Margrét reisa eina húslengju við norðurhlið baðstofunnar og hesthús þar norður af nokkrum árum seinna. Húsin standa hlið við hlið og snúa stafnar fram á hlað. Á þann hátt var húsaskipan gamla torfbæjarins haldið. Í núverandi mynd er Árbær á síðasta stigi í þróun íslenska torfbæjarins, nokkurs konar millistigi frá torfbænum til timburhússins. Var það í samræmi við þróun mála á sunnanverðu landinu í lok 19. aldar.

Jónsmessa í Árbæ 1962
Jónsmessa á Árbæjarsafni 1962

Mannvíg við Skötufoss

Árið 1704 bjó að hálfum Árbæ maður er Sæmundur hét, Þórarinsson, 41 árs gamall. Kona hans hét Steinunn Guðmundsdóttir, 43 ára, og var Sæmundur þriðji eiginmaður hennar. Hjá þeim voru þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi. Á móts við þau bjuggu Sigurður Arason, 26 ára gamall, ókvæntur, og móðir hans. Kærleikar munu hafa verið með þeim Sigurði og Steinunni og eggjaði hún hann til að fyrirkoma bónda sínum með einhverju móti.

Sunnudagskvöld eitt í septembermánuði fóru þeir Sæmundur og Sigurður til veiða í Elliðaánum. Er þeir voru staddir við Skötufoss, sem er skammt fyrir neðan Ártún, gekk Sigurður aftan að Sæmundi, sló hann með tréfjöl sem hann hafði meðferðis og hratt honum fram í hylinn.

Daginn eftir lét Sigurður þau boð ganga til sveitunga sinna að Sæmundar væri saknað. Söfnuðust menn saman til leitar og fannst lík Sæmundar fljótlega í ánni. En hann var ekki bólginn eins og þeir er drukkna og þótti sýnt að hann hefði dáið á þurru landi. Líkið var nú grafið og leið síðan nokkur stund.

Smám saman kom upp orðrómur um að Sigurður væri annaðhvort valdur að dauða Sæmundar eða byggi yfir vitneskju um endalok hans. Var nú gengið á hann og er hótað var að grafa upp líkið gekkst hann við morðinu. Var nú einnig gengið á Steinunni og viðurkenndi hún þátttöku sína eftir nokkrar umtölur yfirvaldsins. Fengu þau bæði líflátsdóm og voru tekin af lífi í Kópavogi skömmu síðar. Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. _Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við“ segir í Vallaannál.

Árbæjarsafn á 7unda áratugnum
Árbæjarsafn á 7unda áratugnum

Fjárhús og hesthús

Tvö fjárhús voru austan við Árbæinn í tíð síðustu ábúenda. Veggir þeirra voru hlaðnir úr torfi og grjóti, bæði langveggir og gaflveggir. Þakgrind var úr rekaviði og reft yfir með torfi. Annað fjárhúsið hefur verið hlaðið upp að nýju og stendur nú við syðri stíginn að Árbænum. Hitt húsið stóð heldur ofar í túninu en er nú ekki sýnilegt.

Hesthús, sömu gerðar og fjárhúsið, stendur í suðurjaðrinum á túni Árbæjar. Ekki er ljóst hvenær það var fyrst byggt. Árið 1991 hafði þak þess fallið og var það þá lagfært.

Eldsmiðja

Eldsmiðjan var reist við Árbæinn árið 1963, hlaðin úr torfi og grjóti. Þar hafði áður mótað fyrir kofarúst. Fyrirmyndir eldsmiðjunnar voru smiðjur sem algengar voru til sveita áður fyrr. Í smiðjunni eru verkfæri úr gömlum reykvískum smiðjum.

Járnsmíðar fóru fram í eldsmiðjum fram yfir miðja þessa öld. Járnið var hitað í afli og notaður fýsibelgur til að örva glóðina í kolunum. Á steðja voru smíðaðir hnífar, klippur, skeifur og fjölmargt annað.

Eftirtalin herbergi eru í Árbænum:

Bæjardyr (skemma). Fremst í elsta hluta bæjarins eru svonefndar bæjardyr. Áður var þeim skipt eftir endilöngu með þili og voru bæjargöng á aðra höndina en mjólkurherbergi á hina. Í mjólkurherberginu var strokkað smjör, búnir til ostar o.þ.h. Í austurenda bæjardyranna stóðu tvær tunnur sem fylltar voru með vatni úr brunninum á hverjum degi. Brunnurinn var við suðvesturjaðar túnsins og þótti nokkur erfiðisvinna að bera vatn í hús daglega, nokkrar ferðir á dag. Ris bæjardyranna var notað sem geymsla, en þar var einnig stundum sofið, aðallega vinnumenn.

Hlóðaeldhús. Fyrir innan skemmuna er hlóðaeldhús eins og þau voru hérlendis í nokkrar aldir. Hlóðir eru tvennar og hangir annar potturinn í krók. Stærri pottar, notaðir til ullarþvottar, eru til hliðar við hlóðirnar. Eldsneyti var mór og þurrkað tað. Af öðrum hlutum í eldhúsinu má nefna sleifar, spaða, kornskeið, vatnsausu og vatnsgrind.

Fjós. Göng, hlaðin úr torfi og grjóti, tengja saman hlóðaeldhúsið og fjósið. Í fjósinu eru fimm básar fyrir jafn margar kýr. Þar getur einnig að líta meisa, sem mælt var í við heygjöf, hauskúpu af kú, notuð sem mjaltastóll o.fl.

Stóra stofa. Fremst í næstsyðstu burstinni er Stóra stofa, sem lengi var notuð undir veitingarekstur. Á fyrstu áratugum 20. aldar var Árbær fjölsóttur veitinga- og gististaður. Menn áðu þar og hvíldu hesta sína, enda lá þjóðvegurinn austur fyrir fjall og norður í land við túngarðinn. Reykjavík var þá í örum vexti, en byggðin náði þó ekki lengra en að Snorrabraut fram til 1930.

Kames. Inn af Stóru stofu er kames, borðkrókur fyrir heimilismenn. Þar var áður eldhús (1891-1911).

Baðstofa. Yfir Stóru stofu og kamersinu er baðstofan. Þar eru sex rúm með veggjum. Fjærst stigaopinu á hægri hönd er rúm Margrétar húsfreyju og gegnt því rúm Kristjönu, dóttur hennar. Fremst er rúm Magnúsar Hanssonar, sem var vinnumaður í Árbæ alla búskapartíð Margrétar, þ.e. í hálfa öld. Í baðstofunni getur að líta tóvinnuáhöld, rokka, kamba, snældur og fleira.

Baðstofan var aðalíveruhús heimilismanna. Þar héngu grútarlampar á bitum og rufu skammdegismyrkrið á löngum vetrarkvöldum. Þar var einnig mestur ylur í bænum ef eldhúsið er undanskilið. Í baðstofunni var oft setið heilu dagana á rúmum við ullarvinnu. Á kvöldvökum voru sögur lesnar, rímur kveðnar og fluttir húslestrar.

Litla stofa (Margrétarstofa). Fremst í þriðju burstinni er Litla stofa. Hún var notuð við veitingareksturinn. Gestir mötuðust gjarnan í Stóru stofu en færðu sig síðan yfir í Litlu stofu. Hér sem annars staðar eru húsgögn og munir eins og í tíð Margrétar Pétursdóttur.

Yngra eldhúsið. Inn af Litlu stofu er yngra eldhúsið. Þar er kolaeldavél, sem á sínum tíma var stolt heimilisins. Hún er að líkindum frá síðasta áratug 19. aldar. Ýmis eldunaráhöld eru í eldhúsinu. Undir stiganum er mókassi. Á kvöldin var bekk oft stillt fyrir framan eldavélina og tyllti fólk sér á hann til að ná úr sér hrollinum.

Búr. Inn af eldhúsinu er búr þar sem sjá má skilvindu, strokk, skjólur, skyrgrind, brauðmót, tunnur o.fl.

Piltaloft. Úr eldhúsinu er gengið upp á _piltaloft“, þar sem vinnufólk og næturgestir munu hafa sofið.

Hesthús. Yngsti hluti Árbæjarins er nyrst, hesthúsið. Var það byggt árið 1918.