Væringjaskálinn

arbaejarsafn_skataskali.jpg

Skátaskálinn var reistur í Lækjarbotnum árið 1920 af skátafélaginu Væringjum. Gekk hann framan af undir nafninu Væringjaskálinn en síðar Lækjarbotnaskálinn. Skálinn er úr timbri, með langveggjum hlöðnum úr torfi og grjóti. Hann mun hafa verið fyrsti skálinn sem reistur var hér á landi til útivistar. Í kjölfar hans komu allmargir skálar á og við Hellisheiði, á vegum skáta og annarra samtaka.

Félagsskapurinn Væringjar var stofnaður vorið 1913 af sr. Friðrik Friðrikssyni í nánu sambandi við KFUM. Markmið félagsins voru hollar tómstundir, ekki síst íþróttir og útivist. Búningar félagsmanna voru til að byrja með fornmannabúningar. Haustið 1913 hvarf sr. Friðrik úr landi og við forystu af honum tók Axel Tulinius, þáverandi forseti Íþróttasambands Íslands og síðar fyrsti skátahöfðingi Íslands. Fyrir áhrif Axels urðu Væringjar skátafélag og tóku upp alþjóðlegan skátabúning. Skálabyggingin var stór framkvæmd fyrir félagið. En þegar henni var lokið varð skálinn mikil lyftistöng fyrir starfsemi þess.

Væringjaskálinn var fluttur í Árbæjarsafn 1962. Árið 1991 var hann gerður upp að nýju í samráði við skátahreyfinguna.

 

arbaejarsafn_skataskali_inni.jpg