Kjöthús

Ullarhúsið

arbaejarsafn_kjothus.jpg

Elstu húsin á Árbæjarsafni eru jafnframt lengst að komin. Það eru tvö verslunarhús frá Vopnafirði, reist um 1820 að því er næst verður komist. Meðal eigenda húsanna var verslunarfyrirtækið Ørum & Wulff sem lengi höndlaði á Vopnafirði. Húsin eru af algengri gerð verslunarhúsa eins og þau voru á 19. öld víðs vegar um landið, en þau hafa allmjög týnt tölunni. Vopnafjarðarhúsin eru reisulegar byggingar og traustar. Þau eru vel viðuð, sérstaklega minna húsið sem er með 12 tommu bitum. Grind beggja húsanna er klædd utan með tjörguðum borðum, láréttum á öðru húsinu en lóðréttum á hinu. Í báðum húsunum eru tvö loft, efra loft og neðra loft, bæði manngeng.

Minna húsið var oft nefnt Ullarhúsið en einnig Kjöthúsið, hið stærra var kallað Kornhúsið lengst af en einnig Beykisbúð. Nöfnin vísa til notkunar þeirra á ýmsum tímum. Í vorkauptíð var ull lögð inn í Ullarhúsið og vegin þar. Síðan var hún sett í stóra vörusekki, balla, og staflað upp meðan hún beið útflutnings. Á haustin var sláturvöllur fyrir framan húsið en kjötið höggvið og saltað í tunnur innandyra. Mest af kjötinu var selt til Noregs og var það stórhöggvið, þ.e. hver skrokkur var hlutaður í fjóra parta. Kjöt til innanlandsneyslu var höggvið í spað, þ.e. í hæfilega stóra bita til að setja í pott.

Ekki tókst að varðveita verslunarhúsin á sínum upphaflega stað á Vopnafirði vegna nýframkvæmda og keypti Þjóðminjasafn þau þá. Voru þau flutt til Reykjavíkur 1975 og fengu rúm á Árbæjarsafni. Vopnafjarðarhúsunum var komið fyrir neðst í Árbæjartúninu með það í huga að þannig yrði afstaða þeirra til húsaþyrpingarinnar á safninu sú sama og til þorpsins á Vopnafirði áður. Ennfremur yrðu þau  við sjóinn“. Afstaða húsanna hvors til annars er sú sama og var.

Þjóðminjasafnið nýtti Vopnafjarðarhúsin um skeið undir geymslur. Árið 1992 voru þau hins vegar afhent Árbæjarsafni og eru þau ætluð undir sýningar og safnastarfsemi. Ullarhúsið var opnað almenningi árið 2000. 

Sýning í Kjöthúsi: 

Farfi og fegurð – um sögu húsamálunar á Íslandi.

 Á sýningunni er hægt að fræðast um kalk og tjöru, línolíumálningu og límfara. Hvar þessi efni voru notuð og hvenær. Í stássstofunni  hefur  Helgi Grétar málarameistari og kennari oðrað brjóstþilið, þar er einnig hægt að sjá marmoreringu og margt fleira fróðlegt og skemmtilegt. Að sýningunni standa auk Borgarsögusafns Reykjavíkur, Málarameistarafélagið og Félag iðn-og tæknigreina.

Húsverndarstofa

Í júní 2007 var opnuð í Kjöthúsinu á Árbæjarsafni Húsverndarstofa þar sem fjallað er um viðhald og viðgerðir eldri húsa. Þar er veitt ráðgjöf um viðhald og viðgerðir eldri húsa, t.d. hvernig best er að bera sig að áður en framkvæmdir hefjast, tæknilegar útfærslur og litaval. 

Sérfræðingar frá Minjastofnun Íslands og Borgarsögusafni veita ráðgjöf til þeirra sem þess óska á Árbæjarsafni alla miðvikudaga milli kl. 15 og 17 nema yfir sumarleyfistímann. Veitt er símaráðgjöf á sama tíma í síma 411 6333.

Húsverndarstofan er rekin af Minjastofnun Íslands, Iðan fræðslusetur og Borgarsögusafni.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Húsverndarstofu.