Miðhús

Lindargata 43a

arbaejarsafn_midhus.jpg

Miðhús voru byggð árið 1897 af Jóhannesi Benediktssyni sjómanni og stóðu við Lindargötu 43A. Þar hafði áður verið torfbær með sama nafni. Miðhús voru upphaflega klædd láréttum borðum og með bárujárni á þaki. Síðar var allt húsið klætt bárujárni eins og tíðkanlegt varð á þeim tíma.

Upphaflega var aðeins eitt eldhús í Miðhúsum, á jarðhæðinni. Samkvæmt elstu lýsingu voru í risinu fjögur þiljuð herbergi. Síðar var þakinu lyft og fékk það þá á sig núverandi lag, svokallað mansardþak. Þá var einu risherberginu breytt í eldhús. Lengst bjuggu í Miðhúsum Jóhann Árnason verkamaður og fjölskylda hans.

Árið 1974 voru Miðhús flutt í Árbæjarsafn. Það var opnað til sýningar árið 1986. 

arbaejarsafn_midhus_inni.jpg