Ívarssel

arbaejarsafn_ivarssel.jpg

Húsið Ívarssel stóð áður við Vesturgötu 66b en var flutt í Árbæjarsafn árið 2005. Á meðan húsið stóð við Vesturgötu mun það hafa verið elsta hús í vesturbæ Reykjavíkur, vestan Garðastrætis. Húsið byggði Ívar Jónatansson útgerðarbóndi. Hann fékk leyfi fyrir húsinu í desember 1869 og hefur líklega lokið við byggingu þess á árinu 1870. Ívarssel var einn af Selsbæjunum svokölluðu, sem voru tómthúsbýli sem byggðust í landi Sels á 19. öld. Um aldamótin 1900 voru Selsbæirnir fimm: Stórasel (steinbær sem enn stendur við Holtsgötu 41b), Litlasel og Jórunnarsel (sambyggðir bæir sem standa við Vesturgötu 61), Miðsel (stóð þar sem nú er Seljavegur 19) og Ívarssel. Ívarssel mun í fyrstu hafa verið eitt af nokkrum býlum sem heyrðu undir Litlasel. Í manntali 1860 er Ívar Jónatansson, sem þá er sagður húseigandi, skráður til heimilis að Litlaseli.

Húsið var ekki brunavirt fyrr en 1874, þegar fyrst var farið að gera reglulegar brunavirðingar á húsum í Reykjavík. Samkvæmt þeirri lýsingu er það byggt úr bindingi múruðum úr holtagrjóti og var upphaflega klætt með borðum á þrjá vegu en suðurgafl með hellu. Þakið var og helluþak. Fjögur herbergi voru í húsinu auk eldhúss en hluti af húsinu (5 álnir af lengd þess) var notaður sem geymsluhús. Það mun hafa verið austasta herbergi hússins, sem var í fyrstu notað sem heyhlaða. Húsið mun hafa verið rauðmálað með hvítum gluggum. Gluggarnir voru upphaflega sexrúðugluggar. Ívarssel þótti mikið hús er það var nýbyggt, þar sem öll hús í nágrenninu voru lágreistir torfbæir. Sérstaklega þóttu gluggarnir stórir og lofthæð mikil. Ívar hafði nýselt hluta sinn í húsi við Aðalstræti (líklega Aðalstræti 12) þegar hann hóf byggingu Ívarssels. Ívar var formaður á bát sem gerði út frá Litlaselsvör og hefur þótt efnaður maður því hann var jafnan kallaður Ívar ríki. Í hans tíð og Ólafar konu hans var vinnufólk í Ívarsseli. Ívar lést árið 1899 (67 ára gamall) og ekkja hans, Ólöf Bjarnadóttir, seldi eignina árið 1903 Ditlev Thomsen, með tilheyrandi lóð. Árið eftir keyptu eignina Helga (1877-1957), dóttir þeirra Ívars og Ólafar, og maður hennar Einar Sigurðsson sjómaður og verkamaður (f. 1877). Síðan bjuggu afkomendur þeirra lengst af í húsinu, en þau áttu 8 börn (f. 1901-1920). Til er viðtal við Ólöfu (f. 1907) dóttur Helgu og Einars þar sem hún lýsir lífinu í og kringum bæinn allt frá uppvaxtarárum móður sinnar. Þar kemur fram að gríðarmiklir kálgarðar voru við húsið (þar sem Selbrekkur stóðu síðar) og stakkstæði var einnig neðanvið húsið þar sem þurrkaður var fiskur fram yfir 1940. Gríðarstór stakkstæði útgerðarfélagsins Alliance voru austan við húsið. Einar mun hafa breytt heyhlöðunni austast í húsinu í íbúðarherbergi, þegar kýr tengdamóður hans voru seldar (um 1916). Samkvæmt Ólöfu Einarsdóttur var gluggum breytt um leið og hlöðunni var breytt í íbúðarherbergi, en ekki er ljóst að hvaða leyti. Oft voru hlutar hússins leigðir út og þegar mest var bjuggu þar þrjár fjölskyldur. Húsið var brunavirt á ný árið 1919. Í þeirri virðingu kemur fram að kjallari er undir nokkrum hluta hússins (1/3 hluta) og inngönguskúr við vesturhlið (að Vesturgötu), byggður úr bindingi, klæddur með borðum og listum og með járnþaki á borðasúð (3 x 3 x 3 1/3 al. að stærð). Þá var húsið enn klætt borðum að utan og með hellu yfir borðunum á suðurgafli, en þakið var járnklætt. Á neðri hæð voru þrjú herbergi auk eldhúss og í risi tvö herbergi og framloft. Samkvæmt lýsingu Ólafar Einarsdóttur voru, í kringum 1920, þrjú herbergi á jarðhæð hússins auk eldhúss. Í norður- eða vestuenda var stofa sem oft var leigð út (kölluð Norðurstofa, vesturkamers eða stássstofa), síðan gangur og eldhús, þá borðstofa og í austur- eða suðurendanum (þar sem áður var hlaða) var kamers þar sem fjölskyldan svaf. Upp úr 1920 var eldhúsið stækkað með því að tekið var af norðurstofunni og svo gert búr þar inn af. Á loftinu voru tvö herbergi og var syðra herbergið, sem var stærra, leigt út, oftast heilum fjölskyldum, þar til Ólöf Bjarnadóttir, ekkja Ívars, flutti þangað upp þegar Einar og Helga keyptu húsið. Vatn var sótt í næstu hús á Vesturgötunni og notast við olíuljós fram undir 1920. Vatn var leitt í húsið um eða rétt eftir 1920. Eftir 1920 breyttist umhverfi Ívarssels mikið. Áður lá stígur framhjá húsinu eða framlenging á Vesturgötu sem sveigði til norðvesturs við Litlasel og náði niður að sjó. Hlaðinn grjótgarður var meðfram stígnum. Á árunum 1920-1921 voru byggðar tvær húsalengjur á vegum Alliance á lóðum bæjarins rétt vestan Ívarssels. Kálgarðar Ívarssels og fleiri húsa voru teknir undir þessar lóðir. Þessi hús voru íbúðarhús fyrir starfsfólk fyrirtækisins og voru kölluð Selbrekkur eða Efri- og Neðri-Seljabrekka. Þegar þau voru byggð var legu Vesturgötu breytt á þessum stað og sveigjan niður með Ívarsseli tekin af þannig að gatan lá beint áfram til vesturs sunnan með Selbrekkuhúsunum. Þessi hús voru rifin á fyrri hluta 9. áratugar 20. aldar. Á árunum eftir 1940 byggðu tvö iðnaðarfyrirtæki miklar byggingar undir starfsemi sína á lóðum norðan og austan Ívarssels. Stálsmiðjan byggði árið 1941 verksmiðjuhús, járnsmiðju og vörugeymsluhús á lóðinni næst norðaustan við Ívarssel sem skráð var númer 3 við Ánanaust. Hús þessi risu þétt upp við norðurvegg Ívarssels og þrengdu mjög að húsinu. Vélsmiðjan Héðin hf. keypti lóð Alliance austan við Ívarssel og reisti þar mörg hús undir starfsemi sína á árunum 1941-1948. Hús Stálsmiðjunnar voru rifin 2004-2005.

Þegar Ívarssel var næst brunavirt, árið 1949, var búið að byggja þvottahús við inngönguskúrinn, setja vatnssalerni í risið (en áður var útikamar norðan við húsið) og múrhúða húsið allt að utan. Samkvæmt Ólöfu Einarsdóttur var eldri inngönguskúr, sem var með lágu risi og tveimur dyrum (líklega sá sem byggður var fyrir 1919), rifinn og nýr og minni skúr byggður, en ekki er ljóst hvenær það var. Gluggapóstum var breytt á húsinu, líklega um þetta leyti og einnig var kvistur byggður á þakið sunnanvert (1950-1960?). Árið 1982 var samþykkt að hluti af lóð Ívarssels yrði talinn númer 5 við Ánanaust. Húsið hefur mikið varðveislugildi eins og aðrir þeir Selsbæir sem enn standa, enda bera þeir glöggt vitni um líf og störf tómthúsmannastéttarinnar í Reykjavík á seinni hluta 19. aldar. Húsið er einn elsti vitnisburður sem til er í Reykjavík frá þeim tíma þegar tómthúsmenn, sem einna fyrstir alþýðumanna á Íslandi slitu sig undan höftum vistarskyldunnar, komust í álnir og höfðu bolmagn til að reisa sér mannsæmandi húsnæði. Húsið hefur bæði byggingarsögulegt og menningarsögulegt gildi sem gott dæmi um híbýli og lífsskilyrði reykvískra tómthúsmanna og sjómanna á þessum tíma. Árbæjarsafn gerði það að tillögu sinni í október 2000 að Ívarssel fengi að standa áfram sem vitnisburður um þessa sögulegu tíma í þróunarsögu Reykjavíkur. Í húsakönnun um Mýrargötusvæði frá 2003 var lagt til að Reykjavíkurborg beitti sér fyrir friðun hússins.

Árið 2004 lá fyrir að húsið yrði að víkja af sinni upprunalegu lóð vegna fyrirhugaðs deiliskipulags á svæðinu. Þáverandi eigandi hússins og lóðarinnar, fyrirtækið SS verktaki ehf., gaf Minjasafni Reykjavíkur - Árbæjarsafni húsið í lok apríl 2005 og kostaði flutning þess í Árbæjarsafn. Húsið var flutt í Árbæjarsafn aðfaranótt 4. maí 2005. Því hefur nú verið komið fyrir á endanlegri lóð á safnsvæðinu þar sem það verður endurbyggt og útlit þess fært til eldra horfs.