Nýlenda

Nýlendugata 31

arbaejarsafn_nylenda_uti.jpg

Nýlenda var reist 1883 á lóð sem síðar var skráð Nýlendugata 31, en gatan dregur nafn af húsinu. Árið 1907 var húsið endurbyggt að miklu leyti. Á þessum slóðum, vestast í Reykjavík, var þá þyrping tómthúsmannabýla, mest torfbæir, en smám saman tóku timburhús við af þeim. Þeir sem þar bjuggu stunduðu sjóróðra á opnum árabátum og unnu þess á milli við það sem til féll í landi, m.a. fiskverkun. Allmargar fjölskyldur (konur) tóku fisk af útgerðarmönnum og verkuðu hann heima við. Nýlenda er steinbær, þ.e. langveggir hússins eru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti en að öðru leyti er húsið úr timbri. Steinveggir Nýlendu eru þiljaðir og einangraðir með þurru torfi. Þak er járnvarið. Í Nýlendu eru hæð og ris. Á hæðinni eru stofa og eldhús. Fyrstu íbúar hússins voru Gísli Jónsson tómthúsmaður, kona hans Katrín Magnúsdóttir og Kristjana dóttir þeirra. Á vertíðum stundaði Gísli útræði á árabátum eins og þá tíðkaðist. Þeir voru oftast fjögurramannaför og haft stórsegl um borð ef vindar yrðu hagstæðir. Einnig var Gísli fátækrafulltrúi, en það voru menn sem kosnir voru af bæjarstjórn til að hafa umsjón með sveitarómögum og þurfamönnum í sínu hverfi. Þótti Gísli gætinn og samviskusamur í því starfi. Á efri árum sáust hjónin gjarnan sitjandi við borð undir glugganum í stofunni, andspænis hvort öðru. Segir sagan að húsið hafi alltaf verið hvítskúrað og notalegt. Gestum var tíðum boðið upp á súkkulaði og rúsínulummur. Greinargóðar upplýsingar eru til af því hvernig garðurinn var umhverfis Nýlendu, m.a. staðsetningu kálgarðs, snúrustaura og kamars. Umhverfi hússins á Árbæjarsafni er haft í samræmi við það. Á lóðinni var einnig fiskreitur. Mæðgurnar og vinnukonan, Oddrún, breiddu fisk á reitinn. Fiskurinn kom úr skútum sem gerðar voru út frá Reykjavík. Hann var þveginn í kari undir húsvegg og síðan breiddur út. Þegar Danakonungur kom í heimsókn til landsins árið 1907 gekk hann eitt sinn framhjá Nýlendu. Þá var Oddrún að vinna á fiskreitnum. Hún var klædd dagtreyju og einskeftu pilsi. Gaf konungur henni tvær krónur sem var dálítil upphæð í þá daga. Eftir daga Gísla og Katrínar bjó Kristjana, dóttir þeirra, í húsinu til 1930, en eftir það var húsið leigt út.

Nýlenda var flutt á Árbæjarsafn 1973.

arbaejarsafn_nylenda.jpg