Hábær

Grettisgata 2B

arbaejarsafn_habaer.jpg

Hábæ byggði fyrst Jón Vigfússon tómthúsmaður árið 1867. Voru langveggir hans að líkindum frá upphafi hlaðnir úr kalklögðu grjóti. Taldist hann því til svonefndra steinbæja, húsagerðar sem aðeins finnst í Reykjavík. Hábær stóð við mót Grettisgötu og Klapparstígs og lágu að honum traðir. Árið 1887 var hann rifinn og endurbyggður. Ragnheiður Þorleifsdóttir bjó lengst allra í Hábæ. Samkvæmt manntölum er hún komin þangað 1885 ásamt manni sínum, Þórði Þórðarsyni tómthúsmanni. Þórður dó 1911 en Ragnheiður bjó þar áfram til a.m.k. ársins 1929. Þau hjónin eignuðust eitt barn. Ragnheiður hafði kartöflu- og rófnagarð við húsið. Þá hafði hún þann starfa á haustin að svíða svið. Hafði hún hlóðir og fýsibelg og sveið hausana á teini. Þótti hún svíða vel, enda komu margir til hennar sviðum.

Hábær var fluttur á Árbæjarsafn 1966. Hann er, ásamt Nýlendu, fulltrúi steinbæja í húsasafninu. Einnig er hann gott dæmi um híbýli alþýðufólks um og eftir síðustu aldamót og er sýndur á safninu sem slíkur. Í honum eru stofa, eldhús og vinnuherbergi. Stofan þjónaði einnig sem svefnherbergi. Í henni er lítill kolaofn af því tagi sem algengt var að nota til upphitunar. 

 

Sýning í húsinu:

Hábær 1950

Hábær er steinbær sem var reistur nálægt gatnamótum Grettisgötu og Klapparstígs árið 1887. Það voru einkum tómthúsmenn og iðnaðarmenn sem byggðu og bjuggu í slíkum bæjum.

Hábær komst í eigu félagsmálayfirvalda í Reykjavík, eða framfærslunefndar um 1937. Eftir seinna stríð var bærinn orðinn mjög niðurníddur og stóð til að rífa hann, en vegna mikils húsnæðisskorts í Reykjavík var búið í honum allt til ársins 1966. Seinustu áratugina bjó fólk á vegum framfærslunefndar í Hábæ. Þrátt fyrir vaxandi velmegun í Reykjavík á fimmta og sjötta áratugnum voru margir sem bjuggu við bág kjör og þurftu að leita á náðir nefndarinnar.

Á sýningunni Hábær 1950 er leitast við að varpa ljósi á kjör fátækrar fjölskyldu um 1950. Í bænum búa ung hjón með tvö stálpuð börn sín og ungabarn. Húsbóndinn er atvinnulaus og kona hans því aðalfyrirvinna heimilisins. Jafnhliða húsmóðurstörfunum tekur hún að sér ýmiss konar hjáverk.

Tekið skal fram að ekki er um raunverulega fjölskyldu að ræða.

 

 

arbaejarsafn_habaer_inni.jpg