Þingholtsstræti 9

arbaejarsafn_thingholtsstraeti.jpg

Húsið Þingholtsstræti 9 var reist árið 1846. Smiður þess var Helgi Jónsson og bjó hann þar síðan ásamt fjölskyldu sinni. Helgi var velmetinn snikkari og bæjarfulltrúi í Reykjavík. Meðal sona hans voru Helgi E. Helgason tónskáld og Jónas Helgason dómorganisti. Árið 1881 eignaðist húsið Daníel Símonarson, söðlasmiður og tengdasonur Helga snikkara. Dóttir hans, Guðrún Daníelsdóttir barnakennari, erfði húsið að honum látnum og bjó í því í röska sex áratugi. Eftir að Guðrún lést, 1945, var húsið gert að skóvinnustofu um skeið.

Húsið er einlyft timburhús með háu þaki. Það mun hafa verið smíðað úr timbri sem gekk af við byggingu Menntaskólans í Reykjavík (1846). Húsið er stokkverkshús, þ.e. tréstokkum er hlaðið upp milli lóðréttra stoða. Þessi byggingaraðferð er frek á timbur og var því sjaldgæf hérlendis. Aðalhæð hússins er skipt í fjögur herbergi, auk forstofu. Tvær stofur eru sunnanmegin, eldhús og minna herbergi norðanmegin. Í eldhúsinu er opið eldstæði en tveir bíleggjaraofnar eru í stofum út frá því.

Húsið var flutt á Árbæjarsafn 1969. Þar er nú verkstæði gullsmiðs og skósmiðs. 

arbaejarsafn_thingholtsstraeti_inni.jpg