Dillonshús

Suðurgata 2

arbaejarsafn_dillonshus.jpg

Dillonshús var reist árið 1835 á horni Túngötu og Suðurgötu, á svokölluðu Ullarstofutúni, sem dró nafn sitt af einu húsa Innréttinganna. Dillonshús er vel byggt, enda í engu til sparað. Það er einlyft bindingshús, með háu risi og klætt borðum, sömu gerðar og Hansenshús (sjá nr. 14) en stærra. Húsið er að mestu leyti bikað að utanverðu. Suðurhliðin, framhliðin, er þó máluð eins og var í upphafi.

Húsið dregur nafn sitt af þeim manni sem lét smíða það, Arthur E.D. Dillon, en því fylgir sérstæð saga. Hún hefst árið 1834. Dillon var ungur maður, 22 ára, af aðalsættum. Hann kom til Íslands árið 1834 í þeim tilgangi að skoða landið og skrifa um það ferðabók. Leigði hann sér herbergi hjá kaupmanni í Reykjavík og var í fæði í _Klubben“, veitinga- og samkomustað við suðurenda Aðalstrætis. Þar var húsráðandi Sire Ottesen, 34 ára gömul kona, tveggja barna móðir, fráskilin. Dillon felldi hug til Sire og snemma vetrar flutti hann í Klúbbinn. Var Sire þá orðin ófrísk eftir hann.

Í júnímánuði 1835 fæddist þeim dóttir sem hlaut nafnið Henrietta, eftir móður Dillons. Um veturinn, nánar tiltekið í nóvembermánuði 1834, hafði Dillon sótt um byggingarleyfi við Suðurgötu 2 í nafni Sire. Var húsið byggt um vorið og sumarið og fluttu þau þangað inn síðsumars. Einnig hugðist Dillon kvænast Sire. En hann var kaþólskrar trúar og þar sem enginn annar kaþólskur maður var í landinu sótti hann um giftingarleyfi til danska kansellísins. Fyrir áhrif ættingja hans mun því hafa verið hafnað.

Bæjarslúðrið var óvægið um hina óvígðu sambúð Dillons og Sire. Af þeim sökum hrökklaðist Dillon af landi brott haustið 1835. Þegar til Englands kom var ástarævintýri hans þaggað niður. Í ferðabók hans, sem kom út fimm árum síðar í London, minntist hann heldur ekki á Sire eða dóttur sína. Árið 1843 giftist hann enskri konu. Sire vann hins vegar fyrir sér og dótturinni með veitingasölu í nýja húsinu. Einnig hélt hún dansleiki, svonefnd píuböll, og leigði út herbergi í húsinu. Kunnasti leigjandi hennar var Jónas Hallgrímsson skáld, en hann bjó í Dillonshúsi síðasta vetur sinn á Íslandi, 1841-42. Dillon skrifaðist lengi á við Henriettu dóttur sína. Einnig er talið að hún hafi heimsótt ættingja sína um 1875 og einkasonur hennar hafi farið í herforingjaskóla í Englandi fyrir milligöngu Dillons.

Um 1850 dró Sire saman veitingareksturinn og leigði út stærri hluta Dillonshúss en áður. Meðal fyrstu leigjenda hennar eftir það voru Ágústa og Þóra Grímsdætur sem ráku þar fyrsta kvennaskóla á Íslandi á árunum 1851-53. Skólinn stóð ekki undir sér fjárhagslega og var því lagður niður. Síðar giftist Þóra Páli Melsteð og tók upp ættarnafn hans. Hún stofnaði ásamt fleiri konum Kvennaskólann í Reykjavík, sem enn starfar við góðan orðstír. Leigjendur í Dillonshúsi voru gjarnan efnameiri fjölskyldur, embættis- og menntamenn og venslafólk þeirra. Bendir það til að Sire hafi verið vel metin þrátt fyrir sögusagnir sem um hana gengu.

Dillonshús var flutt í Árbæjarsafn árið 1961. Þar er rekið kaffihús safnsins og haldnar smærri samkomur. Stór og vönduð standklukka úr eigu Benedikts Gröndal skálds er í einni veitingastofunni. Klukkuverkið í henni er að líkindum danskt, en kassi og skífa eru ensk.