Efri hæð

Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár

Grunnsýningin Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár á Sjóminjasafninu í Reykjavík fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátar viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Þessi margslungna saga er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur. Umgjörðin á Sjóminjasafninu við Grandagarð er viðeigandi, en safnhúsið hýsti áður blómlega fiskvinnslu.

Sjominjasafnid_thijs_Wolzak_cod_column_hr_for_online_use.jpg
Fiskur og fólk, grunnsýning Sjóminjasafnsins

Gildi fisks fyrir afkomu Íslendinga verður seint ofmetið. Fiskur hefur verið mikilvægur hluti af íslensku mataræði um aldir, sem og ein verðmætasta útflutningsvara þjóðarinnar. Sýningin Fiskur & fólk er byggð kringum aðalpersónu þessarar sögu: Fiskinn sjálfan. Honum er fylgt eftir úr hafinu í netið, um borð í bátinn og að landi, í gegnum vinnslu – og loks á diskinn.

Hönnun sýningarinnar var í höndum hollenska fyrirtækisins Kossmann.dejong og er afar metnaðarfull. Yfirbragð hennar er sótt í umhverfi frystihússins og fiskvinnslunnar, með flísalögðum veggjum, fiskikörum og pallettum úr plasti. Fjölbreyttir gripir úr safneign Borgarsögusafns Reykjavíkur leika að sjálfsögðu mikilvægt hlutverk á sýningunni. Þeir eru af öllum stærðum og gerðum, frá smæstu önglum og fiskmerkjum til stóreflis roðflettivéla og síldarháfa.

Ríkulegt myndefni, bæði ljósmyndað og kvikmyndað, skapar lifandi stemmningu á sýningunni og dýpkar upplifun gesta. Hægt er að horfa og hlusta á viðtöl við sérfræðinga í faginu – til dæmis sjómenn, sjávarlíffræðinga og fiskverkafólk – en einnig er sótt í gamlar heimildir um sjósókn fyrr á tímum. Alls konar gagnvirkir skjáir og leikir gefa færi á þátttöku gesta og ýmis sérstæð fyrirbæri vekja athygli og umhugsun, svo sem stærðarinnar turn úr þurrkuðum saltfiski og fiskikar fullt af skringilegum afla sem einnig fyllir sjóinn: Plasti og öðru drasli.

Markmiðið er að sýningin sé bæði fræðandi og skemmtileg og höfði jafnt til þeirra sem þekkja vel til sjósóknar og sögu hennar og hinna sem aldrei hafa á sjó komið.

Gestir ganga inn á sýninguna á fyrstu hæð Sjóminjasafnsins, þar sem þögul kvikmynd á stóru tjaldi sýnir fiska og fólk. Þaðan er gengið upp stiga á aðra hæð safnsins. Á veggflísarnar í stiganum er prentað kvæðið „Þorsklof“, sem er lofsöngur Hannesar Hafstein til þessarar þjóðfrelsishetju Íslendinga. Uppi á stigapallinum gefur að líta á veggjunum teikningar Jóns Baldurs Hlíðberg af íslenskum fiskum, ásamt heitum þeirra á íslensku, ensku og latínu.

 

reykjavik_maritime_museum_javier_ballester_4217_crop.jpg

Fyrsti hluti sýningarinnar er helgaður hafinu, heimkynnum fiskanna og annarra sjávardýra. Fjallað er um hafstraumakerfi jarðar og þær aðstæður sem gera það að verkum að ein auðugustu fiskimið í heimi er að finna í sjónum kringum Ísland. Tvær kvikmyndir á stórum tjöldum sýna lífið í hafinu neðansjávar og ofansjávar. Á tveimur skjám geta gestir skoðað ólíkar tegundir nytjafiska við Ísland, kynnt sér útlit þeirra og lífshætti og hlutverk þeirra í íslenskum sjávarútvegi, sögu og menningu. Fjallað er um haf- og fiskirannsóknir við Ísland og meðal annars sýndir gripir tengdir fyrsta íslenska fiskifræðingnum, Bjarna Sæmundssyni. Gestir geta lært að aldursgreina fiska í smásjá og fræðst um fæðukeðjuna í hafinu í tölvuleik sem kallast „Hver étur hvern?“ Áhersla er lögð á mikilvægi sjálfbærrar nýtingar auðlindarinnar í hafinu og ábyrgrar umgengni við hana.

Næsti hluti sýningarinnar fjallar um siglingafræði og fiskileit. Þróun siglingatækninnar er sýnd með viðtölum og fjölbreyttum gripum, frá áttavitum og sextöntum, handlóðum og frumstæðum vegmælum til bergmálsdýptarmæla, radíókompása, lórantækja og GPS-tækja. Á stórri kennslutöflu gefur að líta skýringar á lögmálum siglingafræðinnar. Á öðrum vegg blasir við ein þeirra bæna sem sjómenn fyrri alda fóru með áður en lagt var á hafið: Bevara oss fyrir brimi og blindskerjum, skaðsömum fiskum og sjóreifurum.

 

sjóminjasafn_fiskurogfólk_javier_ballester_4220_crop_.jpg

Því næst ganga gestir yfir í þann hluta sýningarinnar sem snýst um fiskiskip. Fulltrúi árabátaaldar á sýningunni er árabáturinn Farsæll, sem er súðbyrðingur með Faxaflóalagi. Árabátaútgerð frá Reykjavík náði hámarki milli 1870 og 1890. Þá hélt skútuöldin innreið sína, en skútur, eða þilskip, sigldu lengra út á miðin og færðu meiri afla í land en áður hafði þekkst. Sýndir eru gripir á borð við seglbúnað og hnúta og fjallað sérstaklega um tvo af frumkvöðlum þilskipaútgerðarinnar, Geir Zoëga og Ellert Schram. Skömmu eftir aldamótin 1900 hófst síðan vélvæðing íslensks sjávarútvegs og Íslendingar hófu að veiða með botnvörpu. Reykjavík varð togarabær, en upphaf togaraútgerðar var nátengd hröðum vexti höfuðstaðarins á fyrstu áratugum 20. aldar. Skipsskrúfa og stýrisvél, togklukka og togljós eru dæmi um sýningargripi sem tengjast vélvæðingunni og togarabyltingunni í reykvískum sjávarútvegi.

Þróun skipagerðar, frá upphafi vélvæðingar og fram á 21. öld, eru gerð skil í löngum sýningarskáp með fjölda fallegra líkana af bátum og skipum; síðutogurum og skuttogurum, gufu- og dísiltogurum, síldar- og línubátum, frysti- og fjölveiðiskipum.

Næsti hluti sýningarinnar fjallar um sjálfar veiðarnar, veiðarfæri og veiðiaðferðir og þróun þeirra. Fjallað er um handfæraveiðar, línuveiðar, nótaveiðar, netaveiðar, trollveiðar og aðrar veiðar með aðstoð skýringarmynda og margvíslegra gripa. Sjá má eldri veiðarfæri úr náttúrulegum efnum, svo sem tilhöggna vaðsteina og flotholt úr tré, en einnig nútímaleg veiðarfæri á borð við litríka gervibeitu og rafknúnar handfæravindur.

 

reykjavik_maritime_museum_javier_ballester_4190_crop_large.jpg

Síðan tekur við umfjöllun um samfélag sjómanna á sjó og í landi. Lífinu um borð eru gerð skil í skemmtilegum sýningarskáp þar sem gestir geta hlustað á upptökur sem tengjast fjölbreyttum gripum í skápnum. Hvaða frásögn skyldi til dæmis tengjast brennivínsflösku, útvarpi eða gamalli hjónalífsbók? Sýnd eru margvísleg áhöld sjómannsins, svo sem hnífar, nálar og fiskgoggar, og gestir fá mynd af þróun sjóklæða frá skinnklæðum árabátaaldar til skærlitra gúmmístakka dagsins í dag. Það er líka hægt að máta sig sjálfur við sjóklæðin og taka af sér mynd. Fjallað er um sjósókn í íslenskri menningu og þjóðlífi, til dæmis í listsköpun og dægurlögum en einnig í málsháttum og orðtökum sem gæti komið mörgum á óvart að ættu rætur sínar að rekja til sjómennsku.

Reykjavíkurhöfn er órjúfanlegur hluti þeirrar sögu sem sögð er á sýningunni. Saga hafnarinnar er sett fram í gripum á borð við kafarabúning sem notaður var við hafnargerðina 1913-1917 og gæruskinnsúlpuna vinsælu sem margir eyrarkarlar klæddust á sínum tíma. Í sérstökum lyftaraleik geta gestir spreytt sig á að stafla fiskikörum á sem stystum tíma með lyftara.

Þungamiðja þessa hluta sýningarinnar er hins vegar svokallað ljósmyndatré. Þar geta gestir tyllt sér niður og þrætt sig gegnum mikinn fjölda mynda frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur sem tengjast höfninni og hafnarvinnunni á einhvern hátt. Myndatréð, sem inniheldur fjölda mynda, skiptist í þrjá hluta eftir tímabilum. Sá fyrsti nefnist „Hafnarleysi og hafnargerð“ og nær fram yfir fyrri heimsstyrjöld. Þar gefur að líta einstakar myndir af hinum vaxandi Reykjavíkurbæ um aldamótin 1900, og vinnunni við höfnina á þeim tíma þegar uppskipun og útskipun fór fram með handafli og konur og karlar roguðust með kolapoka á bakinu upp bryggjurnar. Annar hluti myndatrésins kallast „Ár Hegrans“, en nafnið vísar til kolakranans Hegrans sem var einkennismerki hafnarinnar um áratugaskeið. Myndirnar sýna iðandi mannlífið við höfnina, fiskveiðar og vöruflutninga og ferðalanga sem stíga á skipsfjöl á leið til annarra landshluta eða út í heim. Síðasti hluti myndatrésins, „Fiskur og ferðalög“, nær frá því um 1960 og fram á 21. öld. Myndirnar sýna þá sífelldu uppbyggingu og uppfyllingu lands sem hefur átt sér stað við Reykjavíkurhöfn, en einnig breytingar á skipulagi hafnarvinnunnar með tilkomu gáma, vörubretta og lyftara.

 

sjóminjasafnið_fólkogfiskur_javier_ballester_4253_crop.jpg

Vaxandi stórútgerð í Reykjavík á 20. öld kallaði á ýmiss konar þjónustu í landi. Næsti hluti sýningarinnar fjallar um slíkan iðnað: Skipasmíði og seglagerð, veiðarfæragerð og tunnusmíði. Þar komast gestir í snertingu við heim handverks sem nú heyrir fortíðinni til og forvitnileg áhöld sem mörg heita dularfullum nöfnum. Af hverju áttu tunnusmiðir svona marga hefla? Hvað eru krúmmsirkill og kalfattjárn, díxill og drífholt, seglhanski og hræll? Hvernig tengist orðtakið „að fara í súginn“ aðferðum við smíði árabáta?

Í afstúkuðu sýningarrými er fjallað um dramatíska sögu öryggismála og sjóslysa við Ísland. Saga slysavarna á Íslandi er rakin, sagt frá hinni merku tilkynningaskyldu íslenskra sjómanna, sem er einstök í heiminum, og sýndir gripir á borð við austurtrog og bárufleyg, björgunarvesti og fluglínutæki, flotbúning og Markúsarnet. Fjallað er um fjögur örlagarík sjóslys og sýndir merkilegir gripir þeim tengdir. Þar á meðal eru til dæmis logsuðutækin sem urðu togaranum Þorkeli mána til bjargar í Nýfundnalandsveðrinu, en þá hlóðst ísing á skipið og grípa þurfti til þess ráðs að sjóða af því davíðurnar, stálfestingarnar sem björgunarbátarnir héngu í.

Í miðju rýminu er stafrænn gagnagrunnur sem var gerður sérstaklega fyrir sýninguna og inniheldur upplýsingar um alla Íslendinga sem farist hafa á sjó frá árinu 1900-2017. Þannig er minningu þeirra haldið á lofti og jafnframt minnt á þær hættur sem hafa alla tíð fylgt því að stunda sjósókn norður undir heimskautsbaug. Það er ekki ólíklegt er að mörgum muni þykja þetta einn áhrifamesti hluti sýningarinnar.

Á nærliggjandi pallettu má sjá tilkomumikinn og sögulegan grip: Togvíraklippur úr þorskastríðum Íslendinga við Breta. Hér er fjallað í texta og myndum um landhelgismál og fiskveiðistjórnun við Ísland frá því á 19. öld, bæði deilur við erlendar þjóðir um nýtingu fiskistofna á Íslandsmiðum og innbyrðis deilur Íslendinga um skiptingu auðlindarinnar. Vilji gestir kynna sér málið nánar er hægur leikur að ganga út í varðskipið Óðinn, sem liggur við bryggju fyrir utan Sjóminjasafnið og er sívinsæll hluti safnsins.

 

thjv_frysithus_10_small.jpg

Fiskvinnsla er allt um kring á sýningunni. Í næsta hluta hennar er augum beint að ólíkum aðferðum við vinnslu á fiski og sögu þeirra á Íslandi; þurrkun og söltun, ísingu og frystingu, bræðslu og niðursuðu. Stór turn úr þurrkuðum saltfiski minnir á mikilvægi þessarar afurðar sem eitt sinn var verðmætasta útflutningsvara Íslendinga og ljómaði hvít á stakkstæðum um allan Reykjavíkurbæ. Að sjálfsögðu er hér svo til sýnis bæði stál og hnífur, þar á meðal hnífar frá Bæjarútgerð Reykjavíkur sem eitt sinn var til húsa þar sem Sjóminjasafnið er nú, en einnig stórir gripir á borð við roðflettivél og flökunarvél sem ollu byltingu í fiskvinnslu eftir miðja 20. öld.

Í næsta hluta sýningarinnar er fjallað um fisksölu og fiskútflutning. Útflutningur Íslendinga á fiski eftir löndum er sýndur með nýstárlegu frístandandi súluriti úr fiskikerjum. Gestir geta kynnt sér þau viðmið sem farið er eftir við gæðaeftirlit á fiski, hvernig fiskurinn á að líta út og hvernig lykt á að vera af honum. Fjallað er um ýmislegt sem getur haft áhrif á alþjóðleg viðskipti með sjávarafurðir og sýndar gamalkunnar vörur sem Íslendingar hafa flutt inn í staðinn fyrir fisk, svo sem Prins Póló, tékkneskur kristall og hin alræmdu Spánarvín.

Nú ganga gestir aftur niður á neðri hæð safnsins. Þar er sýningarskápur sem kallast Allt nýtt – engu sóað! og er helgaður öllum þeim fjölmörgu hliðarafurðum sem unnar hafa verið úr fiski og sjávarfangi bæði fyrr og síðar, allt frá gömlum roðskóm til nútímatískuvarnings, smyrsla og fæðubótarefna. Þannig er vakin athygli á mikilvægi þess að nýta auðlindir hafsins á ábyrgan hátt – nýta allt og sóa engu.

Við lok sýningarinnar er fiskurinn kominn á diskinn. Þar gefst gestum færi á að setja sjálfir saman girnilegar fiskuppskriftir úr alls konar innihaldsefnum í tölvuleik sem heitir: Verði þér að góðu!

Upplýsingar

Upplýsingar

Sjóminjasafnið í Reykjavík

Grandagarði 8

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6340

Hafðu samband

Tekið á móti hópum (10+) eftir samkomulagi

Skólaheimsóknir

Hafðu samband

Opið

Opið

alla daga 10:00-17:00

Varðskipið Óðinn

Leiðsagnir kl. 13, 14 og 15 frá mars-nóvember

Jólahátíðin

Lokað 24.-25. des.

Opið 26. des. 10:00 - 17:00

Opið 31. des. 10:00 - 14:00

Opið 1. jan. 12:00 - 17:00

Páskahátíðin

Skírdagur opið 10:00-17:00

Föstudagurinn langi - lokað

Páskadagur- lokað

Annar í páskum opið 10:00-17:00

Aðgangseyrir

Aðgangseyrir

Fullorðnir

2.220 kr.

Óðinn leiðsögn

1.710 kr.

Safn + Óðinn

3.410 kr.

Börn og öryrkjar

Frítt

Nemendur með gilt skólaskírteini

Safn 1.370 kr., Óðinn 1.370 kr.

Menningarkort, árskort

7.770 kr.

Menningarkort 67+, árskort

2.220 kr.

ICOM og Físos korthafar

Frítt

Skráðu þig á póstlista Borgarsögusafns

Þú færð fréttabréf um opnanir og viðburði ofl.