Sýningastefna

Borgarsögusafn Reykjavíkur vill með sýningum sínum efla sögu- og samfélagsvitund, skapandi hugsun og víðsýni. Með metnaðarfullum sýningum leitast safnið við að vekja áhuga og forvitni og kynna þá fegurð og fjölbreytileika sem býr í safneignum þess. Safnið sé vettvangur fyrir ólíkar raddir og viðhorf, skapandi umræðu og gagnrýna hugsun. Sýningar safnsins séu unnar í samstarfi við hina ýmsu hópa samfélagsins. Sýningar safnsins höfði jafnt til innlendra sem erlendra gesta á öllum aldri. Sýningarstarf Borgarsögusafns tekur mið af stefnu Reykjavíkurborgar sem og öðrum innlendum og alþjóðlegum stefnum í menningarmálum.

Sýninganefnd Borgarsögusafns Reykjavíkur, undir forystu deildarstjóra miðlunar og fræðslu, gerir tillögur um sýningaráætlun fyrir sýningarstaði safnsins tvö ár fram í tímann og leggur fyrir safnstjóra til samþykktar. Sérhver starfsmaður hefur tillögurétt um sérsýningarefni en einnig er tekið á móti tillögum frá aðilum utan safns, svo framarlega sem þær samrýmast sýningastefnu safnsins.

Markmið:

  • Að veita gestum innsýn í margslungna sögu og menningu Reykjavíkur með fjölbreytni í vali sýninga á sýningarstöðum þess.
  • Að vinna vandaðar sýningar byggðar á áreiðanlegum rannsóknum.
  • Að vera í samstarfi við einstaklinga, listamenn, félög og samtök, innlendar og erlendar mennta- og menningarstofnanir um sýningar.
  • Að sýningar safnsins séu gerðar með aðgengi allra að leiðarljósi.
  • Að leitast við, við gerð sýninga, að framfylgja umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar sem og Grænum skrefunum þar sem leiðarljósið er sjálfbærni og umhverfisvernd. Notast verður við umhverfisvæn efni eins og kostur er og skipt við svansvottuð fyrirtæki.
  • Að hafa Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi við gerð sýninga safnsins.
  • Að upplýsingar um sýningar safnsins, eldri, núverandi og framundan, séu aðgengilegar á vef safnsins.