Borgarsögusafn
- eitt safn á fimm frábærum stöðum
Borgarsögusafn Reykjavíkur er rekið af Reykjavíkurborg. Það er næststærsta safn landsins á eftir Þjóminjasafni Íslands.
Hlutverk
Borgarsögusafn Reykjavíkur starfar samkvæmt lögum um starfsemi safna og menningarminjar, samþykktum og siðareglum Alþjóðaráðs safna. Safnið stuðlar að varðveislu menningarminja í Reykjavík með þeim hætti að borgarbúar og gestir þeirra hafi sem bestan aðgang að menningararfi borgarinnar.
Sýningarstaðir safnsins eru í Árbæjarsafni, Landnámssýningunni í Aðalstræti, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Sjóminjasafninu í Reykjavík og Viðey, auk þess sem starfsemi safnsins er sýnileg með öðrum hætti, t.d. með sögugöngum, útgáfu og menningarmerkingum í borgarlandinu.
Hlutverk safnsins er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans. Safnið sinnir minjavörslu í Reykjavík og heldur skrár yfir fornleifar, hús og mannvirki í borginni. Safnið sinnir sýningarhaldi, fræðslustarfsemi og útgáfu í samræmi við fjárhags- og starfsáætlun ár hvert.
Leiðarljós
Borgarsögusafn hefur það að leiðarljósi að vera í sterkum og sýnilegum tengslum við samfélagið, vera áreiðanlegt, upplýsandi og aðgengilegt, hvetja gesti sína til þátttöku og þjóna öllum af alúð.
Það skal sýna fagmennsku við söfnun, skráningu og varðveislu á menningarminjum, miðla fjölbreyttri sögu borgarinnar á forvitnilegan hátt, vekja fólk til umhugsunar, vera skapandi og skemmtilegt.
Starfsemi Borgarsögusafns skal vera kraftmikil, traust, markviss og skýr.