back

110 ár liðin frá því þilskipið Ingvar fórst við Viðey.

04.04.2016 X

Illugi Jökulsson rithöfundur flytur hádegiserindi þann 7. apríl í Sjóminjasafninu í Reykjavík kl. 12:10 í tilefni af því að þann dag eru 110 ár liðin frá því að þilskipið Ingvar fórst fyrir utan Viðey með 20 manns innanborðs. Sjóminjasafnið í Reykjavík stendur fyrir viðburðinum.

Dómkirkja Reykjavíkur var skrýdd svörtum sorgarlit þann 20. apríl 1906 þegar skipverjar kútter Ingvars voru bornir til grafar en skipið fórst ásamt áhöfn við Viðey nokkrum dögum fyrr, þann 7. apríl.  Mikil sorg ríkti í Reykjavík í kjölfar atburðarins, vinna lagðist niður og verslanir lokuðu á meðan á útför stóð. Líkfylgdin var ein sú fjölmennasta sem dæmi voru um í Reykjavík.[1] Lík ellefu manna rak að landi en níu þeirra voru lagðir í sömu gröfina og þótti mönnum átakanlegt að horfa ofan í hina stóru gröf sem nú skyldi taka við hinum látnu“ [2] Guðmundur Guðmundsson skólaskáld samdi erfiljóð sem birt var á útfarardegi skipverjanna.

 

Brot úr ljóðinu Mannskaði

Guð minn, ég heyri gegnum brim í anda

grátþrungin andvörp djúpt úr hafi stíga,

sé yður eins og stoltar hetjur standa

sterkar á þiljum – og í valinn hnífa.

Sárt er í æsk´að hníg´á heljarvegi,

hjálpar að biðj´í dauða – og finna eigi.

 

Óveðursdagurinn 7. apríl leið Reykvíkingum seint úr minni. Þúsundir manna flyktust niður að hafnarbakkanum þegar ljóst var að kútter Ingvar hafði strandað, örskammt frá öruggri höfn. Um hádegisbil sást til Ingvars fyrir utan eyjarnar á sundinu og bersýnilega var ekki allt með felldu. Í Alþýðublaðinu þann 19.04.1906 er svo sagt frá:

“Það [Ingvar] hafði uppi forsegl og aftursegl, en stórseglið var rifið, eftir því sem síðar fréttist, og sigluásinn brotinn. Hefir þetta ef til vill verið orsök þess, að það beitti ekki inn venjulega skipaleið, en fór fyrir norðan og austan Engey eins og það ætlaði inn Viðeyjarsund. Það komst þó ekki lengra en inn á móts við Viðeyjartúnið, bar þar upp að landi og festist á blindskeri svo sem 300 faðma frá ströndinni. Veður var mikið og foráttu brim. Lestist því skipið fljótt og sökk í sjó með flæðinu. Frá Reykjavík mátti sjá til skipsins í sjónaukum, en oftast ógreinilega vegna særoks og tók stundum fyrir í kafaldsélum. Skipverjar sáust hanga í skipinu, einkum reiðanum, voru taldir 13 um tíma. En sökum þess, að skipið byltist ákaflega, týndu þeir tölunni smátt og smátt. En þó leið hátt á 4 tíma, frá því að skipið strandaði og þangað til sá síðasti hvarf.”[3]

Samkvæmt þessum vitnisburði varð skipið fyrir miklu áfalli, seglbúnaður þess laskaðist og það lét illa að stjórn. Því tók skipstjóri stefnuna út fyrir Viðey í stað þess að stefna skipinu vestan megin inn á sundið milli Örfiriseyjar og Engeyjar. Straumþungi og stórstjór bar stjórnlítið skipið að Viðey þar sem skipstjóri varpaði akkeri, en líklega hefur hann talið það vera skásta kostinn í stöðunni. Þarna háðu skipverjar sinn lokabardaga við Ægi.“

„Í Viðey ríkti sorg og örvænting. Eggert Briem ráfaði um í öngum sínum og reyndi að láta sér detta í hug eitthvað sem hann gæti gert, skipbrotsmönnum til hjálpar. Heimilisfólk hafði flutt niður á fjörukambinn heitt kaffi, teppi, kaðla og fleira sem hugsanlega gæti komið að gagni við að ná mönnunum lifandi upp úr briminu og hlúa að þeim, en eftir því sem lengra leið minnkuðu líkur á því. Skipverjarnir sem losnuðu úr reiða Ingvars voru farnir að berast upp í fjöruna og fólkið á ströndinni náði sumum þeirra en allir voru þá liðin lík.“[4]

Kútter Ingvar var 77 tonn, smíðaður í Fredrikshavn árið 1900 úr eik og beiki, skipið var í eigu Duus verslunar og gert út frá Reykjavik. Í kjölfar slyssins urðu uppi miklar umræður um slysavarnir eða öllu heldur skort þar á. Menn leituðu allra leiða til að koma skipverjum til bjargar en vegna veðurs og aðstæðna á slysstað var því ekki við komið. Skip og bátar komust hreinlega ekki að Ingvari án þess að hætta lífi og limum enn fleiri manna. Fluglínubyssa hefði getað komið að gagni en slíka var ekki að finna á landinu, hvað þá úti í Viðey. Þessum málaflokki hafði lengi verið illa sinnt og kom ástandið ekki til með að breytast tilfinnanlega til batnaðar fyrr en með stofnun Slysavarnarfélags Íslands árið 1928. Engu að síður opnaði umræðan í kjölfar slyssins augu margra og jók vilja til umbóta.

Ekki má gleyma að í sama óveðri fórust tvö önnur þilskip, Sophia Wheatly og Emilie, með samtals 48 mönnum. Brak úr skipunum rak í fjörur á Mýrunum við Reykjanes. Þar að auki tók tvo menn útbyrðis af þilskipunum Valtý og Milly sem bæði voru gerð út frá Reykjavík.[5] Samtals fórust 70 menn í þessu óveðri. Flestir mannanna höfðu fyrir fjölskyldu að sjá, konu, börnum, foreldrum eða öðrum ættmennum. Í blaðaskrifum kemur fram að margir hafi átt um sárt að binda eftir slysið og því var ákveðið að efna til samskots þeim til handa og safnaðist töluvert í þann sjóð.  

Árið 1986, þegar 80 ár voru liðin frá slysinu, fannst akkeri við Hjallasker við Viðey sem að öllum líkindum er af kútter Ingvari. Það stendur nú sem minnisvarði um mennina tuttugu sem fórust með skipinu.

Nöfn þeirra sem fórust í mannskaðaveðrinu.

7. apríl
Ingvar (20 menn)

 • Tyrfingur Magnússon skipstjóri, Viðey, 27 ára                  
 • Júlíus Arason stýrimaður, Reykjavík, 27 ára                                       
 • Jóhannes Teitsson, Vesturgata 57, Reykjavík, 61 árs     
 • Albert Einarsson, Ölfusi, 16 ára                                
 • Geir Hildibrandsson, Rangárvallasýslu, 26 ára
 • Guðjón Gestsson, Rangárvallasýslu, 32 ára        
 • Guðjón Kr. Jónsson, Akranesi, 17 ára
 • Guðmundur Þórðarson, Kjós, 20 ára
 • Kláus Jónsson, Borgarfirði, 28 ára
 • Ólafur Einarsson, Árnessýslu, 18 ára
 • Ólafur Sveinsson, Reykjavík, 28 ára,
 • Sigmundur Hildibrandsson, Rangárvallasýslu, 32 ára
 • Sigurbjörn Jónsson, Akranesi, 35 ára
 • Sigurður Jóhannesson, Reykjavík, 16 ára
 • Stefán Gestsson, Rangárvallasýslu
 • Tímóteus Ólafur Guðmundsson, Akranesi, 16 ára
 • Þorsteinn Jónsson, Reykjavík, 36 ára
 • Tómas Tómasson
 • Sigurvard Larsen, Noregi, 30 ára
 • Jakob Havstad, Noregi, 19 ára

7. apríl
Emilie (24 menn)

 • Björn Gíslason, skipstjóri, Reykjavík, 34 ára
 • Árni Sigurðsson, stýrimaður, Reykjavík, 30 ára
 • Árni Guðmundsson Akranesi, 44 ára
 • Ásgeir Ólafsson, Reykjavík, 17 ára
 • Guðlaugur Ólafsson, Reykjavík, 19 ára
 • Guðjón Guðmundsson, Reykjavík, 26 ára
 • Guðjón Ólafsson, Patreksfirði, 23 ára
 • Guðmundur Bjarnason, Akranesi, 22 ára
 • Guðmundur Guðmundsson, Patreksfirði, 30 ára
 • Guðmundur Guðmundsson, Reykjavík, 25 ára
 • Guðmundur Jónsson, Akranesi, 22 ára
 • Guðmundur Kristjánsson, Akranesi, 15 ára
 • Guðmundur Magnússon, Akranesi, 59 árs
 • Guðmundur Þorsteinsson, Akranesi, 49 ára
 • Hannes Ólafsson, Akranesi, 23 ára
 • Kristinn Jónsson, Reykjavík, 17 ára
 • Kristján Guðmundsson, Akranesi, 53 ára
 • Kristján Magnússon, Akranesi, 51 árs
 • Ólafur Eiríksson, Reykjavík, 37 ára
 • Ólafur Ólafsson, Akranesi, 47 ára
 • Sigurður Jónsson, Akranesi, 35 ára
 • Stefán Bjarnason, 20 ára
 • Stefán Böðvarsson, Hrútafirði, 29 ára
 • Þorsteinn Bjarnason, Akranesi, 17 ára

7. apríl
Sophia Wheatly  (24 menn)

 • Jafet Egill Ólafsson skipstjóri, Reykjavík, 32 ára
 • Eyvindur Eyvindsson, Reykjavík, 26 ára
 • Steindór Helgason, Reykjavík, 36 ára
 • Guðni Einarsson, Gaulverjabæ, 31 árs
 • Þorvarður Karelsson, Reykjavík, 32 ára
 • Þórður Eyvindsson, Eyrarbakka, 21 ára
 • Ólafur Eiríksson, Eystrahreppi, 19 ára
 • Steinn Steinason, Skorradal, 29 ára
 • Arinbjörn Sigurðsson, Eyrarbakka, 39 ára
 • Jón Bjarnason, Reykjavík, 29 ára
 • Jón Sigurðsson, Reykjavík, 17 ára
 • Sigurður Jónsson, Borgarhreppi, 26 ára
 • Sigurður Kristjánsson, Rangárvallasýslu, 18 ára
 • Jón Hákonarsson, Dýrafirði, 21 árs
 • Þorbergur Eggertsson, Dýrafirði, 21 árs
 • Guðfinnur Þorvarðsson, Reykjavík, 56 ára
 • Jón Guðmundsson, Dýrafirði, 22 ára
 • Gísli Egill Steinþórsson, Dýrafirði, 24 ára
 • Gísli Hallsson, Reykjavík, 35 ára
 • Kristján Helgason, Kjós, 17 ára
 • Gísli Gíslason, Höskuldarbóli, 21 árs
 • Matthías Sumarliðason, Skorradal, 28 ára
 • Konráð Magnússon, Reykjavík, 19 ára
 • Þorvaldur Gissurarson, Viðey, 19 ára

5. apríl
Valtýr (1 maður)

 • Loftur Loftsson stýrimaður, Seltjarnarnesi, 36 ára

9. apríl
Milly (1 maður)

 • Gunnlaugur Grímsson, Reykjavík, 23 ára

Heimildir:

Steinar J. Lúðvíksson. (1981). Þrautgóðir á raunastundu. Björgunar og sjóslysasaga Íslands. 13. bindi. Örn og Örlygur hf.

Illugi Jökulsson. (2013). Háski í hafi. Sjóslys við Ísland í byrjun 20. aldar. Sögur.

www.timarit.is

www.manntal.is

Íslendingabók


[1] Þjóðviljinn+Þjóðvilinn ungi  19:20 (25.02.1906), bls. 74-75.

[2] Æskan 9:17-18 (1905-1906). bls.71-72.

[3] Alþýðublaðið 1:6 (19.04.1906), bls. 45-46.

[4] llugi Jökulsson. (2013). Háski í hafi. Sjóslys við Ísland í byrjun 20. aldar. s. 246.

[5] Steinar J. Lúðvíksson. (1981). Þrautgóðir á raunastundu. Björgunar og sjóslysasaga Íslands. 13. bindi. Örn og Örlygur hf. s. 162