Saga safnsins

Borgarsögusafn - Um safnið - Saga safnsins
Jón Gnarr opnar Borgarsögusafn 1. júní 2014

Borgarsögusafn Reykjavíkur er nýtt sameinað safn í eigu Reykvíkinga sem tók til starfa þann 1. júní 2014 en undir það heyra: Árbæjarsafn, Landnámssýningin í Aðalstræti, Sjóminjasafnið í Reykjavík, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Viðey. Markmið sameiningarinnar er að efla starfsemi safnsins í þeim tilgangi að þjóna fjölbreyttum hópi gesta enn betur.

Opnun Borgarsögusafns 1. júní 2014

Opnunarathöfn safnsins fór fram á Hátíð hafsins á sjómannadaginn 2014 og hófst á því að Jón Gnarr þáverandi borgarstjóri og kórarnir Hrynjandi og Bartónar sigldu syngjandi frá gömlu höfninni í Reykjavík að Sjóminjasafninu og var söngnum útvarpað um allt hátíðarsvæðið. Þegar komið var í land gekk hópurinn fylktu liði upp á svið Hátíðar hafsins þar sem sungin voru nokkur lög til viðbótar. Að því loknu tilkynnti borgarstjóri nafn safnsins og opnaði það formlega með því að sprengja freyðivínsflösku á akkeri við mikil fagnaðarlæti.  

Borgarsögusafn - Opnun safnsins 1. júní 2014
Siglt frá gömlu höfninni í Reykjavík að Sjóminjasafninu.

Um nafn safnsins

Efnt var til nafnasamkeppni fyrir nýja safnið í byrjun maí 2014 og bárust ótal tillögur. Það var samdóma álit dómnefndar að Borgarsögusafn væri rétta nafnið á safnið. Sigrún Björnsdóttir sendi inn vinningstillöguna og afhenti borgarstjóri henni verðlaun við athöfnina. 

Upplýsingar um sögu sýningarstaða safnsins er að finna á vef safnsins undir hverjum sýningarstað fyrir sig.

Opnun Borgarsögusafns 1.6.2014 / Opening of the Reykjavík City Museum
Jón Gnarr borgarstjóri ásamt kórfólki marsera upp landganginn.