1. des hátíð á Árbæj­arsafni

1. des hátíð á Árbæjarsafni

Í tilefni fullveldisdagsins þann 1. desember kl. 18-22 efna Árbæjarsafn, Félag harmonikuunnenda í Reykjavík, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, Kvæðamannafélagið Iðunn og Þjóðdansafélag Reykjavíkur til fögnuðar á Árbæjarsafni. Frítt inn og öll velkomin! Gestum gefst færi á að kynnast gömlu dönsunum, handverki, harmonikum, kveðskap, þjóðbúningum, þjóðdönsum, þjóðlögum og þeim menningararfi sem iðkaður er af félögunum sem að viðburðinum koma auk þess að kynnast starfi félaganna. Á viðburðinum verða skemmtileg örnámskeið og kynningar þar sem hægt verður að læra að sauma gamla íslenska krosssauminn og gera úr því lítið jólaskraut, læra grunnsporin í þjóðdönsum og kynnast kvæðalögum. Dillonshús verður opið og býður upp á dýrindis veitingar. Í tilefni dagsins hvetjum við gesti til að mæta á þjóðbúning, en hægt verður að fá ráðgjöf varðandi búninganotkun og hvernig koma megi eldri búningum í notkun. Dagskrá: ✨Lækjargata 4 / Neyzlan✨ 18:00-22:00 - Heimilisiðnaðarfélag Íslands ✨Lækjargata 4 / Neyzlan (minna herbergi)✨ 18:30 - Kvæðalagaæfing - Kvæðamannafélagið Iðunn 19:30 - Söngvaka - Kvæðamannafélagið Iðunn ✨Landakot / ÍR húsið✨ 18:00 - Þjóðdansafélag Reykjavíkur – Þjóðdansanámskeið 20:00 - Félag harmonikuunnenda í Reykjavík – Dansleikur ✨Líkn✨ 18:00-22:00 - Myndabás

Aðgengi: Gangstígar á safnsvæðinu eru flestir malarstígar. Inn í flest húsin er gengið upp eitt þrep eða yfir þröskuld. Hjálparhundar eru velkomnir í safnið. Strætisvagnar: Næsta stoppistöð heitir Árbæjarsafn (1 mín. gangur). Aðrar nálægar stoppistöðvar heita Laxakvísl og Fagribær (5-6 mín. gangur). Bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru við inngang safnsins. Öll bílastæði eru ókeypis.