Land­náms­sýn­ingin Aðalstræti - leið­sögn

Landnámssýningin Aðalstræti - leiðsögn

Borgarsagan í hnotskurn. Í Aðalstræti 10 og 16 geturðu séð hvernig Reykjavík þróaðist frá landnámi til dagsins í dag. Söguþráðurinn teygir sig neðanjarðar úr Aðalstræti 16, þar sem er skálarúst frá 10. öld, og yfir í elsta hús Kvosarinnar, Aðalstræti 10, og sýnir þróun Reykjavíkur frá býli til borgar.

Eldri hluti sýningarinnar í Aðalstræti 16 byggir á niðurstöðum vísindalegra fornleifarannsókna um það sem fornleifar í Reykjavík geta sagt okkur um líf og störf þeirra sem fyrst settust hér að. Ljósi er varpað á líf og tilveru fyrstu íbúa Reykjavíkur og tengsl þeirra við umhverfið í nýju landi í gegnum margmiðlunartækni og túlkun á fornminjum. Miðpunktur sýningarinnar er skálarúst skála frá 10. öld sem fannst árið 2001 og er varðveitt á sínum upphaflega stað og gefur hugmynd um umhverfi Reykjavíkur eins og það var við landnám. Norðan við skálann fannst veggjarbútur sem er enn þá eldri, eða síðan fyrir 871, og er hann meðal elstu mannvistarleifa sem fundist hafa á Íslandi. Sýningin teygir sig svo áfram neðanjarðar frá Aðalstræti 16 yfir í Aðalstræti 10, elsta hús Kvosarinnar, og heldur áfram til samtímans. Þættir úr sögu Reykjavíkur eru dregnir fram og við kynnumst daglegu líf íbúanna og skynjum tíðarandann í aldanna rás. Frá býli í þorp, úr bæ í borg – með heimsókn í Aðalstræti upplifir þú borgarsöguna í hnotskurn.