Tákn­máls­leið­sögn - Samferða­maður

Táknmálsleiðsögn - Samferðamaður

Ljósmyndasafn Reykjavíkur býður upp á leiðsögn á táknmáli um sýningu Gunnars V. Andréssonar „Samferðamaður“ og hefst hún klukkan 14. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, táknmálsleiðsögumaður, sér um leiðsögnina. Leiðsögnin er ókeypis og öll þau sem tala táknmál eru hjartanlega velkomin. Á sýningunni „Samferðamaður“ er farið yfir ríflega 50 ára feril Gunnars V. Andréssonar fréttaljósmyndara frá 1966-2018. Myndir hans sem birtar voru í dagblöðunum Tímanum, Vísi, DV (Dagblaðinu Vísi), Fréttablaðinu og á fréttavefnum vísi, eru ómetanleg heimild um íslenskt þjóðlíf. Sýningin er sett upp á þann hátt að áhorfandinn gengur í gegnum tímann, ef svo má segja. Myndirnar eru sveipaðar tíðaranda hvers skeiðs og sýna glöggt breytingarnar sem urðu á tímabilinu – hvort sem er á umhverfi eða hinum ýmsu sviðum samfélagsins. Horft er á Gunnar sem samferðamann fólksins sem hann myndaði. Tilefnin eru ánægjuleg jafnt sem sorgleg. Einkum eru spor samferðamannsins skýr þegar skoðaðar eru myndir hans af fólki sem stóð í nafni opinbers lífs yfir langt skeið. Nefna má myndir hans af fyrrum forsetum Íslands þeim Vigdísi Finnbogadóttur og Ólafi Ragnari Grímssyni sem spanna upp undir fjögurra áratuga tímabil og hafa því mikið sögulegt vægi. Svo löng kynni ljósmyndara og viðfangs ljá ljósmyndunum auk þess meiri blæbrigði og dýpt. Sýningin stendur til 7. desember n.k.

Aðgengi er gott á Ljósmyndasafninu og leiðsöguhundar eru velkomnir í safnið. Strætisvagnar: Næstu stoppistöðvar heita Hafnarhús, Lækjartorg, Ráðhúsið (2-5 mín. gangur).