Punktarnir í Viðey

Fjölskylduleiðangur um sögu Viðeyjar

abs_4964.jpg

Velkomin í leiðangurinn Punktarnir í Viðey: Fjölskylduleiðangur um sögu Viðeyjar

Leiðangurinn fer þannig fram að þið fylgið annað hvort rauðu stjörnunum, á kortinu hér að neðan, eða bláu og skoðið myndir og staði sem tengjast sögu Viðeyjar.
Hér fyrir neðan kortið getið þið svo flett á hverja staðreynd fyrir sig eftir því á hvaða punkti þið eruð.
Staðreyndirnar eru í tvennu lagi, annars vegar fyrir yngri kynslóðina og hins vegar fyrir lengra komna. Það er því tilvalið fyrir þá sem eru í fylgd með smáfólki að lesa einnig neðri staðreyndina til nánari útskýringar á punktinum.

Eftir fyrstu tvo punktana er hægt að velja um að halda í norður, á vestur hluta eyjarinnar, eða snúa við og halda í austur.

Góða skemmtun,
Starfsfólk Borgarsögusafns Reykjavíkur

Punktarnir í Viðey kort
img_6050.jpg

Punktur 1: Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja

4-9 ára:
Viðeyjarstofa er elsta húsið á Íslandi sem eingöngu er byggt úr steinum. Þegar það var byggt voru Íslendingar ennþá að byggja sér hús úr torfi (grasi) og grjóti. Þetta hús er því næstum 300 ára gamalt.

Fyrir lengra komna:
Viðeyjarstofa er eitt elsta hús landsins og fyrsta steinhúsið sem reist var á Íslandi. Skúli Magnússon landfógeti lét byggja húsið á árunum 1752-1755 en hirðarkitekt Danakonungs, Nicolai Eigtved, teiknaði það í rókókóstíl.

Viðeyjarkirkja var byggð um 20 árum síðar en hún var vígð árið 1774 og er því næst elsta kirkja landsins á eftir Hóladómkirkju. Innréttingar kirkjunnar eru þær elstu á landinu enda upprunalegar eb kirkjan er enn notuð undir hinar ýmsu athafnir.

Viðey Klaustur

Punktur 2: Viðeyjarklaustur

4-9 ára:
Fornleifafræðingar eru þeir sem vinna við það að grafa upp hluti og hús úr jörðinni.
Hér í Viðey grófu fornleifafræðingar upp þessa rúst af klaustri sem byggt var fyrir 800 árum síðan, á svipuðum tíma og víkingarnir voru á Íslandi. Klaustur er eins konar kirkja þar sem mikið af fullorðnu fólki, sem trúir á Guð, býr saman og kallast munkar og nunnur. Oft voru klaustur í gamla daga líka nokkurs konar spítalar þar sem munkarnir og nunnurnar voru eins og hjúkrunarfræðingar og læknar.

Fyrir lengra komna:
Árið 1225 stofnaði Þorvaldur Gissurarson klaustrið hér í Viðey með aðstoð Snorra Sturlusonar. Viðeyjarklaustur var fyrsta klaustrið í Sunnlendingafjórðungi og varð það næst ríkasta klaustur landsins. Það starfaði í rúm 300 ár eða fram til ársins 1539 er menn Danakonungs rændu það í aðdraganda siðaskiptanna.
Klaustrið var grafið upp í fornleifauppgreftri á árunum 1986 – 1995 en auk þess fundust 20.000 gripir og ummerki um byggð frá 10. öld og fram á þá 20.

Nú getið þið valið um að halda áfram í vestur átt og skoða vesturhluta eyjarinnar: Friðarsúluna, Hjallasker o.fl eða snúa við aftur á milli Viðeyjarstofu og kirkjunnar og beygja niður til vinstri í átt að austurhluta eyjunnar: Kvennagönguhólar, skólinn og þorpið.
Ef þið kjósið að halda áfram til vesturs getið þið næst skoðað punkt númer 3 hér að neðan (rauð stjarna).
Ef þið kjósið að snúa við og halda til austurs þá stökkvið þið strax yfir á punkt númer 8 (blá stjarna).

Viðey Friðarsúlan

Punktur 3: Friðarsúlan

4-9 ára:                               
Yoko Ono er konan sem hannaði Friðarsúluna. Hún gerði hana í von um að þeir sem sjá hana eða vita af henni leggi sig fram við að gera heiminn betri og friðsamari. Á brunni friðarsúlunnar standa orðin „Hugsa sér frið“ á 24 ólíkum tungumálum.
Kveikt er á Friðarsúlunni á afmælisdegi eiginmanns Yoko Ono, tónlistarmannsins John Lennon, þann 9. október ár hvert og slökkt á henni aftur á dánardegi hans, þann 8. desmeber.

Fyrir lengra komna:
Friðarsúlan er hönnuð af Yoko Ono og er hugsuð sem leiðarljós fyrir heimsfrið. Verkið er í formi óskabrunns en upp úr honum stígur há og mikil ljóssúla sem stuðla á að heimsfriði. Sex ljósgeislar fara lárétt um göng á polli í kring um brunninn og endurkastast síðan upp á við með speglum. Utan á brunninn eru grafin orðin „Hugsa sér frið“ á 24 mismunandi tungumálum. Til viðbótar við Friðarsúluna lét Yoko Ono grafa tímahylki við verkið þar sem geymdar eru óskir fólks hvaðanæva að úr heiminum. Óskunum hafði Yoko Ono safnað saman frá því á síðustu öld.
Kveikt er á Friðarsúlunni á afmælisdegi eiginmanns Yoko Ono, John Lennon, ár hvert þann 9. október og slökkt á henni aftur á dánardegi hans, þann 8. desember.

Viðey Ingvarsslysið

Punktur 4: Ingvarsslysið

4-9 ára:
Þetta akkeri er til minningar um skip sem fórst hér rétt hjá Viðey fyrir 115 árum síðan. Þá voru björgunarsveitir ekki til og því var ekki hægt að bjarga skipinu. Í dag höfum við alls konar báta, þyrlur og kafara sem koma skipum og fólki til bjargar á sjó.

Fyrir lengra komna:
Fyrir rúmum 100 árum síðan gerði mikið vonskuveður og fórust 70 sjómenn af fimm skipum á fimm dögum. Þar á meðal fórst öll áhöfnin á kútter Ingvari hér rétt fyrir utan Viðey þann 7. apríl árið 1906. Íbúar Viðeyjar flykktust niður í fjöru með teppi, heitt kaffi, kaðla og fleira í von um að bjarga skipverjum en án árangurs þar sem skipið var of langt úti. Eina tækið sem mögulega hefði getað komið mönnunum til bjargar, fluglínubyssa, var ekki til á landinu. Sjómennirnir á Ingvari týndu því lífinu einn af öðrum á innan við fjórum klukkustundum. Þetta akkeri er talið vera úr Ingvari en það fannst við Hjallasker árið 1986. Það stendur hér til minningar um þá 20 menn sem fórust með kútternum.

Eiðið Viðey

Punktur 5: Eiðið

Talið er að Viðey hafi upphaflega verið tvær eyjar: Vesturey og Heimaey en að Eiðið hafi orðið til og fest þær saman. Stundum gengur sjórinn yfir Eiðið (í stórstraumsflóðum) og telja jarðfræðingar að það muni eyðast og hverfa með tímanum.
Þið farið því nú af Heimaey og yfir á Vesturey.

Viðey Áfangar

Punktur 6: Áfangar

Súlurnar sem þið sjáið, liggja allan hringinn í kringum Vesturey. Þær eru listaverk eftir bandaríska myndhöggvarann Richard Serra sem reist var hér í Viðey árið 1990.
Gaman er að ganga á milli þeirra í góðu veðri og athuga hvaða landlag í fjarska listamaðurinn var að reyna að ramma inn.

Áletraðir steinar Viðey

Punktur 7: Áletraðir steinar

Hér er að finna þrjá áletraða steina. Getið þið fundið þá alla?
Fólk sem kom hingað í Viðey skrifaði nöfnin sín í steinana en það má ekki lengur.
Hvað finnst ykkur um að fólk skrifi nöfnin sín í náttúruna eða á fjölfarna staði?

 

Hér lýkur norðurleið (rauðu stjörnurnar)

Takk fyrir komuna!

 

Hér hefst austurleið (bláu stjörnurnar)

Viðey Skólahúsið

Punktur 8: Skólinn

4-10 ára:
Hér var einu sinni skóli fyrir krakkana sem bjuggu í Viðey og tilheyrði hann Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Á þeim tíma sem skólinn var hér þurftu krakkar ekki að byrja í grunnskóla fyrr en þau voru orðin 10 ára. Þá áttu þau að kunna að lesa, fara með stafrófið og geta skrifað smá. Þau gátu svo hætt aftur í skólanum þegar þau voru 14 ára en margir völdu að halda áfram nokkur ár í viðbót í gagnfræðaskóla.

Fyrir lengra komna:
Hér var eitt sinn skóli fyrir þau börn er bjuggu í Viðey og heyrði hann undir Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi en Viðey taldist til Seltjarnarness í þá daga. Árið 1926 voru ný lög sett um skólaskyldu og áttu öll börn að hefja nám við 10 ára aldur. Krakkar áttu að kunna að lesa, fara með stafrófið og örlítið í skrift áður en þau hæfu nám við barnaskóla. Fram að því áttu heimilin sjálf að sjá um að mennta ungviðið.
Skólahúsið í Viðey var reist árið 1928 og var skólahald í húsinu fram að 5. áratug síðustu aldar. Árið 1943 lagðist þorpið í Viðey í eyði og var gamli skólinn að lokum íbúðarhús í eigu skáldsins Steins Steinarr.

Viðey Þorpið

Puntur 9: Þorpið

4-10 ára:
Fyrir næstum 100 árum síðan bjó ansi margt fólk hér í Viðey eða um 138 manns. Flestir unnu þá við að verka fisk en þar á undan hafði verið stórt mjólkurbú þar sem voru 48 kýr.
Hér á eyjunni eru þó nokkrir brunnar þar sem fólkið sem bjó hér sótti vatnið sitt í. Stundum seldu íbúar Viðeyjar vatn til skipa sem áttu leið hjá.

Fyrir lengra komna:
Árið 1907 var úgerðarfélagið P.J. Thorsteinsson & Co. stofnað og átti hlutafé þess að vera ein milljón, sem þá var gríðarleg upphæð. Félagið kallaðist því Milljónafélagið og var miðstöð þess á austurenda Viðeyjar. Á skömmum tíma myndaðist þorp hér með fjölda íbúðar- og fiskverkunarhúsa. Hér var því besta höfnin við Faxaflóa.
Milljónafélagið varð gjaldþrota árið 1914 en fiskverkun hélt áfram á Sundbakka. Árið 1924 gerði Kárafélagið eyjuna að útgerðarstöð sinni og fjölgaði þá þorpsbúum og urðu þeir flestir 138 árið 1930. Ári síðar, árið 1931, lagði félagið upp laupana og tók þá að fækka í þorpinu sem lagðist loks í eyði árið 1943.

Þórsnes Viðey

Punktur 10: Þórsnes

4-10 ára:
Hér á Þórsnesi héldu víkingar líklegast samkomur sem kölluðust blót. Þá trúðu flestir Íslendingar á goð/æsi sem bjuggu í Ásheimi fyrir ofan skýin. Meðal goðanna var til dæmis Óðinn, Freyja og Þór (sem Þórsnes er e.t.v. nefnt eftir?).
Óðinn átti tvo hrafna sem sögðu honum hvað gengi á í heiminum. Þór átti tvo geithafra sem drógu vagn hans og lifnuðu aftur við ef þeir dóu. Freyja átti tvo ketti sem drógu vagninn hennar og gat hún sjálf breytt sér í fálka. Á blótum héldu víkingarnir uppá goðin og báðu þau um að vera góð við sig og sína. Alveg eins og margir sem fara í kirkjur eða moskur og biðja til Guðs nú á dögum.

Fyrir lengra komna:
Talið er að Þórsnes hafi verið blótstaður í heiðni. Við landnám var nesið mun stærra en nú hefur það látið á sjá vegna landbrots. Ekki er margt vitað um blót í heiðnum sið en blót voru haldin á Norðurlöndunum þar sem dýrum var oft fórnað og jafnvel mannslífum í einhverjum tilvikum.
Ekki hafa þó fundist merki um að manneskjum hafi verið fórnað hér á Íslandi.  

Réttin Viðey

Punktur 11: Réttin

Á Íslandi hafa réttir lengi verið haldnar á hverju hausti. Á sumrin ganga kindurnar lausar með lömbin sín og þarf að smala þeim saman þegar kólna fer aftur í veðri. Í rétt er kindum fyrst smalað inn í almenning sem er stóra svæðið í miðri réttinni. Út frá almenningnum eru dilkarnir en hver og einn bóndi á einn dilk. Þannig flokka bændur kindurnar í sundur og geta haldið heim á leið með sitt fé.
Á Íslandi í gamla daga voru réttir oft byggðar úr grjóti þar sem mikið er af því á landinu öfugt við tré.

Viðey Kvennagönguhólar

Punktur 12: Kvennagönguhólar

Sagt er að hér í Kvennagönguhólum búi álfkonur. Ekki er víst hvers vegna svæðið heitir þessu nafni en ef til vill er það vegna þess að álfkonur ganga um hólana.
Trúir þú á álfa?

 

Takk fyrir komuna!

 

Upplýsingar

Upplýsingar

Viðey

104 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6360

Sími: (+354) 519 5000

Almennar fyrirspurnir

Viðey - Borgarsögusafn

Veitingar og útleiga

Elding

Skólaheimsóknir

Hafðu samband

Opið

Opið

Sumar

15. maí - 31. ágúst siglt daglega.

Fyrsta sigling til Viðeyjar 10:15. Síðasta sigling frá Viðey 18:30.

Vetur

1. sept - 14.maí. Eingöngu siglt um helgar.

Aðgangseyrir

Ferjugjald

Fullorðnir

2.100 kr.

Börn 7 - 17 ára

1.050 kr.

Börn 0 - 6 ára

Ókeypis í fylgd fullorðinna

Eldri borgarar, 67 + og öryrkjar

1.890 kr.

Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur

10% afsláttur

Verðlistinn gildir fyrir 2023

Skráðu þig á póstlista Viðey

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.