Viðey-Friðey sumarnámskeið 2022

Viðey-Friðey er yfirskrift vikunámskeiða fyrir börn á aldrinum 8-9 ára sem fram fara í skólahúsinu og náttúru Viðeyjar sumarið 2022.

Börn að taka þátt í sumarnámskeiðinu Viðey friðey sumarið 2021

Börn á aldrinum 8-9 ára (fædd 2013 og 2014)  erum boðin velkomin á vikunámskeið í friðsælu náttúruperlunni Viðey í júní og júlí 2022. Börnin nema land, upplifa sögu og náttúru eyjarinnar í gegnum skapandi og listrænt starf innan- og utandyra. Þau fá að kynnast gamla skólahúsinu í Viðey sem var hluti af þorpinu sem hvarf. Í nýuppgerðu skólahúsinu er sérlega góð aðstaða til tilrauna og rannsókna á gersemum náttúru eyjunnar sem verða notaðar sem efniviður í myndlistarsköpun og leiki. Unnið verður sérstaklega með friðarupplifun í gegnum listir, leiki, markvissa útiveru og hreyfingu. 

Markmið námskeiðsins er að hvert og eitt barn njóti sín á eigin forsendum undir handleiðslu fagfólks. Leitast verður við að skapa vingjarnlegt umhverfi fyrir börnin án snjalltækja, þar sem þau eignast góðar minningar í hópi jafningja. Misjafnt er hver kennir hverju sinni en meðal kennara á námskeiðunum eru: Ása Helga Ragnarsdóttir Proppé aðjúnkt í kennslufærði leiklistar og sérfræðingur í staðartengdri útimenntun, Björk Bjarnadóttir umhverfisþjóðfræðingur, Fríða Kristjánsdóttir kennari af myndlistarbraut, Guðrún Gísladóttir myndlistarkennari og sérfræðingur í samþættingu myndlistar og náttúrufræði, og Sara Riel myndlistarmaður.

Fjöldi barna er takmarkaður á námskeiðinu, að lágmarki 12 börn og að hámarki 15 börn. Skráning fer fram á sumar.vala.is. Þar er hægt að leita að námskeiðinu með því að skrifa “Viðey” í reit fyrir heiti námskeiðs.

Tímasetning námskeiða:   

  • Námskeið I:    13.-16. júní (4 dagar) 
  • Námskeið II:    20.-24. júní 
  • Námskeið III:   27. júní – 1. júlí 
  • Námskeið IV:   4.-8. júlí 

Viðey-Friðey er samstarfsverkefni Borgarsögusafns og Listasafns Reykjavíkur og hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði.

Skipulag:

Kennarar námskeiðsins taka á móti börnunum við bryggjuna á Skarfabakka og ferjan siglir af stað stundvíslega kl. 9:00 á hverjum morgni. Þess vegna er gott að mæta amk 15 mínútur fyrr, svo það gefist tími til að spjalla við kennara ef eitthvað er.  

Ferjan kemur til baka á Skarfabakka kl. 15.45 á hverjum degi.  

Börnin þurfa að hafa með sér nesti fyrir morgunhressingu, hádegismat og síðdegishressingu, skjólgóðan fatnað og góða skó. Gott er að hafa nesti og aukafatnað í bakpoka því það er um 20-30 mínútna gangur frá bryggjunni í Viðey og í skólahúsið þar sem námskeiðið fer að stórum hluta fram. 

Heimsókn í Viðey felur í sér töluverða útiveru og gott er að hafa í huga að hvassara getur verið í eynni en á landi. Göngustígar liggja um graslendi sem getur verið blautt og suma dagana verður farið í fjöru. Við minnum á sólarvörn áður en lagt er af stað. Einnig er nauðsynlegt að börnin komi með inniskó þar sem gólf skólahússins er gróft. 

Kostnaður:  

38.500 kr. fyrir 5-daga námskeið  

32.500 kr. fyrir 4-daga námskeið  

20% afsl. fyrir systkini

Ummæli foreldra eftir sumarið 2021:

„Ég verð eiginlega að fá að koma á framfæri kærum þökkum fyrir frábært námskeið, Viðey – Friðey. Strákurinn minn, 8 ára, tók þátt í því í síðustu viku og naut sín svo vel og fannst alveg ofboðslega skemmtilegt. Skemmtilegasta námskeið sem hann hefur farið á. Takk fyrir að bjóða upp á svona flott, skemmtileg og fræðandi námskeið :)“

„Ég á gutta sem var á námskeiðinu í síðustu viku og ég held að barnið hafi ekki lært eins mikið í skapandi greinum þau þrjú ár sem hann er búinn að vera í skapandi greinum í grunnskóla og þessa 5 daga í Viðey. Hann vaknaði spenntur og glaður alla morgna, kom heim jákvæður og tilbúinn að miðla og deila því sem hann var búinn að sýsla. Síðan voru það öll þessu frábæru listaverk sem hann kom með í vikulokin. Sköpun í víðri skilgreiningu, jákvæðni og þakklæti og gefandi og fallegt viðhorf til umheimsins og umhverfisins kom hann með út úr vikunni og sjálfstraust til að halda áfram á þessari braut. Fullur af nýjum fróðleik og búin að skipuleggja leiðsögn fyrir fjölskylduna bíður hann spenntur eftir að fara aftur út í uppáhalds eyjuna hans.“

mynd tekin á sumarnámskeiðinu Viðey friðey

Upplýsingar

Upplýsingar

Viðey

104 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6360

Sími: (+354) 519 5000

Almennar fyrirspurnir

Viðey - Borgarsögusafn

Veitingar og útleiga

Elding

Skólaheimsóknir

Hafðu samband

Opið

Opið

Sumar

15. maí - 31. ágúst siglt daglega.

Fyrsta sigling til Viðeyjar 10:15. Síðasta sigling frá Viðey 18:30.

Vetur

1. sept - 14.maí. Eingöngu siglt um helgar.

Aðgangseyrir

Ferjugjald

Fullorðnir

1.950 kr.

Börn 7 - 17 ára

975 kr.

Börn 0 - 6 ára

Ókeypis í fylgd fullorðinna

Eldri borgarar, 67 + og öryrkjar

1.755 kr.

Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur

10% afsláttur

Verðlistinn gildir frá 15. maí 2022

Skráðu þig á póstlista Viðey

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.