Safneign
Borgarsögusafn Reykjavíkur varðveitir um 29.000 lausa muni, um 6 milljónir ljósmynda og um 4000 muni sem tengjast sjósókn auk safnhúsa í Árbæjarsafni. Upplýsingar um hluta af safnkosti eru nú aðgengilegar almenningi í menningarlega gagnagrunninum sarpur.is.
Söfnunarstefna
Borgarsögusafn Reykjavíkur safnar einkum munum frá Reykjavík og nágrenni, bæði lausum munum og ljósmyndum. Söfnunarstefnan tengist sýningarstefnu safnsins sem og annarri starfsemi og miðlun. Á undanförnum árum hefur áhersla verið lögð á söfnun samtímaminja. Kjarninn í söfnunarstefnunni er þríþættur; hversdagsmenning og daglegt líf íbúa, atvinnuhættir með sérstaka áherslu á sjóminjar og ljósmyndir sem endurspegla íslenskan ljósmyndaarf.
Borgarsögusafn Reykjavíkur tekur við gripum sem falla að söfnunarstefnu safnsins og veitir upplýsingar um safngripi. Safnið greiðir ekki fyrir gripi.
Forvarsla
Forvarsla felur í sér þætti eins og rannsóknir, skráningu, forvarnir, fyrirbyggjandi forvörslu og viðgerðir sem miða að því að koma safnmunum í stöðugt ástand. Forverðir rannsaka ástand muna og þau efni sem þeir eru unnir úr. Þeir leggja til aðgerðir sem tefja fyrir skemmdum og eru munum til styrktar. Einnig skrá þeir ástand muna og gera skýrslu meðan á viðgerð stendur. Sú skýrsla er skrifleg og studd ljósmyndum. Meðferðarskýrsla er mikilvæg þar sem hún innheldur upplýsingar um viðgerðir á munum, þ.e. upplýsingar til næstu kynslóða forvarða og safnafólks. Lögð er áhersla á að allar viðgerðir séu afturkræfar. Viðkvæmum munum er pakkað inn í sýrufrían pappír og settur í þar til gerðar öskjur.
Fyrirbyggjandi forvarsla felst í því að skapa ákjósanlegt umhverfi í sýningarsölum, safnahúsum og geymslum til að tryggja langtímavarðveislu safnmuna. Þá er meðal annars átt við það ljósmagn og hita- og rakastig sem safnmunirnir búa við. Með því að stjórna þessum þáttum verður hrörnun munanna hægari og líftíminn lengist. Einnig er mikilvægt að takmarka meðhöndlun safngripa, að gestir geti ekki snert þá og að starfsfólk fylgi þeim reglum um meðhöndlun sem eiga við hverju sinni.