Telma Har│Glansmyndir

Sýningin "Glansmyndir"er yfirskrift sýningar í Skotinu sem samanstendur af litríkum og hálf súrrealískum ljósmyndaverkum sem listamaðurinn Telma Har hefur sett saman á ólíkan hátt.
Í listsköpuninni fæst Telma við eigin sjálfsmynd sem mótast hefur af erfðum, uppeldi og umhverfinu. Í verkunum notar hún sjálfa sig sem hálfgerða „gínu“ til að túlka tilteknar hugmyndir, upplifun og reynslu og túlka þannig hugmyndina sjálfið og veruleikann sem það tilheyrir.
Viðfangsefni sýningarinnar er sprottið upp úr vangaveltum í tengslum við söfnunaráráttu, að safna efnum, hárkollum, fötum og hlutum með það að markmiði að nota það á skapandi hátt, raða saman ólíkum efnivið, og þannig gefa því nýtt líf. Í ferlinu breytist oft myndbyggingin með uppsetningu á hlutum og líkamsstöðu til að skapa meira jafnvægi eða auka óreiðu. Titill sýningarinnar, „Glansmyndir“ vísar í þessa fegrun á eigin veruleika en einnig í 19. og 20. aldar pappírs leikföng þegar glansandi myndir voru prentaðar með steinprents (lithograph) tækni sem börn söfnuðu og límdu í bækur eða söfnuðu í öskjur.
Í verkunum notar hún sjálfa sig sem hálfgerða „gínu“ til að túlka tilteknar hugmyndir, upplifun og reynslu og túlka þannig hugmyndina sjálfið og veruleikann sem það tilheyrir.
Telma notar myndavélina sem tæki til að skapa óraunverulegt og óhlutbundið myndefni, með það að markmiði að draga fram ólík form og samsetningu hlutanna, og velta þannig upp spurningum um norm og viðmið um fegurð, kyn og stöðu. Verkin eru samklippimyndir sem eru annaðhvort klipptar og settar saman á pappír eða í myndvinnslu. Vinnsla og frágangur verkanna sýnir áhorfendanum þannig við fyrstu sýn ákveðna glansmynd en við nánari skoðun hafa verkin að geyma hversdagslega hluti eins og hárspöng, sokkabuxur eða leikföng. Telma notar einungis eigið myndefni og gefa klippimyndirnar þannig innsýn inn í ólík verk hennar.
Telma lauk námi í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og Ljósmyndaskólanum árið 2024. Hún hefur á árunum 2023 og 2024 haldið þó nokkrar einstaklings sýningar auk samsýninga, bæði hér á landi og utan landsteinanna.
Heimasíðu Telmu Har má sjá hér.