Björg­un­ar­a­frekið við Látra­bjarg: um heim­ilda­myndina og björgun á sjó

Björgunarafrekið við Látrabjarg: um heimildamyndina og björgun á sjó

Verið velkomin á safnið þann 30. mars kl. 13:00-16:30 á áhugaverða dagskrá í tengslum við heimildamynd Óskars Gíslasonar um eitt fræknasta björgunarafrek Íslandssögunnar—þegar tólf skipverjum af togaranum Dhoon var bjargað þann 12. desember 1947.

Dagskráin er ókeypis, en áhugasamir um sýninguna Fiskur & fólk og Varðskipið Óðin þurfa að greiða aðgangseyri að þeim. Öll velkomin! Dagskrá sunnudaginn 30. mars: 13:00-13:20 - Gunnar Tómas Kristófersson, sérfræðingur varðveislu og rannsókna hjá Kvikmyndasafni Íslands segir frá mynd Óskars. 13:20-14:10 – Sýning á kvikmyndinni Björgunarafrekið við Látrabjarg eftir Óskar Gíslason. 14:10-14:30 – Örn Smárason, sviðsstjóri sjóbjörgunar hjá Björgunarsveitinni Ársæl segir frá sjóbjörgunum dagsins í dag. 14:30-15:00 – Óttar Sveinsson, höfundur hinna geysivinsælu Útkalls-bóka verður með bækur til sölu og áritunar. 14:00-16:30 – Reykjavíkurdeild Slysavarnafélagsins verður með ljúffengt kaffi og með því til sölu til styrktar sínu mikilvæga starfi. Björgunarafrekið við Látrabjarg eftir Óskar Gíslason rekur hetjudáðir meðlima í Björgunarfélaginu Bræðrabandinu sem björguðu 12 af 15 skipbrotsmönnum af breska togaranum Dhoon sem strandað hafði við Látrabjarg þann 12. desember 1947. Afrek björgunarfólksins vakti mikla athygli innanlands sem utan. Fljótlega var ákveðið að gera þyrfti kvikmynd um afrekið og var hún unnin af Óskari Gíslasyni og björgunarmönnum sem léku björgunina fyrir myndavélarnar við hættulegar aðstæður í Látrabjargi. Sú merkilega tilviljun átti sér stað við tökurnar að annað skip strandaði á Patreksfirði og þurftu björgunarmenn því að stökkva til í útkall. Óskar fylgdi þeim eftir og náði einstökum myndum af björgunarmönnum við störf sín í aftakaveðri í stórgrýttri fjörunni. Honum tókst að samtvinna sviðsettu myndirnar af björgunarmönnunum og hinni raunverulegu björgun og búa til eina áhrifaríkustu heimildamynd kvikmyndasögunnar sem kom svo út árið 1949. Kvikmyndin verður í sýningu á Sjóminjasafninu til 8. apríl 2025. Viðburðurinn er unninn í góðu samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands, Reykjavíkurdeild Slysavarnafélagsins, Björgunarsveitina Ársæl og Óttar Sveinsson. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða er gott á Sjóminjasafninu, sérstaklega við inngang Grandagarðsmegin. Lyfta er á milli hæða. Strætisvagn, leið 14, stoppar nálægt inngangi safnsins, Grandagarðsmegin. Ljósmynd: Óskar Gíslason (1901-1990)