Blóm­vendir og blóm­st­ursaumur

Blómvendir og blómstursaumur

18. ágúst, á afmælisdegi Reykjavíkurborgar, verður mikið um dýrðir á Árbæjarsafni er bæði blómahönnuðir og félagar í Heimilisiðnarfélagi Íslands sækja safnið heim.

Það ber vel í veiði því gestir eiga kost á að eignast blómvönd beint úr beði í tilefni dagsins. Blómdís og jóndís blómahönnuðir (Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Valgerður Jóndís Guðjónsdóttir) kenna gestum hönnun og samsetningu blómvanda úr sumarblómum sem hafa verið ræktuð á Árbæjarsafni í sumar. Gestum býðst að koma við á safninu hvenær sem er á milli kl. 13-16 þennan dag og spreyta sig á blómvandagerð. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Grasagarðs Reykjavíkur og Borgarsögusafns. Þá munu félagar úr Heimilisiðnarfélaginu sýna lifandi handverk eins og baldýringu, orkeringu, spuna, og fleira í hinum ýmsu safnhúsum. Einkum verður sjónum beint að blómstursaumi en það er útsaumsaðferð sem notuð er til að skreyta pils, svuntu og samfellu faldbúninga. Blómstursaumur er saumaður eftir ýmsum munstrum sem dregin eru eða þrykkt á efnið. Sigurður Guðmundsson málari (1833-1874) hannaði blómamunstur fyrir kyrtla og skautbúninga en hann leigði einmitt herbergi í safnhúsinu Hansenhús á sínum tíma. Það er því viðeigandi að félagar úr Heimilisiðnarfélaginu sýni gestum hvernig sóleyjar spretta fram undan saumnálinni einmitt í því húsi. Hver veit nema Sigurður líti yfir öxlina á þeim! Dagskráin stendur frá klukkan 13-16 en safnið er opið 10 -17. Ókeypis aðgangur fyrir börn, öryrkja og menningarkortshafa. Öll velkomin!