Blómvendir og blómstursaumur

Sunnudaginn þann 17. ágúst kl. 13-16 verður mikið um dýrðir á Árbæjarsafni er bæði blómahönnuðir og félagar í Heimilisiðnaðarfélagi Íslands sækja safnið heim.
Það ber vel í veiði því gestir eiga kost á að eignast blómvönd beint úr beði. Blómdís og jóndís blómahönnuðir (Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Valgerður Jóndís Guðjónsdóttir) kenna gestum hönnun og samsetningu blómvanda úr sumarblómum sem hafa verið ræktuð á Árbæjarsafni í sumar. Þá munu félagar úr Heimilisiðnaðarfélaginu sýna lifandi handverk eins og baldýringu, orkeringu, spuna, og fleira í hinum ýmsu safnhúsum. Einkum verður sjónum beint að blómstursaumi en það er útsaumsaðferð sem notuð er til að skreyta pils, svuntu og samfellu faldbúninga. Blómstursaumur er saumaður eftir ýmsum munstrum sem dregin eru eða þrykkt á efnið. Dillonshús café verður opið með dýrindis veitingar á boðstólum í notalegu andrúmslofti. Dagskráin stendur frá klukkan 13-16 en safnið er opið 10 -17. Ókeypis aðgangur fyrir þau sem mæta í þjóðbúningum, börn, öryrkja og menningarkortshafa. Öll velkomin! Aðgengi: Gangstígar á safnsvæðinu eru flestir malarstígar. Inn í flest húsin er gengið upp eitt þrep eða yfir þröskuld. Hjálparhundar eru velkomnir í safnið. Strætisvagnar: Næsta stoppistöð heitir Árbæjarsafn (1 mín. gangur). Aðrar nálægar stoppistöðvar heita Laxakvísl og Fagribær (5-6 mín. gangur). Bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru við inngang safnsins. Öll bílastæði eru ókeypis.