Bráðum koma blessuð jólin - jóla­dag­skrá

Bráðum koma blessuð jólin - jóladagskrá

Bráðum koma blessuð jólin er yfirskrift jóladagskrár Árbæjarsafns sunnudagana 8. og 15. desember en þá daga gefst gestum tækifæri að njóta aðventunnar og upplifa jólin eins og þau voru í Reykjavík í þá gömlu góðu daga.

Jólaundirbúningur er í fullum gangi í bænum. Í Árbæ sker fólk út laufabrauð, kembir ull og spinnur garn. Í Hábæ bjóða húsbændur gestum að smakka íslenskt hangikjöt og í Nýlendu tálgar maður skemmtilegar fígúrur úr tré. Kæsta skatan er komin í pottinn í Efstabæ og í Miðhúsum eru prentuð falleg jólakort. Kaffiilmur berst frá Dillonshúsi en þar er upplagt að setjast niður fá sér tíu dropa og smá bakkelsi með. Í hesthúsinu í Garðastræti eru hjúin í óðaönn að steypa kerti úr tólgi. Jólahald heldra fólks við upphaf 20. aldar er sýnt í Suðurgötu 7 og í Krambúðinni er kramarhús, konfekt og ýmis jólavarningur til sölu. Helstu viðburðir: 14:00 Táknmálsleiðsögn um jólin í gamla daga 14:00 Guðsþjónusta í safnkirkjunni 15:00 Sungið og dansað í kringum jólatréð á torgi safnsins 14:00-16:00 Jólasveinar skemmta gestum á víð og dreif um safnsvæðið og taka þátt í söng og dansi. Frítt inn fyrir börn, öryrkja og menningarkortshafa. Aðrir greiða 2.350 kr. Vinsamlegast athugið að dagskráin endar kl. 16 en safnið er opið til kl. 17. Gagnlegar upplýsingar: Aðgengi: Gangstígar á safnsvæðinu eru flestir malarstígar. Inn í flest húsin er gengið upp eitt þrep eða yfir þröskuld. Hjálparhundar eru velkomnir í safnið. Strætisvagnar: Næsta stoppistöð heitir Árbæjarsafn (1 mín. gangur). Aðrar nálægar stoppistöðvar heita Laxakvísl og Fagribær (5-6 mín. gangur). Bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru við inngang safnsins. Öll bílastæði eru ókeypis.