Fjöl­skyldu­fjör á safnadaginn - Frítt inn!

Fjölskyldufjör á safnadaginn - Frítt inn!

Við bjóðum gesti velkomna í Sjóminjasafnið á safnadaginn. Frítt inn!

Hafsbotninn minn Sjálfbær smiðja í sal á 2. hæð, oft nefnt Hornsílið. Þar er öllum velkomið að koma og föndra sinn eiginn hafsbotn. Þemað er hafsbotninn við Ísland en þar búa fjölbreyttar sjávarlífverur eins og krossfiskar, krabbar og önnur botndýr. Botndýrin eru mikilvæg í fæðukeðjunni fyrir margar fisktegundir eins og t.d. þorsk. Einnig er þar að finna fjölbreytilegt líf af botnþörungum eins og stórþara. Stundum er hafsbotninn harður og stundum mjúkur sandur. Í smiðjunni getur þú búið til þinn eiginn hafsbotn með öllu því föndurefni sem við eigum til. Verður hann með mjúkan sandbotn, kannski með einum krossfiski úr úrklippum úr tímariti og földum fjársjóði? Hvernig er hafsbotninn þinn? Hvaða dýr búa þar? Fjölskylduleikur um sýninguna Fiskur og fólk. Léttur og skemmtilegur leikur þar sem fjölskyldan getur skoðað sýninguna saman í gegnum leik. Þrjú erfiðleikastig í boði. Léttasta erfiðleikastigið hentar fyrir leikskólabörn og hin tvö fyrir grunnskólastig. Allan daginn verður hægt að setjast niður í Bryggjusalnum 1.hæð og spila borðspil sem eru þar í boði. Litahorn verður einnig í Bryggjusalnum þar sem finna má pappír og litabækur fyrir börn á öllum aldri. Pop-up fríbúð verður í öðrum enda salarins þar sem föt, bækur og blómafleggjarar verða í boði fyrir þau sem vilja endurnýta. Frítt inn í tilefni dagsins og öll velkomin!